Ímynd stjórnmálamanna

Nú styttist óðfluga í kosningar og því ekki úr vegi að skoða hversu mikilvægt er að stjórnmálamenn þekki ímynd sína.

Ímynd er sálfræðilegt hugtak sem notað er til að lýsa hugmyndum fólks um aðra einstaklinga ásamt viðhorfum til þeirra. Við fyrstu kynni okkar af öðrum verða til hugmyndir um einstaklinginn sem hafa iðulega áhrif á seinni tíma samskipti. Ímynd getur einnig átt við um hugmyndir fólks um fyrirtæki, hagsmunasamtök, félög og fleiri aðila.

Ímynd manna samanstendur af mörgum þáttum og að sama skapi er margt sem haft getur áhrif á ímynd. Slíkir þættir eru t.d útlit, skapgerð, framkoma og klæðaburður viðkomandi einstaklings. Rannsóknir hafa t.d sýnt að mismunandi framsetningar á sömu manneskjunni eins og breytingar á andlitsmyndum geta leitt til mismunandi ímyndar viðkomandi. Útlit fólks getur því haft mikil áhrif á ímynd þeirra.

Stjórnmálamenn er hópur sem byggir starf sitt og frama að miklu leyti á ímynd. Það hefur sýnt sig að kjósendur sem hafa hvorki þekkingu né áhuga á því málefni sem um ræðir nota iðulega vísbendingar, t.d. útlit til að leiðbeina sér við mat á stjórnmálamönnum. Það getur því verið sérstaklega mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að þekkja ímynd sína, kosti hennar og galla, þegar að kosningum kemur. Ef neikvæðar hliðar ímyndar eru þekktar er mögulegt að bregðast við og reyna að breyta þeim eða draga úr. Að sama skapi er hægt að leggja meiri áherslu á jákvæða þætti ímyndarinnar. Með þessu móti geta stjórnmálamenn, ásamt öðrum, átt möguleika á að ná betri árangri og meiri frama í starfi.

Rannsóknir hafa sýnt að útlit og líkamlegt atgervi stjórnmálamanna hefur áhrif á kjósendur þrátt fyrir að upplýsingar um persónuleika viðkomandi stjórnmálamanns eða málefnalegar áherslur lægju fyrir. Hins vegar getur of mikil áhersla á útlit verið tvíeggjað sverð. Mjög mikil fegurð getur þannig vakið upp mótstöðu þegar koma á upplýsingum á framfæri. Þetta virðist eiga sérstaklega við um konur og hafa rannsóknir sýnt að fallegar konur eru betur metnar ef þær eru klæddar á frjálslegan hátt heldur en ef þær eru fínar. Hins vegar sýna sömu rannsóknir að karlar séu metnir á jákvæðari hátt eftir því sem þeir eru myndarlegri og betur klæddir.

Ímynd manna byggir þó ekki eingöngu á útliti eins og áður hefur komið fram. Trúverðugleiki manna skiptir einnig miklu máli en trúverðugir flytjendur eru taldir búa yfir sérfræðiþekkingu á málefninu sem um ræðir, þeim er treystandi, þeir eru álitnir búa yfir góðvilja, krafti og ró og eru taldir félagslyndir og úthverfir. Stjórnmálamenn þurfa því ekki aðeins að huga að útliti sínu og klæðaburði heldur jafnframt framkomu og skapgerð sinni.

Ross Perot er þekkt dæmi um mann sem kunni að nýta sér jákvæðar hliðar ímyndar sinnar. Perot bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna í lok síðustu aldar. Perot var þekktur milljarðamæringur og kaupsýslumaður en hafði lítið fengist við stjórnmál fram til þessa. Hann var hins vegar vel þekktur fyrir heiðarleika sinn og var vinsæll meðal almennings þrátt fyrir að það hafi ekki nægt honum til að tryggja meirihluta atkvæða.

Sveita- og bæjarstjórnarkosningar eru á næsta leyti og Alþingiskosningar eftir tæp tvö ár. Margir gætu talið það nægan tíma til að byggja upp öfluga ímynd en hlutirnir gerast hratt í heimi stjórnmálanna. Fyrir þá stjórnmálamenn sem telja sig geta bætt ímynd sína (sem eru líklega flestir) er því nauðsynlegt að hafa hraðar hendur.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)