Vandi Afríku

Í kjölfar vel heppnaðar Live-8 tónleika hefur athygli alþjóðasamfélagsins beinst að bágum kjörum almennings í Afríku. Augu flestra eru núna á fundi átta helstu iðnríkja heims þar sem Tony Blair mun reyna, í skugga hryðjuverkanna, að ná fram einróma samþykki um raunhæfar lausnir á vanda Afríku.

Í kjölfar vel heppnaðar Live-8 tónleika hefur athygli alþjóðasamfélagsins beinst að bágum kjörum almennings í Afríku. Augu flestra eru núna á fundi átta helstu iðnríkja heims þar sem Tony Blair mun reyna, í skugga hryðjuverkanna, að ná fram einróma samþykki um raunhæfar lausnir á vanda Afríku. Þungamiðjan í tillögum Blair byggir á tveimur þáttum. Annars vegar niðurfellingu skulda og hins vegar afnámi tolla- og innflutningshafta vesturlanda á landbúnaðarvörum frá Afríku. Þó að tillögur Blair´s nái fram að ganga liggur ein mikilvægasta forsendan fyrir bættri framtíð Afríku ekki á fundarborði þjóðhöfðingjanna 8 í Skotalandi, heldur hjá Afríkubúum sjálfum.

Fyrir tuttugu árum síðan var kveikjan að fyrstu Live aid gífurleg hungursneið sem geisaði í Eþíópíu. Landið varð tákn þeirrar fátæktar og örbyrgðar sem einkenndi mörg lönd Afríku. Live aid beindi athygli milljóna manna að vandamálum álfunar og hundruð milljóna söfnuðust til hjálpar hungruðum Afríkubúum. Það sem færri vissu var að á sama tíma var Eþíópíu stjórnað af einræðisstjórn sem í krafti grimmdarlegra “félagslegra endurbóta” átti stóran þátt í þeirri örbyrgð sem landið var í. Þannig komst mikið að því fjármagni sem ætlað var til hjálparstarfs aldrei til þeirra sem mestu þurftu á því að halda. Skilvirk þróunarhjálp byggir því ekki endilega á því hve mikið fé safnast heldur hvernig því er ráðstafað og hvort fjármagnið nýtist þeim sem hvað mest þurfa á því að halda.

Vandamál Afríku eru mörg of afar flókin og bjóða ekki upp á hraðsoðnar lausnir. Margir hafa orðið til þess benda á að nýlendustefna Vesturveldanna hafi sent Afríku á leið til langvarandi fátæktar. Málið er ekki svo einfalt þar sem að mörg fyrrum nýlenduríki á borð við Ástralíu og Nýja Sjáland hafa notið mikils hagvaxtar að nýlendutímanum loknum. Vissulega komu mörg ríki Afríku afar illa undan oki vesturlanda en núverandi vandamál eiga sér nærtækari rætur en svo.

Afríka gæti verið með ríkari heimsálfum þegar litið er til þess hve landið er auðugt að málmum og ræktunarlandi. Samt sem áður er álfan ein sú fátækasta. Ástæðan er að mörgu leiti að finna í gjörspilltu stjórnarfari sem einkennir mörg lönd álfunnar.

Landlæg spilling, illa skilgreindur eignaréttur og ómarkviss framkvæmd settra laga eru meðal þeirra mörgu vandamála sem hrjá stjórnarfarið í mörgum ríkjum Afríku. Oft er stór hluti af efnahagskerfi landa undirlagt opinberum rekstri. Þannig er oft skilvirkasta leiðin til þess að ná fram rétti sínum ekki sú að fara í gegnum dómskerfið heldur í gegnum gerspillta embættismenn sem þrífast á mútum og greiðastarfsemi. Þannig nota margir embættismenn stöðu sína til þess að kúga fé út úr fyrirtækjum og einstaklingum. Þessi spilling ásamt oft lömuðu dómskerfi hrindir frá erlendum fjárfestum sem sjá hugsanleg viðskiptatækifæri innan landanna.

Ef ekki verður gert til þess að bæta stjórnarhætti Afríkuríkjanna sjálfra er hætt við að mikið að þeirri hjálp sem iðnríkin hyggjast veita drukkni í kerfi embættisspillingar og einræðis. Blair gerir sér fyllileg grein fyrir þessu og byggjast tillögur hans á því að þeim ríkjum verði einungis hjálpað sem að sýnt geti fram á skilvirka baráttu gegn spillungu sem leiðir til betri stjórnarhátta.

Gallinn er hins vegar sá að þegar litið er betur á þau 23 lönd sem bíða eftir að fá skuldir sínar niðurfelldar kemur í ljós að þau eiga afar langt í land hvað varðar óspillt stjórnarfar. Í alþjólegri könnum komust sjö af þessum tuttugu og þremur á lista yfir fimmtíu spilltustu ríki í heimi. Þar á meðal var Cammeroon í sautjánda sæti en áætlað er að einn fjórði af landsframleiðslunni hefði tapast að völdum spillingar í embættismanna. Svipaða sögu er að segja í mörgum af löndunum tuttugu og þremur.

Það liggur því fyrir hið geysierfiða verkefni að bæta stjórnkerfi margra Afríkuríkja svo um munar. Til þess að svo geti orðið er nauðsynlegt að breytingarnar komi inna frá og verkefnið um bætta stjórnsýslu verði sinnt af íbúum landanna sjálfra en ekki af embættismönnum alþjóðlegra hjálparstofnanna.

Latest posts by Ýmir Örn Finnbogason (see all)