„Prófkjör snýst ekki um málefni!“

Gísli Marteinn Baldursson tilkynnti í kaffisamsæti í Iðnó í gær að hann hyggðist sækjast eftir 1. sæti á lista Sjálfstæðismanna í kosningum í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík í vor. Pistlahöfundi hefur þótt eftirtektarvert málefnaleysi frambjóðandans og furðar sig á því hér.

Gísli Marteinn Baldursson tilkynnti í kaffisamsæti í Iðnó í gær að hann hyggðist sækjast eftir 1. sæti á lista Sjálfstæðismanna í kosningum í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík í vor. Ef marka má skoðanakannanir þær sem birtust í dag lítur út fyrir að töluverðar líkur séu á því að sá sem skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðismanna í borginni sitji í borgarstjórastóli næsta kjörtímabil.

Gísli Marteinn hefur, allt frá því hann fyrst tilkynnti að hann hyggðist sækjast eftir einu af efstu sætum listans í næsta prófkjöri, lagt áherslu á það að það sé kominn tími á kynslóðaskipti í forystu sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Hann hefur rætt um það að Reykvíkingar þurfi nýja framtíðarsýn og hann vilji veita þeim hana. Það þurfi að vera alveg skýrt fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn í borginni stendur.

Það vakti því athygli undirritaðrar í fréttum af tilkynningu Gísla Marteins og viðtölum við hann síðustu tvo daga að nú þegar hann hefur tilkynnt að hann stefni á að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum, og steypa þar með af stóli núverandi oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, hefur hann engin málefni að bjóða kjósendum sínum!

Breyttu áherslurnar, framtíðarsýnin sem bjóða þarf kjósendum og skýru línurnar hafa breyst í vinsældarkosningar. Í kaffisamsætinu merka með stuðningsmönnum sínum í gær lýsti Gísli Marteinn því skýrt yfir að prófkjör snérist sko ekki fyrst og fremst um málefni. Prófkjör snérist einungis um það að velja það andlit sem líklegast væri til að vera vinsælt meðal hins almenna kjósenda. Öll dýrin í Sjálfstæðisflokknum séu hvort sem er vinir. Nú þurfi hins vegar að velja það dýr sem líklegast sé til að vera vinur hins almenna kjósanda. Skítt með það hver hafi fram að færa stefnu sem Sjálfstæðismenn geti verið stoltir af að bjóða borgurum! Skítt með framtíðarsýnina! Skítt með málefnin!

Þá hefur það ekki verið síður eftirtektarvert að Gísli Marteinn virðist telja það sinn helsta kost, að hann er svipað gamall og Davíð Oddson var þegar hann tók við embætti borgarstjóra í Reykjavík. Honum verður títtrætt um aldur sinn og unglegt viðmót, hvernig tíminn vinni með honum, og hvað aðstæður hans séu nú svipaðar aðstæðum Davíðs þegar hann var í sömu sporum.

Gísli Marteinn hefur hins vegar lítið dregið fram sér til tekna aðra hluti sem ættu að mínu mati að telja mun meira, svo sem fyrri reynsla hans af stjórnmálum, og þá sérstaklega borgarmálum, sem varaborgarfulltrúi flokksins. Maður spyr sig óneitanlega hvort það sé vegna þess að hann hafi bara lítið sinnt borgarmálunum á síðasta kjörtímabili. Í framhaldi af því er þá rökrétt að spyrja sig hvers vegna hann hafi tekið sæti sem varaborgarfulltrúi á síðasta kjörtímabili ef áhugi hann var svo lítill sem virst hefur. Hvort hann hafi e.t.v. litið á veru sína þar sem stökkpall í draumastólinn hans Davíðs, þegar hann hefði náð réttum aldri, en ekki sem tækifæri til að láta gott af sér leiða í þágu Reykvíkinga. Enda e.t.v. erfitt að sinna slíku þegar maður hefur engin málefni að berjast fyrir.

Ég veit ekki með ykkur, en mér mun finnast erfitt að velja mér borgarstjóraefni þegar ég hef ekkert að byggja á nema… ekkert!

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)