Misskilningur andstæðinga heimsvæðingar

Á síðustu árum hefur andstæðingum hnattvæðingar farið fjölgandi og nú er svo komið að í hvert skipti sem stofnanir á borð við Alþjóðabankann, Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) funda, mæta tugþúsundir ungmenna til þess að mótmæla alþjóðavæðingu. En hverju eru þeir í raun og veru að mótmæla ?

Algengt viðhorf mótmælenda er að í krafti alþjóðavæðingar séu ófaglærð störf flutt til þróunarríkja þar sem launakostnaður erum mun lægri. Eftir sitja atvinnulausir verkamenn sem eiga í fá hús að venda.

Það sem gagnrýnendur alþjóðavæðingar virðast eiga erfitt með að sjá er að kostirnir vega margfalt þyngra heldur en gallarnir. Þegar land fellir niður viðskiptahindranir, opnar fyrir erlendar fjárfestingar og tekur upp frjálsa viðskiptahætti þá óneytanlega verður einhverj tilfærsla á störfum verkamanna og starfa sem hafa lága framleiðni til landa þar sem launakostnaður er lægri. Þannig reyna fyrirtæki að lágmarka framleiðslukostnað sinn í því skyni að auka framlegð á vörum sínum. Þegar það gerist þá er það ekki einungis fyrirtækið sem græðir heldur samfélagið í heild sinni.

Tökum til dæmis fyrirtæki sem framleiðir vefnaðarvörur í Bandaríkjunum. Þar sem að Kína hefur hlutfallslega framleiðsluyfirburði sökum lágs launakostnaðar er rökrétt lausn að flytja framleiðsluna frá Bandaríkjunum til Kína. Ávinningurinn fyrir almenning er tvíþættur. Í fyrsta lagi mun tilfærslan færa bandarískum fataframleiðendum vefnaðarvöru á lægra verði. Það skilar sér í lægra verði á fatnaði fyrir Bandarískan almenning.

Á sama tíma skapar fjárfesting Bandaríkjamanna í Kína aukið fjármagnsflæði inn í landið sem smátt og smátt hækkar laun og lífsgæði. Þannig geta Kínverjar á móti flutt inn vörur sem Bandaríkjamenn geta framleitt með hlutfallslegum yfirburðum.

Niðurstaðan er sú að bæði almenningur í Kína og Bandaríkjunum nýtur góðs af alþjóðavæðingu á meðan að lítill hópur Bandarískra verkamanna missir vinnuna. Ríkið getur þá komið til móts við þennan hóp og hjálpa þeim að finna önnur störf.

Önnur rök andstæðinga alþjóðavæðingar lúta að mengunarmálum. Gjarnan er haldið fram að vestræn stórfyrirtæki flytji framleiðslu sína til fátækra landa þar sem litlar reglugerðir séu til staðar um umhverfisvernd. Þannig fá fyrirtækin að menga að vild.

Ef þetta væri raunin þá ætti fylgni að vera milli aukinnar alþjóðavæðingar og mengunar í þeim löndum sem hafa hvað frjálsast viðskiptaumhverfi. Sannleikurinn er að fátæk ríki sem hafa opnað viðskiptaumhverfi sitt hafa séð minnkun í iðnaðarmengun á síðustu áratugum. Ástæðan er sú að aukinn áhersla á umhverfisvernd helst fast í hendur aukins hagvaxtar. Með öðrum orðum að þegar lönd verða ríkari þá geta þau leyft sér að setja strangari reglur um mengun og mengunarvarnir. Þar sem að alþjóðavæðing og frjáls verslun leiðir til aukin hagvaxtar hjá þeim þróunarlöndum sem taka henni opnum örmum þá leiðir hún að sama skapi til aukinnar umhverfisverndar. Andstæðingar alþjóðavæðingar hafa því snúið dæminu við.

Það er því mikilvægt að þeir sem gagrýna alþjóðavæðingu skoði nánar röksemdarfærslur sínar og grípi þær ekki úr lausu lofti án umhugsunar.

Latest posts by Ýmir Örn Finnbogason (see all)