Hvers vegna íbúalýðræði?

Síðustu vikur hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir fundarröð um eflingu íbúalýðræðis. Mikið hefur verið rætt um íbúalýðræði upp á síðkastið, en hvað er það og af hverju hafa sveitarfélög verið að notast við þessa aðferð í síauknu mæli?

Undanfarin ár hafa áherslur íslenskra sveitarfélaga verið að færast í átt að þátttökulýðræði með það að markmiði að virkja almenning til þátttöku í stjórnmálum. Íbúalýðræði er einn angi af þátttökulýðræði. Tilgangur íbúalýðræðisins er að brúa það bil sem myndast hefur á milli kjörinna fulltrúa og almennings.

Íbúalýðræði er verkfæri til að ná betri sátt um markmið, stefnu og framkvæmdir stjórnvalda. Nokkur sveitarfélög hafa stigið skref í átt til íbúalýðræðis með góðum árangri undanfarin ár og hefur nokkur vakning meðal stjórnenda og forystu sveitarfélaga átt sér stað um mikilvægi þess að taka ákvarðanir í samráði við íbúana. Með virku þátttökulýðræði geta íbúar komið að ákvörðunartökuferli, stefnumótun og haft áhrif á mótun nærumhverfis í samstarfi við sveitarfélagið. Íbúalýðræði á Íslandi hefur aðallega verið iðkað í formi íbúaþinga þar sem íbúar eru þátttakendur í ákvörðunum um mikilvæg mál samfélagsins. Gera má ráð fyrir að notkun þátttökulýðræðis styrki stöðu stjórnenda þar sem íbúarnir taka einnig ábyrgð með þátttöku í ákvarðanatökuferlinu.

Árið 2003 kom fyrst fram frumvarp til laga um að sveitarfélög yrðu skuldbundin til þess að halda íbúaþing einu sinni á hverju kjörtímabili. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en ljóst er að það fyrirkomulag sem notast er við á íbúaþingum hefur vakið athygli víða. Hér er hægt að sjá frumvarp um íbúaþing sem lagt var fram á síðastliðnu þingi.

Stjórnendur sveitarfélaga hafa í auknu mæli notast við íbúaþing sem stjórnunaraðferð. Íbúaþing er fjölþætt lýðræðisverkefni sem er ætlað að greiða almenningi og öðrum hagsmunanaðilum leið að ákvörðunum og stefnumótun sveitarfélaga. Þingin eru dæmi um samráðsskipulag sem tengist ákveðnu svæði, þar sem stjórnendur, íbúar, hagsmunaðailar og sérfræðingar vinna saman að málefnum svæðisins. Valddreifing af þessu tagi og þátttaka íbúa í ákvörðunum er tengjast þeirra nærumhverfi eru líklegar til þess að geta af sér meiri félagsauð í samfélaginu, en þau samfélög sem eru rík af félagsauði þar ríkir iðulega meira traust og íbúar eru almennt ánægðari. Ráðgjafafyrirtækið Alta hefur sérhæft sig í að skipuleggja íbúaþing og á eftirfarandi slóð má sjá þau þing sem fyrirtækið hefur skipulagt síðastliðin ár Alta.is

En er íbúalýðræði raunhæft og virkar það sem stjórnunaraðferð?

Garðabær undir forystu Ásdísar Höllu Bragadóttur var eitt fyrsta sveitarfélagið til þess að halda íbúaþing og á þinginu komu fram margar hugmyndir sem stjórnendur bæjarfélagsins hafa nýtt sér og framkvæmt síðustu ár. Samningur um Minn Garðabæ er brautryðjendaverkefni á heimsvísu á sviði rafrænnar stjórnsýslu og íbúalýðræðis. Þar geta íbúar sveitarfélagsins skráð sig inn á gagnvirkan vef og merkt við þá málaflokka sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Einnig geta notendur nálgast persónulegar upplýsingar sér tengdar.

Hin hliðin á Mínum Garðabæ eru þeir möguleikar sem verkefnið opnar til aukins íbúalýðræðis og samráðs við íbúa. Hægt er að leggja kannanir fyrir íbúa á einfaldan hátt og hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ mikinn áhuga á að nýta þennan möguleika til að auka þátttöku íbúa við ákvarðanatöku. Markmiðin með þessu nýja fyrirkomulagi eru aukin skilvirkni, hagkvæmni og að íbúarnir geti nálgast upplýsingar með sem auðveldustum hætti. Vefurinn er einnig leið til þess að koma í veg fyrir að stjórnsýslan þenjist út með auknum kröfum um þjónustu. Stjórnendur í Garðabæ hafa sýnt fram á að íbúalýðræði er framkvæmanlegt, en ljóst er að forysta skiptir gríðarlega miklu máli í þessu samhengi. Til eru dæmi þess að sveitarstjórnir hafa sprungið vegna deilna sem hafa sprottið upp frá íbúaþingum.

Íbúalýðræði í formi íbúaþinga er jákvæð leið til þess að virkja almenning til þátttöku í stjórnmálum, en mín skoðun er sú að það eigi ekki að skuldbinda sveitarfélögin til þess að halda íbúaþing með lagasetningu eins og fulltrúar Samfylkingarinnar á þingi vilja gera. Íbúaþing eru kostnaðarsöm og tímafrek og því ekki hægt að ætlast til að öll sveitarfélög stór og smá haldi slík þing. Misjafnar aðferðir virka á mismundi vandamál og jafnvel þó að íbúaþing hafi reynst vel víðast hvar þá er það ekki algilt.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.