Syndabælið

sdfdEf þú gengur inn rétt húsasund í Reykjavík geturðu fundið allt hvað eina sem hugurinn girnist.

Það er synd…

Greint var frá því í Deiglufréttum í nýliðinni viku að þýskur bjórframleiðandi hafi hafið framleiðslu á bjór með nikótíni. Mörgum þótti það svo sannarlega saga til næsta bæjar þótt svo fáum fregnum hafi farið af viðtökum ýmissa heilsumógúla við vörunni. Hugmyndin er auðvitað eitursnjöll en svo sannarlega ekki ný af nálinni. Þannig er það velþekkt trikk að bjóða til kaups tvennu af eftirsóttum varningi í einu lagi og slá þannig tvær flugur í einu og sama höggi. Það vekur hins vegar furðu að enginn hafi dottið niður á hugmyndina fyrr — enda hafa hugmyndasmiðir þegar sett á markað tyggjó með nikótíni, plástra auk ýmissa annarra aukahluta sem aðdáendur efnisins hafa hesthúsað í sig í mörg herrans ár. Samhengisins vegna er þetta sennilega svona svipað og ef skyndilega yrði vitundarvakning á stjórnarfundi hjá Gunnars Mæjónesi í Hafnarfirði og í framhaldinu yrði ákveðið að bjóða upp á mæjónes með rjómafleytingu: Meira er nefnilega alltaf betra!

Skoðum þetta nánar.

Fjárhættuspil eru bönnuð með lögum á Íslandi. Hins vegar eru happadrætti af ýmsum toga fullkomlega leyfileg — og jafnvel þótt svo framvinda pistilsins sé orðin nokkuð augljós! — þá eru happadrætti lögleg þar sem þau eru spyrt saman við líknar- og góðgerðastarf. Með öðrum orðum er „vond “ vara spyrt saman við „góða“ vöru — og bara allir sáttir!

Auðvitað er enginn eðlismunur á venjulegum fjárhættuspilum og happadrættum. Í báðum tilvikum leggja menn fjármagn að veði í von um vinning. Jafnvel þótt svo líkur á vinningi séu að jafnaði öllum aðgengilegar áður en til veðmáls eða happadrættis er stofnað þarf sú ekki að vera raunin. Ýmis fjárhættuspil hafa nefilega ekki þekktar líkur og hæfni fjárhættuspilarans hefur ráðandi áhrif á niðurstöðuna. Dæmi: Sami einstaklingurinn hefur tvö ár í röð hampað heimsmeistaratitlinum í Póker með Texas Hold’em-fyrirkomulagi. Tilviljun?

Varla.

Reglulega berast fregnir þess efnis að yfirvöld komist á snoðir um ólöglega rekin spilavíti í Reykjavík. Og skyldi engan undra, enda eru afar margir sem hafa ánægju af fjárhættuspilum og geta engan vegin séð nauðsyn þess að banna þau með lögum. Þeir eru jú að hætta eigin peningum og fulla samúð má hafa með þeim sem sjá ekkert rangt við þá hegðun. Hvort ágóðinn rennur í vasa frumkvöðla eða góðgerðamála skiptir auðvitað engu máli í þessu samhengi. Jafnlitlu máli skiptir hver sé birtingarmynd fjárhættuspilsins — happadrætti nefnilega eru jafngóð/vond og 21 eða póker. Að banna annað en leyfa hitt er kjánalegt.

Á íslensku er það reyndar kallað hræsni.

En íslenskir stjórnmálamenn skynja fátt og hjá þeim virðist það vera regla frekar en undantekning að spyrða vondar hugmyndir við vondar hugmyndir – og því hverfandi líkur á að löggjöf um fjárhættuspil taki breytingum. Þannig hefur það nefnilega alltaf verið.

Og aldrei.

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)