Þegar dauðinn er vís

Það eina sem er víst í þessu lífi er dauðinn. Ættu ekki að teljast sjálfsögð réttindi hvers manns sem hefur til þess tækifæri, að ráða því hvernig skilið er við?

Það eina sem er víst í þessu lífi er dauðinn. Í engu fær maður víst ráðið um að fæðast inní þennan heim og í flestum tilvikum heldur litlu um hvernig hann er kvaddur. Ættu það þá ekki að teljast sjálfsögð réttindi hvers manns sem hefur til þess tækifæri, að ráða því hvernig skilið er við?

Umræðunni um líknardráp/líknardauða skaut jafneldfimri og áður upp kollinum nýlega þegar mál hinnar bandarísku Terri Schiavo náði hátindi sínum í síðasta mánuði. Varð málið, sem snerist í stuttu máli um það hvort Schiavo fengi samkvæmt ósk sinni að deyja í friði, til mjög harðvítugra deilna í Bandaríkjunum og víðar.

Fletir líknardrápsumræðunnar eru óteljandi og má gera ráð fyrir því að flestir þeir sem þó eru hlynntir líknardrápum séu tilbúnir til að fallast á það að gráu svæðin í umræðunni séu langtum fleiri en þau svörtu og hvítu. Þeir hinir sömu myndu þó undantekningalaust segja það skýlausan rétt hvers einstaklings að fá deyja sé svo komið fyrir viðkomandi að lífið sé bölið eitt og óskin um að fá enda bundinn á þjáninguna sé eindregin. Það sé ekki bara mannúðlegt, heldur einnig rétt.

Orðið líknardráp ber með sér þunga og þýðingu sem útlistar eitthvað bannað og fordæmt. Enda er líknardráp ekki löglegt. Hinsvegar er síðan talað um líknardauða eða líknandi meðferð í öðrum tóni. En hvað er það í raun sem skilur á milli?

Líknandi meðferð telst það að létta sjúklingi dauðastríðið t.d. með verkjameðferð. Gott og vel. Enginn amast við því. Eftir því sem næst verður komist er síðan talað um líknardauða t.d. þegar að tæknilegum aðgerðum er hætt í tilvikum sjúklinga sem aðeins halda lífi fyrir tilstilli tækjabúnaðar, og þeim leyft að deyja. Skilgreining líknardráps sem slíks virðist þá felast í annað hvort aðgerð (beint líknardráp) eða aðgerðarleysi (óbeint líknardráp) sem leiðir til dauða sjúklings. Virðist manni sem að oft hljóti að koma upp mál sem að skarist milli hinna tveggja síðarnefndu skilgreininga. Er það að hætta tæknilegum aðgerðum ekki bein aðgerð?

Hér er auðvitað talað í fullkominni einföldun um margflókin mál, þar sem hvert einstakt tilvik kallar á að það sé skoðað sérstaklega með tilliti til aðstæðna. Engu að síður virðist sem svo – ef miðað er við afskaplega dauflega umfjöllun um grundvallarpælingar í þessum málum sem heimsathygli Schiavo málsins hefði svo auðveldlega átt að skapa umræðugrundvöll fyrir – að meginþorri Íslendinga samþykki líknandi meðferð, líknardauða og líknardráp.

Er það kannski svo að meðvitund okkar um, að óljósar línur liggi milli þess sem er yfirlýst rangt og yfirlýst rétt, knýji okkur að þegjandi samkomulagi um að láta vera að grufla í þessum málum um of?

Að minnsta kosti verður að mati pistlahöfundar að teljast gott ef almennt ríkir hér á landi víðsýni og þolinmæði gagnvart íhlutunum í líf þeirra deyjandi sem þess óska og þurfa. Að sjálfræði þeirra sé þannig virt fram í síðasta sólsetur.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.