Ekki haldið og sleppt

Eins og fram hefur komið þá hefur frumvarp verið lagt fyrir Alþingi þar sem lagt er til að reykingar verði bannaðar á veitingastöðum, kaffihúsum og skemmtistöðum. Rökin gegn frumvarpinu byggjast á frelsi einstaklinga til að taka ákvarðanir þótt flestum þyki þær óskynsamlegar. Í pistli dagsins er bent á að þau eiga ekki við um alla.

Eins og fram hefur komið þá hefur Siv Friðleifsdóttir lagt frumvarp fyrir Alþingi þar sem lagt er til að reykingar verði bannaðar á veitingastöðum, kaffihúsum og skemmtistöðum. Í frumvarpinu er réttilega bent á að vísindaleg gögn hafi með óyggjandi hætti sýnt að óbeinar reykingar valdi dauða, sjúkdómum og fötlun. Hefur íslenska ríkið meira að segja skrifað undir rammasamning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar þar sem þessu er lýst yfir.

Í ritstjórnarpistli sem birtist hér á Deiglunni í fyrradag var fjallað um frumvarpið og þá hættulegu braut sem við erum kominn á verði það samþykkt, þrátt fyrir að enginn efist um skaðsemi óbeinna reykinga. Eins og kom fram í pistlinum þá snýst málið um að við virðum sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga til að taka ákveðnar ákvarðanir þótt flestum þyki þær óskynsamlegar. Þetta eru veigamikil rök og í raun þau einu sem geta réttlætt það þegar einstaklingar kjósa að skaða sjálfa sig með löglegum hætti.

En þessi rök um samþykki og áhættutöku vekja hins vegar upp fleiri spurningar. Það á að sjálfsögðu að leyfa mönnum að leyfa öðrum að stunda löglega iðju í þeirra eigin húsum, sama hversu heimskuleg eða hættuleg hún er. En böggull fylgir skammrifi. Þegar menn heimila slíka háttsemi í eigin húsum þá þýðir það ekki að þeir geti boðið öllum að koma inn. Þá geta þeir eingöngu boðið einstaklingum inn sem eru bærir til að taka slíka ákvörðun og hafa aldur og þroska til að gera sér grein fyrir afleiðingum slíkrar áhættutöku.

Vandamálið við samþykki og áhættutöku er nefnilega að þau sjónarmið eiga við sjálfráða einstaklinga. Ekki er hægt að fullyrða að börn og ungmenni sem eru ósjálfráða geti gert sér grein fyrir afleiðingum óbeinna reykinga og því geta þau ekki samþykkt að taka slíka áhættu. Jafnframt, með tilliti til þess að skaðsemi óbeinna reykinga er fullsönnuð, þá verður það að teljast verulega hæpið að forráðamaður gæti tekið slíka ákvörðun fyrir börn og ungmenni.

Á grundvelli barnaverndar hefur ríkisvaldið sett ýmis lög til að vernda börn og ungmenni enda má færa rök fyrir því að þetta sé einn af fáum hópum í þjóðfélaginu sem ríkisvaldið ætti að hafa afskipti af. Þannig eru t.d. takmarkanir í áfengislögum á því að ósjálfráða einstaklingar geti farið inn á veitingastaði sem selja áfengi nema í fylgd með foreldrum. Börn mega ekki fara inn á staði þar sem BDSM er stundað af miklum móð. Á sama hátt ef börnum yrði hleypt inn á svæði þar sem vitað væri að eitruð efni væru í loftinu þá væri sá sem hleypti þeim inn að fremja refsivert brot. Það hefði því kannski verið mun rökréttara að leggja fram frumvarp að lögum sem myndu takmarka aðgengi barna og ungmenna að stöðum þar sem eigendur þeirra heimiluðu reykingar í stað þess að banna fullorðnu fólki að reykja.

Þetta frumvarp vekur ýmsar spurningar um forgangsröðun og tilgang þeirra sem það leggja fram. Verði þetta frumvarp samþykkt þá er það alveg jafn löglegt og áður fyrir foreldra að reykja ofan í börnin sín, þeir mega bara ekki gera það á veitingastöðum. Þetta vekur furðu þar sem miðað við skaðsemi óbeinna reykinga þá gætu foreldrar alveg eins verið að hella uppþvottalegi ofan í börnin sín sem myndi líklega vekja töluverð viðbrögð hjá ríkisvaldinu.

En flutningsmönnum frumvarpsins fannst greinilega vernd barna og ungmenna vera hjóm eitt miðað við þörfina á því að banna fullorðnu fólki að stunda eða vera innan um löglega háttsemi þrátt fyrir að vera fullfært um að taka afstöðu til áhættunnar.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.