Efri deildin

Í mörgum lýðræðisríkjum starfa þing í tveimur deildum. Aðallöggjafarstarfið fer fram í neðri deild meðan efri deildin sér aðallega um að yfirfara lög og laga augljósa vankanta. Íslendingar lögðu niður efri deild sína snemma á tíunda áratug liðinnar aldar. Eða hvað?

Í mörgum lýðræðisríkjum starfa þing í tveimur deildum. Aðallöggjafarstarfið fer fram í neðri deild meðan efri deildin sér aðallega um að yfirfara lög og laga augljósa vankanta. Íslendingar lögðu niður efri deild sína snemma á tíunda áratug liðinnar aldar. Eða hvað?

Ef vel er að gáð er það orðið þannig að Ríkisstjórnin hefur tekið við hlutverki neðri deildarinnar meðan að Alþingi er orðið einhvers konar efri deild íslenskrar löggjafar. Lög eru samin af ráðherrum og starfsmönnum ráðuneyta. Þó geta þingmenn stundum frestað afgreiðslu þeirra eða komið með smávægilegar breytingartillögur við hugmyndum ríkisstjórnar.

Alþingi hefur þó mjög sjaldan veruleg áhrif á lagasetningu. Ef mér skjátlast ekki var einungis eitt þingmannafrumvarp sem varð að lögum á seinasta þingi, sem væri í sjálfu sér ágætt ef Alþingi væri raunveruleg efri deild. Langflest frumvörp sem verða að lögum í vestrænum lýðræðisríkjum verða til í neðri deildum þjóðþinga. Frumvörpin í efri deildum eru sett fram til að „koma af stað umræðu“ eða eitthvað svipað klisjukennt.

Já, þrískipting valdsins er þannig orðin ekkert nema orðin ein. Í raun höfum við einhvers konar tvískiptingu þess, dómsstólarnir geta enn pirrað ráðamenn með einhverjum dómsúrskurðum meðan að löggjafarvaldið er nánast einungis í höndum ráðherra. Vald þingmanna snýst um að stimpla tillögum ríkisstjórnarinnar og að koma með einhverjar fyrirspurnir til að vekja athygli á sjálfum sér.

Við sem á fjögurra ára fresti kjósum einhverja menn til ráðstafa atkvæði okkar á hinu háa Alþingi sjaldnast að vita hvernig þeir hinir sömu ráðstafa atkvæði sínu í málum sem skipta okkur einhverju máli. Eða þoldu „Lög um skipan ferðamála,“ „Lög um Landbúnaðarstofnun,“ eða „Lög um útflutning hrossa (hámarksaldur útflutningshrossa)“ virkilega enga bið? Hefði ekki verið skemmtilegra að vita hver afstaða hins eða þessa væri til lækkunar áfengiskaupaaldurs, afnáms fyrningarfrests á kynferðisbrot gegn börnun, banns við umskurði kvenna eða afnáms einkaleyfis Ríkisins á smásölu á áfengi?

Þrátt fyrir að vissulega væri einfaldara ef að einn og sami aðili semdi lög, kæmi þeim í verk og dæmdi um framkvæmd þeirra er samt ástæða fyrir að flest vestræn ríki reyna að dreifa þessu valdi á þrjá óháða aðila. Á Íslandi hefur löggjafarvaldið því miður færst til. Fyrir þann sem vill koma í gegn ákveðnum breytingum á lögum skiptir mun meira máli að hafa stuðning viðkomandi ráðherra en að hafa meirihluta þingsins bakvið tillögurnar.

Ef að hlutverk Alþingis á að vera svipað og annarra evrópskra efri deilda, þ.e.a.s. að það verði valdalítil stimpilstofnun, þá er spurning hvort ekki sé best að „stíga bara skrefið til fulls,“ og leggja niður neðri deildina líka?

Láta svo formenn stjórnarflokkanna bara ráða þessu öllu saman.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.