Hvað er Evrópusambandið eiginlega að hugsa?

Næstkomandi júní verða 16 ár liðin frá hinum hryllilegu atburðum á Torgi hins himneska friðar. Í tilefni þeirra tímamóta ætlar Evrópusambandið að aflétta vopnasölubanninu sem sett var á Kína í kjölfarið. Sú ákvörðun er með öllu óskiljanleg.

Bandaríkin og Evrópusambandið settu vopnasölubann á Kína í kjölfar blóðbaðsins á Torgi hins himneska friðar þann 4. júní 1989. Innan nokkura mánuða mun Evrópusambandið hins vegar aflétta því. Af hverju í ósköpunum?

Röksemdirnar sem Evrópusambandið hefur komið með eru af ýmsum toga. Lítum á þær helstu. Í fyrsta lagi eigi upphafleg réttlæting bannsins ekki lengur við, þar sem ástand mannréttindarmála í Kína hafi batnað á undanförnum 15 árum. Í öðru lagi sé það ósanngjarnt gagnvart Kína að vera sett í sama hóp og með útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu, Myanmar (Búrma) og Zimbabwe. Þriðja atriðið er að það sé mótsagnakennt að viðhalda banninu í ljósi þess hversu öflug samskipti Evrópusambandið hefur orðið við Kína. Ef banninu verði ekki aflétt, mun það vera hindrun í átt til enn frekari samskipta. Fjórða röksemdin – og sú fáránlegasta – var nýlega sett fram af varnarmálaráðherra Frakka, Michèle Alliot-Marie, sem hélt því fram, að Kína muni hvort eð er vera fært um að framleiða „nákvæmlega sömu vopn“ og Frakkar hafi innan fimm ára, og því sé með öllu tilgangslaust að viðhalda því.

Hefur árangur Kína á sviði mannréttindamála virkilega verið það góður á liðnum árum að hann verðskuldi að banninu verði aflétt? Tæplega. Bannið sendir enn sterk pólitísk skilaboð til kínverskra stjórnvalda um að þau eigi eftir að gangast við voðaverkunum á Torgi hins himneska friðar. Hingað til hafa þau ekki viljað lýsa opinberlega yfir eftirsjá vegna aðgerðanna. Öðru nær. Stjórnvöld halda því enn fram að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar til að tryggja stöðugleika í landinu. Með öðrum orðum: Ef „stöðugleikanum“ væri ógnað á ný, þá mundu stjórnvöld í Kína bregðast nákvæmlega eins við. Það er talið að nokkur hundruð manns hafi látið lífið þennan dag, auk þess sem um tvö þúsund einstaklingar, sem voru fangelsaðir í aðgerðunum, eru enn hafðir í varðhaldi. Evrópusambandinu væri hollt að hugleiða hvaða skilaboð það er að senda til þessara einstaklinga með því að aflétta vopnasölubanninu.

En hvað um þá meintu ósanngirni í að skipa Kína í hóp með þjóðum á borð við Myanmar og Zimbabwe. Á hvern hallar eiginlega í þeim samanburði? Ekki Kína að minnsta kosti. Mannréttindasamtök eins og Amnesty International hafa margoft bent á hversu lítil virðing er borin fyrir grundvallarmannréttindum í Kína. Til að mynda voru um 200 manns tekin af lífi á einungis tveimur vikum s.l. febrúar. Fólk er dæmt til dauðarefsingar og tekið af lífi eftir ósanngjörn réttarhöld, pyntingar og slæm meðferð á föngum er útbreidd og kerfisbundin, auk þess sem tjáningar, félaga- og trúfrelsi er enn verulega skert.

Það má ekki rugla því saman, að þrátt fyrir framfarir á sumum sviðum – líkt og góðan árangur í efnahagsmálum undanfarna áratugi – þá hafa nánast ekki orðið neinar framfarir á mörgum öðrum sviðum. Með því að aflétta vopnasölubanninu, væri Evrópusambandið að gefa til kynna að það væri ánægt með þróun mannréttinda í Kína. Og það eru alls ekki skilaboðin sem kínversk stjórnvöld þurfa að heyra.

Bandaríkin hafa sett sig algjörlega upp á móti ákvörðun Evrópusambandsins – og það skiljanlega. En Evrópusambandið virðist ekki almennilega átta sig á hversu alvarlegum augum Bandaríkin lítur á málið. Það eru Bandaríkin sem sjá um að öryggi sé tryggt í Asíu – ekki Evrópusambandið. Með því að aflétta vopnasölubanninu mun það hugsanlega hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir valdajafnvægið á svæðinu. Í dag er kínverski herinn langt á eftir hinum bandaríska hvað varðar hátæknihernað. En þetta bil mun Kína leitast eftir að minnka snögglega um leið og þeir fá tækifæri til að kaupa slíka tækni frá Evrópu.

Og það er Taívan sem skiptir öllu máli í þessu sambandi. En Bandaríkin er skuldbundið til að tryggja öryggi þess gagnvart Kína. Með áframhaldandi tæknivæðingu kínverska hersins, mun það að lokum hafa þá hættu í för með sér að helstu leiðtogar Kína munu sannfæra sjálfa sig um að þeir hafi í raun og veru hernaðarlegan valkost til þess að leysa vandamál tengt Taívan, ef til þess kæmi. Og það er nákvæmlega þetta sem bandarísk stjórnvöld hafa hvað mestar áhyggjur af: Að kínverski herinn verði útbúinn vopnum sem kæmu frá Evrópu og yrði beitt gegn bandarískum hermönnum ef til átaka kæmi.

Ef Evrópusambandið telur að slík framvinda sé fremur ólíkleg, ætti það betur að líta u.þ.b. níutíu ár aftur í söguna. Að mörgu leyti er það valdajafnvægi sem nú er fyrir hendi í Asíu svipað því sem var í Evrópu þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914. Ófyrirséðar uppákomur hrundu þar af stað atburðarás sem endaði með stríði á milli þjóða sem vildu ekkert með stríð hafa.

Bandaríkin hafa ekki fullkomna stjórn á þeim samskiptum sem fram fara á milli Kína og Taívans. Enginn þarf að velkjast í vafa um ásetning Kína í að koma í veg fyrir að Taívan verði sjálfstætt ríki: Kína lítur á það sem „heilaga skyldu“ sína í að hindra það – hvað sem það mun kosta. Í ljósi þess að leiðtogar Taívans hafa gerst djarfari í yfirlýsingum sínum um sjálfstætt Taívan að undanförnu, er alls ekki hægt að útiloka að atburðarás áþekk þeirri sem varð 1914 muni að lokum endurtaka sig. Og Evrópusambandið ætti ekki að hjálpa til við að gera slíka atburðarás að veruleika með því að styrkja hernaðarstöðu Kína á svæðinu.

Það er alveg sama frá hvaða sjónarhorni horft er á málið. Að aflétta vopnasölubanninu á Kína er óráðlegt í alla staði. Og Evrópusambandið ætti fremur – ef eitthvað er – að herða það.