Versta frumvarp ársins III

Í pistlum sem hafa birst hér á Deiglunni undanfarið hefur verið fjallað um frumvarp samgönguráðherra til breytinga á fjarskiptalögum nr. 81/2003. Er þetta stutta þrettán greina frumvarp margþætt atlaga að réttindum almennings í landinu. Áður hefur verið fjallað um fyrirhugaða skráningu á öllum netsamskiptum okkar og afnám svokallaðra frelsiskorta en ruglið er ekki búið.

Í pistlum sem hafa birst hér á Deiglunni undanfarið hefur verið fjallað um frumvarp samgönguráðherra til breytinga á fjarskiptalögum nr. 81/2003. Er þetta stutta þrettán greina frumvarp margþætt atlaga að réttindum almennings í landinu. Áður hefur verið fjallað um fyrirhugaða skráningu á öllum netsamskiptum okkar og afnám svokallaðra frelsiskorta en ruglið er ekki búið.

Sú meginregla gildir hér á landi að við rannsókn opinberra mála þarf lögreglan dómsúrskurð til að nálgast ýmsar upplýsingar, hvort sem þær eru í vörslu viðkomandi eða þriðja manns. Upplýsingar hjá fjarskiptafyrirtækjum eru þar engin undantekning. Í 47. gr. fjarskiptalaga kemur fram að ekki megi án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Jafnframt að um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skuli fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála sem gerir skýlausa kröfu um dómsúrskurð.

En úti er ævintýri. Í frumvarpi samgönguráðherra er gert ráð fyrir að lögreglan þurfi ekki dómsúrskurð til að fá upplýsingar um eigendur óskráðra símanúmera eða notendur ákveðinna IP-talna. Í lögskýringargögnum með frumvarpinu kemur réttilega fram að ástæður þess að notendur símanúmera kjósa að vera utan opinberra skráa séu ýmsar, t.d. að forðast ónæði eða ofsóknir frá öðrum. Með leyninúmerum sé hins vegar ekki ætlunin að koma mönnum undan rannsókn opinberra mála eða að torvelda rannsóknir brota og því eigi lögreglan að geta fengið aðgang að þeim án dómsúrskurðar. Það virðist því vera viðhorf lögreglunnar að meginreglan um dómsúrskurð við rannsókn opinberra mála sé farin að torvelda rannsókn þeirra og því eigi að afnema hana í þessu tilviki!

Í frumvarpinu er einnig að finna þá röngu ályktun að fyrst meirihluti einstaklinga kjósi að hafa símanúmer sín aðgengileg öllum þá sé sjálfgefið að þau séu opinberar upplýsingar. Svo er að sjálfsögðu ekki. Þeir sem eru með símanúmer sín óskráð hafa tekið þá ákvörðun að halda þessum persónulegu upplýsingum fyrir sig og það ber að virða. Þegar lögreglan fer fram á dómsúrskurð þarf hún að rökstyðja kröfu sína. Þá tekur dómari afstöðu til þess hvort atvik séu þannig að það réttlæti að svipta einstaklinga þessari sjálfsögðu leynd.

Í lögskýringargögnum kemur einnig fram að það sé í lagi að veita upplýsingar um IP-tölur þar sem að engar persónulegar upplýsingar séu bundnar við þær. Einnig að þær séu eins konar símanúmer á netinu og því eigi væntanlega sömu röksemdir við og varðandi símanúmerin. Rétt er að gera alvarlegar athugasemdir við þessa tæknitúlkun ráðuneytisins. Með IP-tölu að vopni er hægt að fylgjast með netnotkun einstaklinga og tengja þá við heimsóknir á ákveðnar heimasíður eða ákveðin ummæli á Internetinu. Það verður því að teljast eðlilegt á sama hátt og með símtöl að lögreglan þurfi dómsúrkurð til að nálgast þessar upplýsingar. Þá myndi dómari skera úr um það hvort viðkomandi ummæli eða heimsóknir á heimasíður séu þess eðlis að það réttlæti að svipta einstaklinga nafnleysinu á netinu.

Þrátt fyrir að aðeins sé um að ræða aðgang án dómsúrskurðar að litlu broti þeirra upplýsinga sem fjarskiptafyrirtækin hafa um viðskiptavini sína þá megum við aldrei gleyma að frumvarpið er að veita afslátt frá meginreglunni um dómsúrskurð fyrir gagnaöflun við rannsókn opinberra mála. Erum við tilbúin að veita afslátt frá þessum grundvallarréttindum? Símanúmer og IP-tölur í dag. Hvað kemur þá á morgun? Verður í þessu samhengi að minna á að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem reynt er að fá afslátt frá þessari meginreglu. Í fyrra lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp þar sem meðal annars var lagt til að lögreglunni væri í sumum tilvikum heimilt að hefja hleranir án dómsúrskurðar. Alþingi samþykkti blessunarlega ekki þá tillögu.

Í þremur pistlum hefur verið fjallað um þá stórfelldu atlögu að réttindum okkar sem frumvarp samgönguráðherra felur í sér. Það verður að teljast alveg með ólíkindum að þessar öfgakröfur hafi ratað inn í sali Alþingis. Þetta þýlyndi og undirlægjuháttur gagnvart lögreglunni er ótrúlegt. Lögreglan virðist bara þurfa að segja að þeir þurfi nauðsynlega einhverja lagaheimild og þá stökkva stjórnmálamennirnir til.

Voru stjórnmálamennirnir ekki örugglega kosnir til að vinna að velferð okkar en ekki lögreglu?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.