Þörf lesning

Tillögur Verslunarráðs Íslands í skattamálum eru ferskt innlegg í umræðuna hér á landi. Í stað þess að beina sjónum að smávægilegum breytingum þarf að skoða allt kerfið frá grunni eins og Verslunarráð leggur til.

Verslunarráð Íslands hélt á dögunum Viðskiptaþingi undir yfirskriftinni: 15% landið Ísland. Þar er kynnt framtíðarsýn Verslunarráðs í skattamálum þar sem stefnt er að

• 15 % flötum tekjuskatti á einstaklinga

• 15% tekjuskatti á fyrirtæki

• 15% virðisaukaskatti.

Tillögurnar sem settar eru fram í skýrslunni eru afar áhugarverðar og gagnlegar. Rætt er um galla núverandi skattkerfis og leiðir til úrbóta. (Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér).

Vinnuhvati

Með því að hafa flatan 15% tekjuskatt má auka skilvirkni í þjóðfélaginu og draga úr fátæktargildrum. Með flötum tekjuskatti munu jaðarskattar lækka úr allt að 50% í um 30% en háir jaðarskattar búa til fátæktargildrur og eru vinnuletjandi. Þannig koma þeir verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar vegna þess að stór hluti af hverri aukakrónu sem unnið er fyrir fer beint í skatt. Þessa þróun sjáum við í löndum í kringum okkur þar sem jaðarskattar eru háir t.d. í Danmörku. Þar biður starfsfólk ekki um launahækkanir heldur meira frí, eða ókeypis síma eða afnot af bíl. Þetta leiðir óhjákvæmilega til sóunar þar sem kerfið er vinnuletjandi og framleiðni vinnuafls minnkar.

Minni undanskot

Með flatri skattprósentu er stefnt að því að einfalda kerfið en ekki flækja það. Með því að einfalda kerfið eru minni líkur á skattsvikum eða skattaundankomu. Í úttekt á vegum nefndar um skattsvik á Íslandi árið 2004 er talið að hið opinbera verði af um 35 milljörðum króna á ári vegna skattsvika eða um 4-5% af VLF. það er því eftir miklu að slægjast. Í sömu skýrslu var grennslast fyrir um ástæður minnkandi skattsvika, niðurstöðurnar voru svo bornar saman við hliðstæða könnun sem gerð var árið 1992. Sögðust um 42% aðspurðra að minni skattsvik megi rekja til lækkunar skatta það hlutfall var 24% árið 1992. Þetta skýtur stoðum undir þá kenningu að minni skattheimta ásamt einföldum og skýrum reglum leiði almennt til skilvirkari innheimtu skatttekna.

Bætt samkeppnisstaða

Lítið hagkerfi á borð við það íslenska hefur ekki upp á mikið að bjóða þegar kemur að alþjóðlegum risafyrirtækjum. Það er því afar mikilvægt að finna samkeppnisforskot sem erlendir fjárfestar sjái virði í. Þannig hafa önnur smáríki á borð við Sviss, Lúxemborg og Írland unnið markvisst að því bæta samkeppnisstöðu sína með því að lækka skatta og einfalda skattkerfið til þess að laða erlent fjármagn og fyrirtæki. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og eru þessi lönd orði leiðandi á sviði fjármála, rannsóknar- og þróunarvinnu.

Bent er á í skýrslu Verslunarráðs að við séum þó að réttri leið. Á síðasta ári greiddu erlend fyrirtæki hér á landi um 350 miljónir í skatta. Um er að ræða 10 bandarísk og kanadísk fyrirtæki sem stofnað hafa eignarhaldsfélög hér á landi sem veita öðrum félögum inna samstæðu sinnar þjónustu. Þetta sýnir okkur að lítil hagkerfi geta haft verulegar tekjur af erlendum fyrirtækjum sem ákveða að fjárfesta hér á landi ef umhverfið þykir fýsilegt.

Einkahlutafélögin

Einstaklingar hafa tvær leiðir til þess að afla tekna af atvinnu sinni. Annars vegar með launatekjum og hins vegar í gegnum arðgreiðslur. Vegna misræmis á skattálögum lögaðila og einstaklinga hefur myndast sterkur hvati fyrir einstaklinga til þess að fá tekjur sínar í gegnum arðgreiðslur. Þannig hafa þúsundir einkahlutafélaga verið stofnuð á undanförnum árum.

Við núverandi skattkerfi er skatthlutfall einstaklinga 37,73% (24,75% + 12,98%) en hins vegar 26,2% (18% + (1-0,18) x 10%) á lögaðila (þ.mt. einkahlutafélög) Með flötum 15% tekjuskatti minnkar munurinn á milli einstaklinga og lögaðila. Þannig yrði skattur á einstaklinga 27,98% (15% + 12,95%) en á lögaðila 23,5% (15% + (1-0,15) x 10%)

Það er mikilvægt að umræða um skattamál snúist ekki ætíð um smávægilegar breytingar sem hægt er að gera hér og hvar í kerfinu. Hugmyndir Verslunarráðs kunna að virðast róttækar við fyrstu sýn en til þess að koma skattamálum í það horf sem við teljum eftirsóknarvert er líklegast að verulega kerfisbreytingu þurfi við. Núverandi skattkerfi þarfnast uppstokkunar við og til þess að þoka því í rétta átt er líklegt að endurhönnun frá grunni sé heppilegri leið heldur en margvíslegar smábreytingar á gölluðu kerfi.

Hér að ofan var einungis fjallað um lítinn hluta af þeim kostum sem að 15% skattprósenta hefði í för með sér, afganginn má lesa í skýrslu VÍ.

Latest posts by Ýmir Örn Finnbogason (see all)