Fiskur fyrir ál!

Það vakti athygli í síðustu viku er Bíldælingur hf. á Bíldusal sagði upp öllu starfsfólki sínu vegna erfiðrar rekstarstöðu. Bíldælingur er langstærsti atvinnuveitandi á staðnum og uppsagnirnar eru því mikil blóðtaka fyrir kauptúnið.

Bíldudalur

Bíldudalur úr lofti.

Það vakti athygli í síðustu viku er Bíldælingur hf. á Bíldusal sagði upp öllu starfsfólki sínu vegna erfiðrar rekstarstöðu. Bíldælingur er langstærsti atvinnuveitandi á staðnum og uppsagnirnar eru því mikil blóðtaka fyrir kauptúnið.

Viðbrögð hentistefnustjórnmálamanna létu ekki á sér standa og sjöundi þingmaður Norðvesturkjördæmis kom fram með hugmyndir á sjómannadaginn um tilfærslu á aflaheimildum undir kjörorðinu: Fiskur fyrir ál. Þar vísar þingmaður til tillögu sinnar um að þær byggðir sem ekki njóta góðs af álversframkvæmdum eigi skilið ríkisstyrki í formi 20.000 tonna byggðakvóta árlega. Þingmaður vill kjósendum sínum vel en hann er skammsýnn því með auknum byggðakvóta leysir hann engin vandamál heldur slær þeim einungis á frest.

Úthlutun byggðakvóta er tilraun til þess að sporna við þróun í sjávarútvegi sem er leidd áfram af hagræðingarsjónarmiðum, að mestu, og síaukinni samkeppni við útlönd. Það má því leiða líkur að því að byggðakvóti sé í eðli sínu óhagkvæmur fyrir sjávarútveginn í heild sinni en sumir vilja meina að hann sé ekki óhagkvæmur fyrir þjóðfélagið. Það hlýtur samt öllum að vera ljóst að útgerðin verður að þróast ef Ísland ætlar sér áfram að vera í fararbroddi í fiskveiðum í heiminum. Til þess að mæta samkeppni frá löndum eins og Kína verður að stefna að því að lágmarka kostnað og hámarka framlegð. Þannig hefur sjávarútvegurinn á Íslandi haldið velli án ríkisstyrkja og lagt jafn mikið fram til þjóðarbúsins og raun ber vitni.

Tillaga Vestfjarðaþingmannsins, að færa aflaheimilidir frá hagkvæmum útgerðarstöðum með stórvirkum togurum yfir á óhagkvæmari staði með smábátaútgerð, veitir eflaust fleira fólki atvinnu en leiðir til óhagkvæmari vinnubragða sem mun koma mönnum í koll síðar. Þessu mætti líkja við hugmyndir um að krefjast þess að fiskiskip rói á miðin í stað þess að nota vélarafl og að jarðvegsframkvæmdir við Kárahnjúka verði framkvæmdar með skóflum í stað stórvirkra vinnuvéla, því slíkt myndi óneitanlega fjölga störfum.

Vandamál Bíldudals er hluti af vandamáli landsbyggðarinnar í heild sinni. Fólki fækkar í sveitunum og litlu kaupstaðirnir berjast margir hverjir í bökkum með lækkandi tekjustofna og atvinnulífið verður sífellt einhæfara. Þessari þróun verður hins vegar ekki snúið við, ekki einu sinni með auknum byggðakvóta. Útgerðarstöðum mun fækka hvort sem mönnum líkar betur eða verr og landbúnaðurinn mun þurfa að hagræða fyrr eða síðar, sem mun leiða til fækkunar bænda og fólksflótta frá kauptúnum er þjónusta landbúnaðinn. Af hverju þorir enginn að horfast í augu við þessa staðreynd? Staðreynd sem er augljós sé litið til þróunar atvinnveganna og þróunarinnar í löndunum í kringum okkur.

Á Íslandi er lítið sem ekkert atvinnuleysi og næga vinnu að fá í heild, þó ekki sé næga atvinnu að fá í smærri kauptúnum á landsbyggðinni. Samþjöppun mun eiga sér stað, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og að stað þess að boða sérstækar skammtímaaðgerðir þarf að takast á við vandamálið í heild sinni og móta stefnu til framtíðar til þess að lágmarka skaðann fyrir landsbyggðina. Skilgreina þarf nokkra byggðakjarna í öllum landsfjórðungum og byggja þar markvisst upp þjónustu og fjölbreytt atvinnulíf. Byggðakjarnarnir þurfa að stækka og það verður gert á kostnað smábyggða. Ef ekkert verður að gert er ljóst að megnið af fólkinu mun flytjast á suðvesturhornið á næstu 50 árum.

Við þurfum stjórnmálamenn sem þora að segja það berum orðum að ekki eigi að halda við öllum byggðakjörnum í landinu og stjórnmálamenn sem þora að koma með tillögur um hvernig þessari breytingu skuli háttað. Pistlahöfundi þykir ljóst að þjóðin þarf að sameinast um þessa þróun, og réttast væri að hluti af skattpeningum okkar færu í að kaupa upp hús fólks sem vill flytjast búferlum frá smærri byggðum þar sem hús eru að verða verðlaus og atvinnuástandið er bágborið. En enginn þorir að vera „persona non grata“.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)