Veðravítið Reykjavík

Reykjavík er veðravíti. Landsbyggðarfólk sem hyggur á búferlaflutninga til höfuðborgarinnar ætti að gera sér grein fyrir þessu sem fyrst. Öll óveður og ófærð landsbyggðarinnar blikkna í samanburði við þau gjörningaveður sem yfir borgina við sundin ganga

Reykjavík er veðravíti. Landsbyggðarfólk sem hyggur á búferlaflutninga til höfuðborgarinnar ætti að gera sér grein fyrir þessu sem fyrst. Öll óveður og ófærð landsbyggðarinnar blikkna í samanburði við þau gjörningaveður sem yfir borgina við sundin ganga. Og íbúar þessa nær óbygglega staðar fá að súpa seyðið af þeirri skammsýni sinni að setjast þar að. Borgarstjóri kynnti í vikunni fyrir íbúum höfuðborgarinnar að sá vetur sem nú er liðinn hefði leikið höfuðborgina grátt. Var gefið í skyn að borgarsjóður hefði orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna veðurs og íbúar borgarinnar yrðu líklega hnepptir í þegnskylduvinnu til að fegra hana á ný – það er jú menningarborgarár í ár.

Það hlýtur að vera sérstakt athugunarefni fyrir fræðimenn á sviði veður- og eðlisfræði, hvers vegna vetur leggjast svo þungt á Reykjavík en sveitarfélögin allt um kring sleppa svo að segja ósködduð. Hvað er það sem veldur? Og hvers vegna eru skemmdir vegna „klakahellu“ þeirri, sem borgarstjóri kallar svo og mun hafa legið yfir borginni í vetur, miklu meiri en skemmdir af völdum þess sem kalla mætti tímabundinn jökul yfir nyrstu byggðum landsins? Og hvers vegna grípur borgarstjóri alltaf til þess að tala um þegnskyldu þegar borgarsjóður stendur frammi fyrir ófyrirséðum útgjöldum?

Svarið við öllum þessum spurningum er eitt og hið sama: Innan skamms verður fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar kynnt og leita stjórnendur hennar nú logandi ljósi að skýringum á síversnandi stöðu borgarsjóðs, þrátt fyrir hærri álögur, auknar tekjur og almennt góðæri. Það kom enda lítt á óvart að maður hinna dæmalausu útskýringa og afsakana, Hrannar B. Arnarson, sat borgarstjóra á hægri hönd þegar síðbúin stormviðvörun borgaryfirvalda var kynnt fyrir fáum dögum. Kannski er þessi kynning borgarstjóra á staðháttum í Reykjavík út frá veðurfarslegu tilliti enn ein tilraun R-listans til að fæla fólk frá höfuðborginni. Fyrri tilraunir, eins og t.d. auknar álögur, stórfelld skuldasöfnun og úrræðaleysi í skipulagsmálum með tilheyrandi lóðaskorti, hafa greinlega ekki dugað til.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.