Stress og stundvísi

Hver þekkir ekki af eigin raun að vera á síðustu stundu að klára verkefni dagsins, vera fimm mínútum of seinn á fund eða missa af fyrstu mínútunum í bíói? Það hefur stundum verið sagt að þetta sé einkenni okkar Íslendinga. Þessu fylgja bæði kostir og gallar.

Hver þekkir ekki af eigin raun að vera á síðustu stundu að klára verkefni dagsins, vera fimm mínútum of seinn á fund eða missa af fyrstu mínútunum í bíói? Þetta þekkir höfundur vel af eigin raun og sennilega hafa flestir verið nokkrum sinnum í sömu sporum. Það hefur stundum verið sagt að þetta sé einkenni okkar Íslendinga og að við þurfum að læra að taka lífinum með ró. Á hinn bóginn er það einmitt okkar helsti kostur hversu miklu við áorkum stundum á þessum síðustu fimm mínútum.

Hver kannast ekki við það að vera á leiðinni út úr bænum eftir vinnu á sólríkum sumardegi og klukkan er hálf sex á föstudegi. Stress. Eftir að klára að pakka, kaupa mat á grillið, fylla á bílinn, fá sér snarl á Select og kaupa rauðvín með grillinu fyrir lokun í Heiðrúnu. Allt á síðustu stundu. En til hvers erum við að stressa okkur og flýta okkur út úr bænum? Einmitt til þess að eiga góðar stundir með fjölskyldu eða vinum – komast út úr amstri og stressi borgarinnar og slappa af. Merkileg staðreynd sem höfundur hefur oft rekið sig á. Að vera stressaður og flýta sér til að ná að slappa af!

Ástæðan fyrir þessu stressi okkar er að við erum alin upp við mun minni stundvísi og skipulagni en jafnaldrar okkar í nágrannalöndunum. Við erum alin upp við meira frjálsræði. Ýmsir nágrannar okkar, svo sem Danir og Þjóðverjar, alast upp við stundvísi og skipulagni sem við þekkjum fæst. Á meðan íslensk börn ganga í næsta hús og banka uppá hjá vini sínum án þess að vita hvort nokkur sé heima eru dæmi um að sex ára börn í Þýskalandi séu með dagatal hangandi upp á vegg í herbergi sínu þar sem foreldrarnir skrifa niður hvaða dag barnið leikur við hvaða vin. Tuttugu árum seinna þegar þessi sömu börn eru vaxin úr grasi og er boðið í gleðskap kl. 21:00 á föstudagskvöldi – þá eru allir mættir kl. 21:00. Á sama tíma eru íslensk ungmenni í besta falli að koma úr sturtu.

Það er hins vegar einmitt þetta frjálsa uppeldi sem gerir það að verkum að við lærum að taka skyndiákvarðanir og hugsa hratt. Það hefur stundum verið sagt um hina margumtöluðu útrás íslenskra fyrirtækja að ástæðan fyrir velgengninni sé hinn mikli kraftur og áræðni sem búi í stjórnendunum. Þeir vinna vel undir álagi og geta tekið mikilvægar ákvarðanir á mjög skömmum tíma. Augljós kostur í nútíma samfélagi.

Þessi óstundvísi, skipulagsleysi og stress er því nokkur sérstaða að mati höfundar. Það hefur augljósa galla, en hefur einnig þann kost í för með sér að síðustu fimm mínúturnar eru oftar en ekki mjög afkastamiklar og skila okkur góðum árangri. Við þurfum bara að læra að slaka raunverulega á inn á milli.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)