Snúin bygging

sdfdPistlahöfundur er einlægur stuðningsmaður þess að borgaryfirvöld byggi fleiri háhýsi og telur það reyndar grunnforsendu fyrir þéttingu byggðar.

Upp, upp, mín sál!

Hæsta bygging Norðurlanda verður 190 metra há og staðsett í miðborg Malmö í Svíþjóð. Með byggingunni slá Svíar eigið hæðarmet, en Kaknästornet-byggingin í Stokkhólmi teygir sig rétt rúma 155 metra til himins eða um 70 metrum hærra en Globen-byggingin í Stokkhólmi. Svíar kunna svo sannarlega að byggja borgir — það geta allir vitnað um sem sótt hafa Stokkhólm heim — enda er borgin hreint út sagt frábær og á pari við margar af stærstu borgum heims. Svíar eru í auknum mæli farnir að velta fyrir sér hvernig þétta megi byggð og eðli máls samkvæmt er aðeins eitt einhlítt svar við þeirri spurningu: Reisa þarf hærri byggingar sem rúma fleiri menn.

Flaggskip Svía í háhýsagerð er byggingin Turning Torso í Malmö. Byggingin er frábærlega hönnuð af arkítektinum Santiago Calatrava og lag hennar minnir einna helst á undinn mannslíkama, en byggingin sýst 90° um sjálfa sig eins og sjá má af myndinni. Þrátt fyrir að kostnaður við bygginguna hafi farið úr böndunum ríkir mikil eftirvænting í Malmö og er þegar búið að leigja út allt rými hússins. Sér í lagi er eftirtektarvert að í byggingunni verður bæði atvinnustarfsemi og íbúðir auk þess sem stærð þeirra — og þ.a.l. verð — er afar breytileg.

Íslendingar virðast smám saman vera að ranka við sér þegar kemur að skipulagsmálum, en rotið var slíkt að mörgum finnst sem betur megi ef duga skuli. Enn sem komið er hafa menn skirrst við að reisa almennilega skýjakljúfa og þótt svo byggingarnar í Skuggahverfinu séu vissulega góð þróun þá mætti ná fram margfalt betri nýtingu lands með hærri byggingum.

Framundan eru kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur. Því miður er ekki hægt að gera ráð fyrir að menn hafi dug í sér til að setja flugvöllinn á oddinn í málefnabaráttunni og láti landsbyggðina halda borgarbúum áfram í gíslingu, en það er vonandi að einhver fylkinganna sjái hag sinn í því að berjast fyrir hærri byggingum til þéttingar byggðar í borginni. Ég held að ansi margir kjósendur séu orðnir langþreyttir á því að sjá borgina sína vaxa saman við — for crying out loud! — Mosfellsbæ!

Kæru lesendur, hversu lummó er það?

Hræðsla manna við háreysta byggð er með eindæmum. Gott og vel, kannski eru 200 metrar fullmikið af því góða í einu vetfangi en hvað segja menn um að hækka sig smám saman þar til almennileg háhýsabyggð kemst á laggirnar?

Hugmyndin er ekki ný af nálinni og við þurfum ekki að leita lengra en til Lundúna til að sjá uppbyggingu á heimsmælikvarða sem á sér stað á Canary Wharf-uppfyllingunni í nálægð við Greenwich. Þar rís nú hvert háhýsið á fætur öðru sem sómir sér vel í annars lágreistri og dreifðri borg.

Og fyrst við erum farin að taka Lundúni okkur til fyrirmyndar — hvernig væri að setja veggjald í stefnumálapakkann fyrir næstu borgarstjórnarkosningar til að draga úr umferð um flöskuhálsa borgarinnar?

Því miður, ólíklegt…

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)