Slæðan er tákn um frelsi kvenna

Nýlega settu Frakkar undarleg lög sem banna mörgum múslimskum konum og stúlkum að klæðast eins og þær eru vanar. Þetta er dæmi um kúgun meirihlutans á minnihlutanum af verstu sort. Hve yfirborðskenndar geta hugmyndir manna um kvenréttindi verið, ef þeir halda að þeir séu að gera einhverjum greiða með slíkri lagasetningu?

Nýlega settu Frakkar undarleg lög sem banna mörgum múslimskum konum og stúlkum að klæðast eins og þær eru vanar. Þetta er dæmi um kúgun meirihlutans á minnihlutanum af verstu sort. Hve yfirborðskenndar geta hugmyndir manna um kvenréttindi verið, ef þeir halda að þeir séu að gera einhverjum greiða með slíkri lagasetningu?

Hér í Danmörku er reyndar töluvert um svona „slæðukonur“ sem minna mann á kúgun kvenna í arabaríkjunum eða hitt og heldur. Um daginn gekk ég um Vesterbro ásamt unnustu minni og sá þar arabíska fjölskyldu í körfubolta, föður ásamt tveimur sonum og einni dóttur. Börnin voru svona 10-14 ára og var stúlkan þeirra yngst. Hún var með slæðu. En samt í körfubolta! Vá!

Getur ein dæmisaga verið sönnun um það staða kvenna í öllum löndum íslam sé frábær? Auðvitað ekki. En þegar dæmunum fjölgar, og rekist er á konur að skokka með slæðuna, konur að reykja fyrir utan skólann með slæðuna, konur saman í bíó með slæðuna þá verður mönnum auðvitað æ ljósara að þetta tiltekna fat segir ekkert til um stöðu viðkomandi kvenna, eða „kúgunarstig“ þeirra.

Enda hefur orðið „yfirborðskennt“ sjaldan átt betur við þegar kemur að skoðunum margra okkar um umræddan klæðaburð. Auðvitað er auðveldast að einblína á eitthvað sem við sjáum. Einblína á eitthvað sem við höldum að sé „tákn“ fyrir einhverja kúgun. En jafnvel þó svo væri virkilega að slæðan væri „tákn um kúgun kvenna í íslam,“ væri þá ekki meira vit í því að leggja krafta okkar i það að útrýma kúgunni, fremur en tákninu?

Í nýlegum umræðuþætti á fréttastöðinni BBC World var rætt við nokkrar íslamskar konur og var umræðuefnið vitanlega málefni kvenna í löndum múslima. Sumar konurnar voru klæddar „vestrænt“, aðrar báru slæður og ein þeirra var með andlitsblæju. Ein þeirra sagði að henni fyndist hræðilegt að víða í Evrópu væri rætt um banna slæðuna, sem þær svo mikið þurft að berjast fyrir að fá að bera. Víða áður þurftu konur nefnilega að bera mun meira íþyngjandi klæðnað heldur en einhverja fislétta hárskýlu. Konur í Íran berjast nú til dæmis fyrir því að fá að bera slæðuna í stað andlitsblæjunnar.

Annars eiga margir erfitt með að opna fyrir þann möguleika að hugsanlega vilji einhverjir múslimar dætrum sínum ekki endilega illt. Nú þegar æ fleiri múslimskar konur á Vesturlöndum stunda háskólanám er því fleygt fram það sé eitthvað sem feðurnir geri bara til að „gera þær að betri kvenkostum“. Auðvitað mundu þeir aldrei vilja dóttur sinni vel – þeir eru múslimar.

Staða kvenna í mörgun löndum heims er afar bágborin, það er rétt. En höfum við einhvern rétt til að setja okkur á háan hest gagnvart ríkjum sem eru á svipuðum stað og við vorum fyrir kannski 70 árum síðan? Sérstaklega þegar flestir virðast meiri áhyggjur hafa af því að klæðnaður einhvers raski ekki skjannahvítri tilveru þeirra, fremur en raunverulegum vandamálum kvenna í þessum samfélögum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.