Eilífðarbras

sdfdEr möguleiki á að okkar kynslóð lifi svo lengi að elstu menn muni ekki muna neitt?

Í guðs bænum, en hvað gefur maður eiginlega tengdamóður sinni í 893ja ára afmælisgjöf?

Vísindamenn við Cambridge-háskóla í Camebridge-skíri á Englandi segjast eygja þess von að stofnfrumur muni gera mönnum kleift að lifa í 1000 ár. Að sögn forvígismanns rannsóknanna, erfaðfræðingsins Audrey de Grey, er um gríðarstórt skref í læknavísindum að ræða sem hvílir á þeirri forsendu að aukið fjármagn verði lagt í rannsóknir á stofnfrumum í náinni framtíð. Þannig áætlar de Grey að í stað þess að meðalmaðurinn látist úr hjartaáfalli á milli sextugs og níræðs muni meðalmenn framtíðarinnar eiga um 900 ár ólífuð við tíræðisaldur. Hugmyndir de Grey eru góðar og gildar fyrir margar sakir og sannanlega göfugt verkefni að auka lífslíkur okkar allra — þótt hætt sé við að forsvarsmenn lífeyrissjóða verði bráðkvaddir þegar þeir heyra af ráðabruggi de Grey.

Hugmyndin um eilíft líf er ofin sem rauður þráður í gegnum sögu bókmennta, vísinda og trúarbragða. Sumir hafa þó tekið hugmyndina fastari tökum en aðrir og kosið að láta ættingja sína geyma sig frystikistu frá andláti sínu.

Þótt þeir hinir sömu hafi væntanlega hugsað Bónus þegjandi þörfina þegar lágvöruverslunin bauð hagsýnum neytendum mjólk á eina krónu, er líklegra en ekki að þeir taki hugmyndum de Grey fagnandi — jafnvel þótt þær verði til þess að þeir tapi kúlinu í aðþrengdum vistarverum sínum.

Samfélagslegir annmarkar hugmyndarinnar eru ærnir. Og þótt Audrey de Grey sé eflaust snjall vísindamaður sést honum hins vegar yfir mikilvægt smáatriði í útreikningum sínum um eilíft líf. Til einföldunar skulum við því líta fram hjá öllum vandamálum um lífeyriskerfið, afmælisgjafirnar, siðfræðina, fólksfjölgunina, vatnsskortinn og einblína á aðalatriðin:

Tengdamæðurnar!

Eins og sakir standa fá tengdamæður yfirleitt skammtaða ríflega þrjá áratugi til að hrella tengdasyni sína sem láta röflgusurnar yfir sig ganga í þeirri vissu að fyrr eða síðar muni æðri máttarvöld grípa í taumana og gefa þeim grið.

Og hjónabandið hvílir á þessari vissu!

Í ofangreindri útfærslu er hins vegar litið fram hjá þeirri staðreynd að fólk umhverfist jafnan í foreldra sína þegar aldurinn færist yfir — sem verður þess valdandi að allir kvæntir menn munu eignast TVÆR tengdamæður í fyllingu tímans og sitja uppi með þær mæðgur í hvorki meira né minna en 970 ár að meðaltali.

Audrey de Grey er einhleypur.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)