En…, allir aðrir gera það!

sdfdMenn reyna í auknum mæli að réttlæta hinar og þessar aðgerðir með þeirri röksemdafærslu að aðrar þjóðir hafi fetað svipaða braut og því sé eðlilegt að Íslendingar geri slíkt hið sama.

Litlar frekjudollur vita að áhrifarík leið í dægurþrasinu er að höfða til smáborgaraeðlis okkar!

Það er alþekkt trikk úr barnabransanum að láta ekki undan suði gríslinga. Eins og flestir þekkja getur suðið orðið skerandi á tíðum og lævís ungabörn vita að besta leiðin til að slá öll vopn úr höndum foreldra sinna er að segja hátt og snjallt: “En…, allir aðrir mega gera það!” Svo því sé haldið til haga frá fyrstu mínútu, þá var ofangreind dæmisaga ekki bara sett inn í pistilinn til að lengja hann, heldur ber hún í raun og veru boðskap sem vert er að skoða nánar: lítil börn eru leiðinleg – en vitlaus eru þau ekki! Þau vita að með því að höfða til smáborgaraskaps foreldra sinna eygja þau von þess efnis að knýja fram baráttumál sín. Það vill nefnilega enginn vera púkó – og hvað er meira púkó en að gera ekki það sem “allir” aðrir gera?

Snjallir foreldrar samþykkja hins vegar ekki heimskulegar hugmyndir barna sinna. Og þó svo að allir aðrir megi gera það – þá endar það yfirleitt með því að foreldrar slá í borðið – og banna barninu t.a.m. að sprengja rörsprengju í baðkarinu!

Hér væri freistandi að nefna í beinu framhaldi reykingaumræðuna. Mjög freistandi. Eiginlega svo freistandi að ég stenst bara ekki mátið og nefni til sögunnar nýliðna umræðu um reykingafrumvarp Sivjar Friðleifsdóttur og annara kóna af hennar meiði. Ein helstu rök þeirra í báráttunni gegn reykingum á skemmtistöðum eru þau að: “allar aðrar þjóðir (lesist: Írland, Bandaríkin og Kúba – halló, Hafnarfjörður – síðan hvenær miðum við okkur við þær?) eru búnar að banna reykingar á skemmtistöðum!”

Gott og vel. Öndum djúpt að okkur og skoðum þessa hugmyndafræði aðeins nánar.

Fyrir það fyrsta eiga lesendur alltaf að slá varnagla við hugmyndir manna sem eru reiddar fram á þeirri forsendu að allir aðrir geri það. Það segir sig eiginlega sjálft: þannig er nóg að ein þjóð taki ákvörðun á hæpnum forsendum og að aðrar þjóðir lepji síðan sömu mistök upp eftir henni “vegna þess að aðrir gera það”. Hljómar þetta kunnuglega? Hvaða rök voru aftur notuð í baráttunni fyrir stuðning við Íraksstríðið?

Það skyldi þó ekki hafa verið klassíkerinn: “… en allir aðrir gera það!”?

En hvers vegna látum við alltaf glepjast af fagurgala þeirra sem beita þessari röksemdafærslu fyrir sig? Jú, við – Íslendingar! – erum plebbar og viljum alltaf fylgja ákvörðunum annarra í blindni í stað þess að taka ákvarðanir út frá okkar eigin forsendum.

Og enn þykknar þráðurinn: Er það eina ástæðan fyrir því að frumvarpið verður líklega að lögum árið 2007? Nei, en reykingamenn eru lélegur hagsmunahópur og samtakamáttur þeirra í samfélaginu er hverfandi. Og hér eru ekki nein ný sannindi á ferð enda er takmarkaður samtakamáttur reykingamanna flutningsmönnum frumvarpsins að fullu kunnur. Og jafnvel þótt það hafi nýlega verið svæft á þingi eru blikur á lofti.

Við verðum samt að vona að þingheimur rumski og svæfi frumvarpið svefninu langa.

Góða nótt.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)