Tíðarfar

Allt tekur enda um síðir-og samkvæmt Haraldi Ólafssyni veðurfræðingi mun því þurra verðri sem verið hefur sl. vikur hér í Reykjavík ljúka formlega um helgina og rigna mun á réttláta-sem rangláta-íbúa höfuðborgarinnar.

Allt tekur enda um síðir-og samkvæmt Haraldi Ólafssyni veðurfræðingi mun því þurra verðri sem verið hefur sl. vikur hér í Reykjavík ljúka formlega um helgina og rigna mun á réttláta-sem rangláta-íbúa höfuðborgarinnar.

Ef tekin er svokölluð ,,Pollýanna” á þessar fréttir veðurspámannsins má halda því fram að þessar fréttir séu stórkostlegar; gróðurinn þjáist jú af ofþurrki og þarfnast vætu og jafnvel má halda því fram að menn fái loksins tækifæri til þess að hanga inni í suðvestan slagviðri og sinna svokölluðum inniverkum, sem yfirleitt þykja hundleiðinleg í sól en skemmtileg í slagviðri. Gaman að taka til í bílskúrnum og geymslunni og þess háttar!

Helgarnestið, sem að þessu sinni er bölsýnt, er hins vegar á þeirri skoðun að þessi umskipti í byrjun júní-og reyndar sólarfar maímánaðar-boði rigningarsumar álíka og gerðist árin 1955 1975, 1976 og 1983. Reyndar verður helgarnestið-sem er alfarið hlutlægt í skrifum sínum-að geta þess að þar eð það er fætt í lok áttunda áratugarins að þá hefur það þurft að stóla á óbrigðult veðurminni meiri spámanna um önnur sumur en 1983. Reyndar taldi helgarnestið lengst framan af að einmuna blíða og sól hefði verið það sumar, en komst síðar að því að sökum æsku og vöntunar óhlutbundinnar hugsunar að það hefði verið rangminni, enda rigndi víst allt það sumar.

En af hverju er aldrei talað um sumur þar sem sól og einmunablíða ríkti?

Sólarsumarið mikla 1939 hefur til dæmis að mati Helgarnestisins gleymst á kostnað rigningarsumra en það sumar var einmunablíða um allt land. Ef til vill á Seinni heimsstyrjöldin einhverja sök á því að þetta sólríka og heita sumar féll í gleymskunnar dá-eða þá að lenska íslenskra veðurtuðara er sú að minnast aðeins þeirra ár þegar tíðarfarið var vont.

Annars er merkileg árátta landans að velta í sífellu tíðarfari fyrir sér, sérstaklega á sumrum, þegar stór hluti þjóðarinnar fer í hópum til sólarlanda eða borga erlendis til þess að njóta góða veðursins. Helgarnestið skilur hins vegar áhuga þess fólks sem byggir afkomu sína á tíðarfari svo sem bændur, sjómenn, verktaka og garðyrkjumenn, en á hins vegar erfiðara að skilja áhuga þeirra sem stunda innipúkastörf og má vera slétt sama hvort rigni úti eður ei.

Betra væri að menn mætu verðrið út frá stjórnmálaskoðunum eða atvinnuhorfum. Þannig myndu kapítalistar meta veður eftir því hvort það yki hagvöxt eða dragi úr, framsóknarmenn eftir því hver fallþungi dilka yrði á hausti, kommúnistar eftir líkur á byltingu og sósíaldemókratar eftir því hvaða áhrif það hefði á velferðarkerfið.

Að mati helgarnestisins væri slíkt kerfi mun skynsamlegra og hefði meira skemmtanagildi en að meta veður út frá persónulegum duttlungum.

Gáum að því!

Góða helgi!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.