Eitthvað sem allir verða að upplifa

Nú þegar sólin hefur hækkað á lofti er ekki seinna vænna en að skipuleggja sumarið. Ég hef gert mikið af plönum en hápunktur sumarsins verður án efa er ég legg land undir fót á hina stórkostlegu Hróarskelduhátíð.

Nú þegar sólin hefur hækkað á lofti er ekki seinna vænna en að skipuleggja sumarið. Ég hef gert mikið af plönum en hápunktur sumarsins verður án efa er ég legg land undir fót á hina stórkostlegu Hróarskelduhátíð.

Upphaflega var Hróarskelda mikil hippahátíð í anda Woodstock. Hátíðin var fyrst haldin árið 1971 og var skipulögð af tveimur dönskum menntaskólanemum sem hefðu aldrei getað ímyndað sér að hafa komið af stað vinsælustu tónlistarhátíð Evrópu. Hátíðin hefur verið haldin ár hvert síðan og umstangið hefur aukist með hverju árinu þar sem gæði og virðing hafa verið haldin í heiðri í stað gróða en þess má geta að allur ágóði af hátíðinni rennur til góðgerðamála.

Á hátíðinni er jafnan reynt að hafa fjölbreytilega tónlist fyrir þann stóra hóp fólks sem sækir hana. Auk tónlistar eru jafnan fjöldinn allur af viðburðum svo sem kvikmyndahús, götuleikhús, ljóðakvöld og klifur. Hátíðin sér líka um að fullnægja okkar helstu mannlegum þörfum með matsölustöðum, bjórsölum, salernum, sturtum, nuddbásum og fataverslunum.

Óskráður samningur er á milli tónleikagesta að á Hróarskeldu skal fólk skemmta sér við að hlusta á tónlist og njóta félagsskapar hvers annars. Lítið er af slagsmálum og ólátum miðað við fjölda fólks sem saman er kominn en undanfarin ár hafa rúmlega 70.000 manns sótt hátíðina ár hvert. Ef við berum hátíðina saman við útihátíðir á Íslandi er í raun merkilegt hvað fólk er friðsamlegt miðað við að vera hálfkennt allan tímann. Spakur maður sagði mér að ef þú sérð slagsmál á Hróarskeldu þá er annar ef ekki báðir aðilar Íslendingar. Ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.

Á hátíðinni hefur oftar en ekki verið mikil rigning og svæðið hreinlega lagst í drullu. Þeir sem hafa upplifað hátíðina í slíku ástandi segja það vera hluta af stemningunni að hlusta á tónlist í lopapeysu og stígvélum og hlýja hvert öðru með faðmlögum. Sjálf fór ég á Hróarskeldu árið 2003 í blíðskapar viðri og er það eitt af mínum bestu minningum að sitja í grasinu með bjór við hönd og hlusta á lifandi tónlist. Vissulega trúi ég þeim sem segja drulluna vera hluta af stemningunni en vona þó að upplifa hana ekki í ár og er því byrjuð að biðja til veðurguðanna.

Ár hvert spila um 150 hljómsveitir á 7 sviðum. Að mínu mati eru stóru númerin á hátíðinni í ár frekar óspennandi enda er tilvalið að fara með opnum hug og uppgötva nýjar óþekktar hljómsveitir. Skemmtilegt er að benda á hve margir Íslandsvinir eða verðandi Íslandsvinir munu troða upp á hátíðinni sem sýnir óneitanlega hve mikil „hámenningarborg” Reykjavík er.

Stærstu hljómsveitirnar í ár verða:

Audioslave

Black Sabbath

Duran Duran

Foo Fighters

Green Day

Interpol

Kent

Snoop Dogg

Sonic Youth

Velvet Revolver

Brian Wilson

The Mars Volta

Íslensku hljómsveitirnar í ár verða:

Brúðarbandið

Mugison

Hróarskelduhátíðin er mögnuð upplifun sem allir verða að prófa a.m.k. einu sinni á ævinni og vona ég að sjá sem flesta þar í sumar. Nánari upplýsingar um hátíðina í heild sinni má finna á Roskilde-festival.dk

Pistlahöfundur vonar að sjá sem flest á Hróaskeldu í sumar

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.