Þeir sletta skyrinu sem eiga það

Nýlegt framtak stórhuga bænda í Hvalfirði hefur vakið nokkra athygli og hrist upp í umræðunni um ríkisstyrktan landbúnað. Fyrirtækið Mjólka ákvað að kaupa kýr en ekki kvóta og hefja framleiðslu á mjólkurafurðum án ríkisstyrkja.

Mjólk er holl – í það minnsta góð. Svo góð og holl að við sjáum ástæðu til að styrkja framleiðslu hennar ríkulega til að sjá til þess að allir geti keypt íslenska mjólk.

Nýlegt framtak stórhuga bænda í Hvalfirði hefur vakið nokkra athygli og hrist upp í umræðunni um ríkisstyrktan landbúnað. Fyrirtækið Mjólka ákvað að kaupa kýr en ekki kvóta og hefja framleiðslu á mjólkurafurðum án ríkisstyrkja. Sagði forsvarsmaður Mjólku í fréttum að kvótaverð væri orðið svo hátt að þeir teldu þessa leið vænlegri.

Eins og við var að búast tóku kúabændur þessum tíðindum ekki hljóðalaust. Í kjölfar fréttar um Mjólku var ekki lengi að bíða fréttar þar sem formaður Landsambands kúabænda lýsti því yfir að hann teldi framtak bænda í Hvalfirðinum ólöglegt. Með mjólkurkvóta fengist ekki einungis réttur til að fá allt að fimmtíu prósent kostnaðar við framleiðslu greiddan frá ríkinu heldur fylgdi kvótanum einnig hlutdeild í markaðnum.

Þó að eðlilegt sé að menn hræðist þessa nýju samkeppni er líklegt að meira liggi að baki en að missa hlutdeild í markaðnum. Getur verið að mjólkurkvóti sé orðinn svo dýr að framleiðsla á mjólk án ríkisstyrkja sé orðinn vænlegur kostur. Og ef svo er getur ekki verið að hluti andstöðu kúabænda sé vegna þess að þeir sjái fram á að slík samkeppni eigi eftir að opna augu fleiri á þessari staðreynd og lækka verð á kvóta – kúabændur eiga það jú allir sameiginlegt að eiga mjólkurkvóta (nema þessi í Hvalfirði). Einnig ætti að vera ljóst að ef Mjólku tekst að reka fyrirtæki sitt utan styrkjakerfa, af hverju ættu ekki fleiri að geta það? Þetta er sá raunveruleiki sem blasir við Landsambandi kúabænda og ætli það sé ekki aðal ógnin frá Mjólku.

En önnur spurning vaknar við þessa umræðu. Getur íslenska ríkið átt markaðinn fyrir mjólk og úthlutað honum eftir hentisemi? Varla er ætlunin að svara þeirri spurningu hér en ef svo er er líklegta að frelsi í viðskiptum sé eitthvað minna en margir halda. Ef niðurstaða stjórnvalda er sú að Mjólka stundi ólöglega starfsemi er jafnframt líklegt að íslenskir neytendur muni ekki einungis greiða myndarlega fyrir mjólk með sköttum heldur greiði þeir einnig of mikið fyrir mjólkurvörur almennt.

Sem betur fer virðast stjórnvöld ekki ætla að taka undir kvartanir kúabænda og skipta sér af rekstri Mjólku. Ef Landsamband kúabænda knýr fram þá niðurstöðu að starfsemi þeirra sé ólögleg vona ég að Alþingi grípi inn í og tryggi Mjólku eðlilegt rekstrarumhverfi. Sem dyggur neytandi mjólkur og mjólkurvöru fagna ég framtaki og hugrekki aðstandenda fyrirtækisins og vona að þeir eigi eftir að sýna fram á að íslenskur landbúnaður geti staðið einn og óstuddur. Því ef það tekst er allt eins líklegt að neytendur muni njóta framtaks þeirra í betra vöruúrvali og jafnvel lægra vöruverði. Einnig trúi ég því að ef vel tekst til eigi íslenskur landbúnaður eftir að standa sterkari á eftir og njóta ávaxta heilbrigðar samkeppni neytendum og skattgreiðendum til hagsbóta.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.