Innflutningskvótar á pottaplöntur eru tímaskekkja

Innflutingskvóti fyrir einni pottaplöntu kostar 178 kr. Fyrir eitt kg af alifugli kostar innflutingskvóti 393 kr. Neytendur líða fyrir þessa innflutningstolla í formi hærra vöruverðs. Og hvaða rök eru eiginlega fyrir því að vernda innlenda framleiðslu á pottaplöntum og alifugli?

Þann 20. júní síðastliðinn seldi landbúnaðarráðherra tollkvóta fyrir afskorin blóm og pottaplöntur vegna innflutnings fyrir tímabilið júlí til desember 2005. Útboð var notað til þess að selja kvótana. Tilboðum fimm fyrirtækja um innflutning á 125.000 stk. af afskornum blómum var tekið. Meðalverð tilboðanna var 23 kr./stk. Einu tilboði var tekið í innflutning á pottaplöntum. Það tilboð var um innflutning á 2500 stk á verðinu 178 kr./stk.

Afskorin blóm og pottaplöntur eru því miður ekki það eina sem bannað er að flytja til landsins nema innflutningskvóti sé keyptur. Sama dag tilkynnti landbúnaðarráðherra einnig um sölu á tollkvótum fyrir innfluting á nautgripakjöti, alifuglakjöti, svínakjöti, öðru kjöti, smjöri, ostum og öðrum kjötvörum.

Hér er listi með meðalverði tekinna tilboða í hverjum vöruflokki fyrir sig:

1. Afskorin blóm: 23 kr./stk.

2. Pottaplöntur: 178 kr./stk.

3. Nautgripakjöt: 175 kr./kg

4. Alifulgakjöt: 393 kr./kg

5. Svínakjöt: 0 kr./kg

6. Annað kjöt: 401 kr./kg

7. Ostar: 297 kr./kg

8. Smjör: 0 kr./kg

9. Unnar kjötvörur: 507 kr./kg

Um þessa úthlutun má lesa á vef landbúnaðarráðuneytisins.

Þessi innflutingshöft eru fáránleg tímaskekkja. Þau kosta neytendur hundruð ef ekki þúsundir milljóna á ári hverju í formi hærra vöruverðs.

Í sumum tilfellum er um vernd á hefðbundnum búgreinum að ræða þar sem færa má rök fyrir einhverri vernd (þó ekki svona mikilli). En í öðrum tilfellum er um nýjar búgreinar að ræða þar sem engin rök fyrir vernd eru fyrir hendi. Af hverju er til dæmis innlend alifuglaframleiðsla vernduð? Eða framleiðsla á pottaplöntum?

Á undanförnum árum hefur lítið áunnist við það að vinda ofanaf styrkjum til landbúnaðarmála. Þar er gríðarlega mikið verk fyrir höndum. Ýmislegt er flókið í því sambandi og augljóslega þarf að fara sér hægt á ýmsum sviðum. En annað er afskaplega einfalt og augljóst. Eitt af því er að tollkvótar á pottaplöntur og alifugla eiga að hverfa. Það má framkvæma með því að hækka kvótana um t.d. 10% á ári þar til þeir verða hærri en innflutningseftirspurnin.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.