En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn. Jóh. 16. 33.

Í dag fagna kristnir menn upprisu Jesú Krists frá dauðum. Í tilefni þessarar hátíðar langar mig að fjalla á persónulegan hátt um uppáhalds textann minn í Biblíunni, sem á vel við á þessum degi. Það er von mín að þessi umfjöllun megi verða til þess að lesendur festi hugann á þessum páskadegi við það sem mestu máli skiptir í lífinu. Að við megum fagna upprisu Jesú Krists af hjarta með fullvissu um elsku hans og fyrirheit og von um elíft líf með honum.

Í dag fagna kristnir menn upprisu Jesú Krists frá dauðum. Í tilefni þessarar hátíðar langar mig að fjalla á persónulegan hátt um uppáhalds textann minn í Biblíunni, sem á vel við á þessum degi.

Jóhannesarguðspjallið hefur alltaf verið ein af mínum uppáhalds bókum í Biblíunni, og þá sérstaklega þeir kaflar þar sem Jesús undirbýr lærisveina sína, og sjálfan sig undir dauða sinn. Ástæða þessa er sú upplifun mín að á þessum tilteknu síðum sé að finna öll þau fyrirheit, elsku, von og tilgang sem trú mín á Jesú Krist sem frelsara minn hefur gefið mér.

Í frásögn guðspjallsins frá þessum klukkutímum áður en Jesús var handtekinn til krossfestingar kemur svo glögglega fram hve ríkuleg og óskilyrt guðdómleg ást Guðs á heiminum er og hver fyrirheit hans eru fyrir heiminn. Loforð Guðs um eilífa elsku og frið í hjarta til þeirra sem treysta á hann og um heilagan anda sinn, hjálparann, sem lifir hjá okkur og í okkur er að finna í þessu guðspjalli m.a. þegar Jesús segir:

„Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.“ Jóh. 14. 16-18.

Jesús er hér ekki að lofa heilögum anda einungis til þeirra sem heyrðu orð hans á þeim tíma sem þau voru töluð heldur til allra þeirra sem læra að elska hann. Því hann leggur í guðspjallinu jafnframt áherslu á útbreiðslu orðsins, til þeirra sem ekki hafa heyrt, og í þessu sama guðspjalli er að finna orð Krists:

„Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Jóh. 20. 29.

Á þessum síðum er þó ekki einungis að finna loforð Krists um elsku og von um að við elskum hann eins og hann elskar okkur. Þar býður Jesús einnig þeim sem hann elska að bera elsku hver til annars.

„Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ Jóh. 13. 34-35.

Í guðspjallinu má einnig finna fyrirheit Krists um eilíft líf með honum, þar sem hann og faðirinn muni búa þeim stað sem á hann trúa og hann elska. Í orðunum hér að neðan er að finna þetta fyrirheit og jafnframt þann boðskap að engin önnur leið sé fær til eilífs lífs með Guði en fyrir trúna á Jesú.

Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég fer. Veginn þangað þekkið þér.

Tómas segir við hann: „Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?“

Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“ Jóh. 14. 1-7.

Það er erfitt að ætla að gera skil á þessum köflum Jóhannesarguðspjallsins hér og enn erfiðara að reyna að lýsa upplifun minni við lestur þess. Það er hins vegar von mín að þessi stutta umfjöllun um þau vers sem tala til mín í dag megi, þrátt fyrir að vera ótæmandi, megi verða til þess að lesendur festi hugann á þessum páskadegi við það sem mestu máli skiptir í lífinu. Að við megum fagna upprisu Jesú Krists af hjarta með fullvissu um elsku hans og fyrirheit og von um elíft líf með honum.

Í lokinn langar mig að birta í heild sinni fyrirbæn Jesú, sem er að finna í 17. kafla Jóhannesarguðspjallsins, þar sem allt ofangreint og meira sameinast í bæn Jesú fyrir heiminum.

Fyrirbæn Jesú

Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: „Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan. Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum. En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist. Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna. Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.

Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð. Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér, því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir, og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn. Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.

Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.

Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims. Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig. Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)