Flokkflótta

Helgarnestið er að þessu sinni helgað nýyrðasmíð, áhuga Bandaríkjamanna á lauslæti táningstelpna og þeirrar staðreyndar að ein annasamasta helgi Umferðarráðs er að bresta á það er þriðja eða fjórða stærsta ferðahelgi sumarsins.

Fréttir bárust af því í vikunni að Gunnar Örlygsson þingmaður Frjálslynda flokksins hefði sagt sig úr flokknum og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og þingflokkur Sjálfstæðismanna hefði tekið honum opnum örmum. Án þess að þreyta lesendur sem lesa þennan pistil til þess eins að lyfta húmor sínum í æðra veldi eftir erfiða og annasama vinnuviku- var það niðurstaða undirritaðs að hugtak yfir

slíkan gjörning og þingmaðurinn gerði skorti sárlega í íslenska tungu.

Þar eð greinarhöfundur hefur lesið Íslandklukku Halldórs Laxness tvisvar og alla reyfara Arnaldar Indriðasonar datt honum strax í hug að nýyrðið flokkflótta væri orð sem næði yfir það hugtak þegar stjórnmálamaður yfirgefur einn flokk til þess að ganga í annan. Orðinu svipar óhjákvæmilega við annað íslenskt orð sem er landflótta.

Í ljósi þess að þingmaður flýr aðeins flokk sinn vegna ákvarðana flokksbræðra hans eða í ljósi samvisku sinnar má segja að það að vera landflótta og flokkflótta sé

merkingalega keimlíktað mörgu leyti. Greinarhöfundur leyfir sér því að gera að tillögu sinni að fyrirsagnir fjölmiðla, næst þegar þingmaður flýr flokk verði eitthvað á þessa leið: „Gunnar Örlygsson flýr flokk sinn en hefur verið veitt pólitískt hæli í Sjálfstæðisflokknum.“ en almennt verður að telja að orðskrípið pólitískt hæli eigi einkar vel við þegar rætt er um flokkflótta menn.

Umfjöllun Svanhildar Hólm Valsdóttur í þætti Ópru einhvern tímann nú á útmánuðum eða í byrjun sumars hefur farið fyrir brjóstið á Vestur-Íslendingum og fleirum sem mundað hafa stílvopnið á síðum Morgunblaðsins undanfarið í heilagri vandlætingu yfir orðbragði og umfjöllun Svanhildar.

Óþarfi mun að tíunda efni þáttarins, en það fjallaði meðal annars um að táningsstúlka sem „lifði saman“ með pilti-sé bókmenntamál Eðvarðs Ingólfssonar notað-væri ekki talin lauslát á Íslandi. Svanhildur hefur hins vegar útskýrt að

frásögn hennar í þætti Ópru hefðu bæði verið tekin úr samhengi og klippt þannig að ekki stóð neitt eftir nema ofangreind umfjöllun þegar fjallað var um kynhegðan

íslensku þjóðarinnar.

Í þessari lautarferð með helgarnestinu verður ekki farið í nákvæmar skýrgreiningar eða analýsur á íslenskri kynhegðan, en aðeins bent á eitt álitaefni hvert fjölmiðlar

og Vestur-Íslendingar virðast hafa gleymt að fjalla um í tengslum við ofangreinda umfjöllun en það er af hverju í ósköpunum að í langri umfjöllun um Ísland og Íslendinga sé aðallega klippt út og notað það hvort íslenskar táningsstúlkur séu lauslátar?

Segðu mér hvað þú hugsar og ég skal segja þér hvort þú sért sóðabósi!

Vart þarf að segja lesendum að löng helgi er framundan….sjálf Hvítasunnuhelgin. Til siðs er að hluti þjóðarinnar fari út á land þessa helgi og er þar væntanlega að finna ástæðu þess að helgi þessi hefur verið nefnd svokölluð ferðahelgi. Og hvert mannsbarn veit að á hælana á ferðahelgi…kemur Útvarp Umferðarráð.

Fátt fer meira í taugarnar á greinarhöfundi-sem gjarnan skilgreinir sig sem góðan gegnan og löghlýðinn borgara-en Útvarp Umferðarráð og frásagnir þess af fífldjörfum

ökumönnum sem aka á nagla/eða sumardekkjum beltis/ljós/hurðar/miðstöðvar og/eða vitlausir í umferðinni ásamt viðeigandi mórölskum fordæmingum á háttsemi ökumanna.

Má í raun og veru segja að greinarhöfundur-sem keyrir iðulega fullkomlega í samræmi við umferðarlöggjöfina-fyllist iðulega bræði og finni hjá sér örlitla hvöt til þess að stíga bifreið sína flata og aka með engar hendur á stýri þegar hann heyrir í óskapnaðinn: „Útvarp-Umferðarráð góðan dag…!“

En þrátt fyrir ofangreinda fordóma greinarhöfundar, er víst ekki úr vegi að enda siglingu helgarnestisins með heilræðum og biður greinarhöfundur alla þá sem ætla sér

að bregða undir sig bensínlöppinni þessa helgina að aka allsgáð, með spennt belti og á löglegum hraða.

Það margborgar sig.

Hvort sem við erum flokkflótta, landflótta, eða þjáumst af Stóra-Bróður heilkenni þá er vert að rifja upp hið fornkveðna að hollt er heilum vagni í hlað að aka… og með

slökkt á útvarpinu!

Góða helgi.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.