Framtíð Íslands: hinar skapandi stéttir?

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um ruðningsáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Sú aðgerð var sérstaklega sett í gang til þess að rétta stöðu landsbyggðar gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma og höfuðborgarsvæðið “stelur” fólki frá landsbyggðinni þá stendur höfuðborgarsvæðið sjálft í gríðarlegri baráttu við að halda ákveðnu fólki á landinu. Þetta fólk skipar hinar skapandi stéttir.

Eins og greinarhöfundur hefur áður bent á þá virðist vera ákveðinn fólksflótti frá Íslandi. Þegar tölur hagstofunnar yfir innflutta að frádregnum brottfluttum eru skoðaðar þá virðast hlutir vera í jafnvægi en þegar þessar tölur eru skoðaðar með tilliti til ríkisfangs þá kemur í ljós að við erum að flytja út íslendinga fyrir útlendinga (sjá töflu).

Sú einfalda staðreynd að mjög fátt er um erlenda ríkisborgara í stjórnendastöðum eða við háskólakennslu á Íslandi gefa það til kynna að það sé virkt “brain-drain” í gangi á Íslandi. Inn koma álverkamennirnir, út fara menntamennirnir.

Hæfasta og best menntaða unga fólkið, Íslendingar sem og aðrir, hafa í dag möguleika á að sækja sér vinnu í því landi sem hentar þeim hverju sinni. Ef viðeigandi vinna fæst ekki á Íslandi þá er hægðarmál að sækja hana annarsstaðar. Það er um þetta fólk sem samkeppnin mun snúast í framtíðinni. Þau svæði sem hafa þetta fólk, þau munu vaxa hraðar en önnur.

Aðfluttir umfram brottflutta – Smella á mynd til að stækka

Bandaríski skipulagsfræðingurinn Richard Florida hefur vakið mikla athygli fyrir kenningar sýnar í byggðarþróun þar sem hann heldur því fram að frumleiki og sköpunargáfa sé að taka við af hráefni, vinnuafli og jafnvel fjármagni sem kjarni efnahagslegrar þróunar.

Fyrir þá sem finnst erfitt að kyngja þessari staðhæfingu má benda á að hin álverslausa og í raun hráefnislausa Danmörk er með hærri landsframleiðslu á mann en Ísland og flutti til dæmis út sérhönnuð húsgögn (Designer Furniture) fyrir 200 milljarða ÍSK á síðasta ári.

Florida hefur kosið að kalla þær stéttir sem byggja tilveru sína upp á frumleika og sköpunargáfu: hinar skapandi stéttir (the Creative Class). Til þessarra stétta telur hann lista- og hönnunarfólk, fólk í rannsóknum og vísindum og loks starfsmenn í þekkingariðnaði eins og á heilbrigðissviði og í fjármálum*. Hann telur að þessi stétt telji þriðjung atvinnulífins (í Bandaríkjunnum).

Kenningar Florida hafa hlotið þónokkra gagnrýni af fræðimönnum meðal annars fyrir einfaldleika þeirra en Florida telur að svæði (bæjir, borgir, lönd) þurfi að leggja áherslu á þrjú atriði (three T’s): hæfileika (Talent), tækni (Technology) og umburðarlyndi (Tolerance).

Það er helst þessi þriðji þáttur sem hefur vafist fyrir fólki en Florida bendir á að umburðarlyndi hefur verið á niðurleið í Bandaríkjunum eftir 11 september og afleiðingin er sú að efnilegt fólk, er farið að leita annað en til Bandaríkjanna í leit að námi.

Samkvæmt orðum Florida eru þrír hlutir sem Íslendingar ættu öðrum fremur að beita sér fyrir til framtíðar en það eru:

A) Stóraukin framlög til menntamála, sérstaklega á háskólastigi sem eru aflvakar frumkvæðis í hugsun. Hér er ekki síst átt við framlag til tækni og verkfræðimenntunar en verkfræðinám á Íslandi hefur löngum þjáðst af gríðarlegum fjárskorti.

B) Stóraukin framlög til rannsóknar og þróunarmála. Staðan er þannig á Íslandi í dag að hið opinbera er langt yfir OECD meðallagi hvað varðar framlag til rannsóknar og þróunarmála miðað við landsframleiðslu. Vandamálið er hinsvegar að íslensk fyrirtæki leggja varla krónu í þróunarstarf og þetta væri varla mælanlegt ef ekki væri fyrir tilvist Íslenskrar Erfðagreiningar.

C) Berjast fyrir auknu umburðarlyndi. Nóg hefur verið skrifað hér á Deiglunni áður um þörf fyrir umburðarlyndi gegn hinum ýmsu þjóðfélagshópum án þess að hér verði bætt nokkru við.

Það væri óskandi ef ráðamenn myndu kynna sér kenningar Florida og láta þær vega aðeins á móti þessum Keynesísku aðferðum við efnahagsstjórnun sem beitt eru í dag.

* Reyndar telur Florida lögfræðinga einnig til hinna skapandi stétta en eins og hefur verið áður bent á á Deiglunni þá eru bein tengsl milli fjölgunar á lögfræðingum og minnkandi hagvextar og því alveg fráleitt að kenna lögfræðinga við eitthvað skapandi

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.