Hvítþvegnir englar

Þingmenn Framsóknarflokksins ganga nú um sem hvítþvegnir englar eftir að hafa birt opinberlega sérvaldar upplýsingar um fjárhagsmálefni sín.

Þingmenn Framsóknarflokksins ganga nú um sem hvítþvegnir englar eftir að hafa birt opinberlega sérvaldar upplýsingar um fjárhagsmálefni sín. Þótt ekki sé ástæða til að amast sérstaklega við þessu uppátæki framsóknarmanna, þá er heldur ekki nein ástæða til að lofsyngja það.

Það er hverjum manni frjálst að birta þær upplýsingar um sig sem honum þóknast. Það er jafnframt í mannlegu eðli að bera hag sinn fyrir brjósti. Það er þess vegna eðlilegt, nú þegar framsóknarmenn voru komnir í blindstræti pólitískrar spunalistar, að þeir veldu sérstaklega til birtingar þær upplýsingar sem kæmu best út fyrir þá.

Eins og bent hefur verið á segja upplýsingar um hlutabréfaeign og fasteignir afskaplega lítið um það hvort viðkomandi sé í einhverri vafasamri stöðu gagnvart umbjóðendum sínum, þ.e. kjósendum. Skilja má umræðu síðustu daga á þann veg að því minna sem menn eiga í hlutafélögum því meiri ástæða sé til að treysta störfum þeirra á þinginu.

Þetta er auðvitað reginfirra. Fjárhagslega sjálfstæðir þingmenn eru forsenda þess að löggjafinn geti starfað með málefnalegum og faglegum hætti. Það ætti þess vegna að vera keppikefli þingmanna að vera fjár síns ráðandi í hvívetna, að skulda sem minnst og eiga sem minnst undir öðrum. Skiptir þá engu máli hvort þær eignir liggja í hlutabréfum, fasteignum eða inni á bankabók.

Ef samstaða er um það að fjárhagsleg og félagsleg tengsl alþingismanna eigi að vera opinber, þá er nauðsynlegt að öll spil séu lögð á borðið. Þar skipta skuldir þeirra vitanlega mestu máli, því engum eru menn eins háðir og lánadrottnum sínum.

Það má hins vegar velta því fyrir sér, hvort einhver ástæða sé til þess yfir höfuð að þingmenn þurfi að opinbera þessar upplýsingar. Hætt er við því að slíkar reglur myndu fæla fólk frá því að sækjast eftir því að gegna þessum störfum, einkum ef til stendur að brjóta þannig á rétti maka þeirra til friðhelgi einkalífs. Það er því líklegra en ekki að slíkar reglur myndu veikja lýðræðið, í stað þess að styrkja það.

Það er einnig umhugsunarvert hvort reglur um slíka upplýsingagjöf ættu að eiga við um fleiri hópa. Til að mynda þá sem mikil áhrif hafa á umræðu og skoðanamyndum almennings; blaðamenn. Ef ástæða er til að ætla að fjárhagsleg og félagsleg tengsl þingmanna hafi áhrif á löggjafarstarf þeirra, er ekki síðri ástæða til að ætla að slíkt eigi við um blaðamenn. Væru blaðamenn almennt reiðubúnir til þess að gera þessar upplýsingar opinberar? Væru makar blaðamanna reiðubúnir til þess?

Hafi menn raunverulega áhyggjur af því að fjármagn sé að spilla íslenskum stjórnmálum er miklu nær að setja reglur um framlög fyrirtækja til íslenskra stjórnmálaflokka. Hvernig ætli þingmönnum Framsóknarflokksins hugnaðist það?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.