Hvað er frétt og hvað ekki?

Fréttamat íslenskra fjölmiðla er á stundum afar sérstakt. Þannig komast stundum í fréttir atburðir sem vart geta talist fréttnæmir. Nýjasta dæmið um þetta er vera tveggja manna í tjaldi uppi við Kárahnjúka.

Fréttamat íslenskra fjölmiðla er á stundum afar sérstakt. Þannig komast stundum í fréttir atburðir sem vart geta talist fréttnæmir. Nýjasta dæmið um þetta er vera tveggja manna í tjaldi uppi við Kárahnjúka.

Fyrir helgi var frá því greint í fjölmiðlum, þ.á m. í báðum sjónvarpsfréttatímum íslensku stöðvanna að uppi við Kárahnjúka væri verið að mótmæla. Báðar stöðvarnar sendu fréttamenn á staðinn til að kanna málið og í ljós kom að par á þrítugsaldri var mætt á svæðið í þessum tilgangi. Parið var tekið tali og farið yfir málin. Greindu þau frá því að von væri á fleiri mótmælendum upp eftir. Í gær voru svo fréttir um að fleiri hefðu bæst í hópinn en enn væri heildarfjöldi mótmælenda teljandi á fingrum beggja hana.

Kannski sér pistlahöfundur atburð þennan ekki í réttu ljósi en einhvern veginn finnst honum það vart teljast frétt ef nokkrar hræður koma saman uppi á hálendi til að tjá skoðanir sínar. Allt annað væri upp á teningnum ef uppi við Kárahnjúka væru nokkur hundruð manns í mótmælaskyni. Þá væri hægt að fallast á að um það skyldi fjallað í fjölmiðlum. En innan við tíu manns – ekki frétt. Reyndar má kannski segja að ákveðinn fréttapunktur kunni að vera í því hversu fáir voru mættir á þessi skipulögðu mótmæli og á þeim forsendum hægt að réttlæta fréttaflutninginn. Fréttamenn nálguðust viðfangsefnið þó ekki með þeim hættinum.

Íslenskum fjölmiðlamönnum er reyndar nokkur vorkunn. Þjóðin er fámenn og það sem ratar inn í fréttir í samræmi við það. Við það bætist að nú er sumar og gúrkutíð í hámarki. Það kemur þó ekki í veg fyrir að setja verður einhvern neðri mörk um það hvað fer inn í fréttatíma og landsmálablöð. Sem dæmi telur höfundur það ekki frétt þótt ekið sé á rollu í Rangárvallasýslu og jafnvel þótt um væri að ræða graðhest á Grenivík. Slíkar fréttir hafa þó ratað inn í fréttatíma í mestu gúrkum.

Í stað þess að segja slíkar ófréttnæmar innlendar fréttir er hægt, á gúrkutíð, að auka vægi erlendra frétta í fréttatímum. Heimurinn er stór og margt fréttnæmt að gerast hér og þar. Þar verður þó líka að flokka og sortera og segja frá einhverju sem okkur kann að varða um. Þannig á, að mati pistlahöfundar, frekar að segja fréttir frá því sem er að gerast á Norðurlöndum og Evrópu, en greina frá úrslitum þingkosninganna í Túrkmenistan eða rútuslysum á Indlandi.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)