Að lifa af

Það að gíslar snúist á sveif með þeim sem halda þeim föngnum hefur verið kallað Stokkhólmsheilkennið, en það hefur verið talið birtingarmynd þeirrar viðleitni mannsins að reyna að lifa af hættulegar aðstæður á borð við gíslatöku.

Þann 23. ágúst árið 1973 var framið rán í banka í Stokkhólmi. Tveir bankaræningjar, vopnaðir vélbyssum, héldu fimm gíslum föngnum og lokuðu þá inni í bankahvelfingu. Umsátur lögreglunnar stóð í fimm daga, þar til henni tókst loks að afvopna ræningjana og bjarga gíslunum. Ránið vakti mikla athygli víða um heim og sérstaklega viðbrögð gíslanna eftir björgunina, sem höfðu greinilega bundist bankaræningjunum tilfinningaböndum. Í viðtölum við fjölmiðla sögðust gíslarnir styðja bankaræningjana og telja að þeir hefðu aðeins verið að vernda þá gegn lögreglunni. Þeir neituðu að bera vitni gegn ræningjunum og ein þeirra sem tekin hafði verið gíslingu stofnaði sjóð til þess að styðja við bakið á bankaræningjunum í málaferlunum gegn þeim.

Eftir ránið í Stokkhólmi hefur það þegar gíslar snúast á sveif með þeim sem halda þeim föngnum verið kallað Stokkhólmsheilkennið. Helsta merki heilkennisins er það að þolandinn verður jákvæður í garð gerandans, styður hegðun hans og aðstoðar hann jafnvel við að koma fram áformum sínum. Um leið verður þolandinn andsnúinn þeim sem reynir að bjarga honum frá ástandinu, hvort sem það er fjölskylda hans, vinir eða lögreglan.

Stokkhólmsheilkennið kemur aðeins fram þegar þolandinn telur lífi sínu og heilsu ógnað og þegar hann telur að hann geti ekki flúið ástandið. Í þeim aðstæðum hættir þolandanum til þess að mistúlka aðgerðir gerandans í viðleitni sinni við að sjá jákvæða hlið á ástandinu og telur til dæmis það að gerandinn leyfi honum að fá að borða eða drekka vera skýr merki um að gerandinn sé alls ekki alslæmur.

Við þessar aðstæður hefur þolandinn tilhneigingu til þess að fara að horfa á heiminn með augum gerandans og hann verður smátt og smátt ófær um að sjá önnur sjónarmið en þau sem gerandinn færir fram. Þess eru jafnvel dæmi að gíslar hafi þjáðst af yfirþyrmandi sektarkennd eftir handtöku þeirra sem héldu þeim föngnum, vegna þess að þeir hafa talið það þeirra sök að lögum og reglu hafi verið komið yfir brotamennina.

Það hefur verið talið að Stokkhólmsheilkennið sé birtingarmynd þeirrar viðleitni mannsins að reyna að bjarga sér úr hættulegum aðstæðum á borð við gíslatöku. Til þess að reyna að lifa af, reynir þolandinn þannig að þróa með sér hegðun, á borð við undirgefni, sem hann telur að muni falla gerandanum í geð.

Framangreind einkenni birtast hins vegar ekki í hvert skipti sem gíslum er haldið föngnum. Eiginleikar þolandans skipta þar vitaskuld verulegu máli, en meðal annars er talið að þeir sem búa við erfiðar aðstæður og hafa mikla þörf fyrir viðurkenningu annarra séu líklegri en aðrir til þess að sýna merki Stokkhólmsheilkennisins. Það hefur jafnframt verið leitt í ljós að sambærileg einkenni geta komið fram við annars konar aðstæður, til dæmis þegar um er að ræða konur sem sæta ofbeldi af hálfu eiginmanna sinna. meðlimi öfgakenndra sértrúarsöfnuða og fórnarlömb kynferðisafbrota.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)