Loftsteinn, loftsteinn!

Loftsteinar þykja ekki meðal áhugaverðustu fyrirbrigða á sviði stjörnufræðinnar og hingað til hefur almenningi verið slétt sama um þessi fyrirbrigði. Undanfarið hafa þeir þó komist óvenjumikið í kastljós fjölmiðlanna og ástæða er til að velta því fyrir sér hvað veldur.

Loftsteinnin 2002-NY40 er ekki um margt merkilegur grjóthnullungur. Nú á laugardaginn mun hann hins vegar fara framhjá jörðinni í lítilli fjarlægð. Því kemst hann í kastljós fjölmiðlanna, og er þetta ekki fyrsti loftsteinninn sem fjallað er um í sumar. Loftsteinar þykja ekki meðal áhugaverðustu fyrirbrigða á sviði stjörnufræðinnar og hingað til hefur almenningi verið slétt sama um þessi fyrirbrigði. Það er kannski að menn hafi litið til himins í örfáar sekúndur þegar glitti í stjörnuhrap, en varla meira. Viðhorf almennings hefur þó smámsaman verið að breytast á undanförnum árum, að mestu vegna frétta af því að ákveðnir loftsteinar muni ekki rekast á jörðina.

Fréttunum má skipta í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða fréttir af því að agnarlitlar líkur séu á að loftsteinn muni rekast á jörðina í fjarlægri framtíð, með hörmulegum afleiðingum. Í kjölfarið koma fram nýjar upplýsingar, sem gefa til kynna að líkurnar séu minni en áður, þar til nokkrum vikum síðar, að málið er afgreitt með því að loftsteinninn fari framhjá jörðinni, og þar með gleymist hann. Í hinum flokknum eru fregnir af því að tiltekinn loftsteinn hafi farið framhjá jörðinni án þess að valda nokkrum skaða, og án þess að nokkur hafi orðið var við hann fyrr en hann var kominn framhjá.

Til að krydda þessar fréttir eru gjarna rifjaðar upp eldri fréttir af árekstrum sem ekki urðu og stærð hinna ýmsu loftsteina borin saman. Loftsteinninn fór framhjá í júní síðastliðnum var til dæmis á stærð við fótboltavöll. Loftsteinninn sem ekki mun rekast á jörðina nú á laugardaginn er á stærð við 25 fótboltavelli. Sá sem ekki veldur neinum usla árið 2019 er enn stærri, eða á stærð við 400 fótboltavelli.

Það fjaðrafok sem fylgir umræðunni um loftsteina er óhefðbundið í vísindaheiminum og þykir almennt séð ekki mjög fagmannlegt. Meðal vísindamanna þykir ekki fínn pappír að fara í almenna fjölmiðla með kenningar sínar fyrr en þær hafa verið skeggræddar á hinum ýmsu ráðstefnum og helst fengið birtingu í ritrýndu tímariti. Engum heilvita manni, jafnvel ekki eiganda líftæknifyrirtækis í blóma internetbyltingarinnar, hefði dottið í hug að tilkynna að það væru 0,2% líkur á því að hann hefði fundið lækningu við krabbameini, aðeins til að koma aftur í fjölmiðla nokkrum vikum síðar til að tilkynna að nánari rannsóknir sýndu að lækningin væri jafnfjarri og áður. Engu að síður er þetta svipað því sem gerist í hvert skipti sem einhver uppgötvar loftstein sem stefnir í átt til okkar.

Ástæðan fyrir þessum sérkennilega fréttaflutningi er að sjálfsögðu pólítísk. Það er kannski ekki augljóst við fyrstu sýn hver sér sér hag í því að hræða heimsbygðina með sögum sem minna helst á drenginn sem kallaði „úlfur, úlfur!“. Við nánari athugun liggur svarið þó ljóst fyrir. Stjörnufræði er dýr vísindagrein og mikil ásókn í þau tól sem notuð eru til stjörnuskoðunar. Þeir stjörnufræðingar sem rannsaka loftsteina hafa hingað til ekki átt greiða leið í pyngju skattgreiðenda, enda hafa aðrar greinar stjörnufræðinnar þótt meira spennandi. Ef tekst að sannfæra almenning um að dómsdagur sé hugsanlega í nánd mun þetta breytast og þeir stjörnufræðingar sem sérhæfa sig í loftsteinum munu fá óheftan aðgang að stjörnukíkjum heimsins.

Umræddir stjörnufræðingar hafa þó gengið skemur en fræðingar á ýmsum öðrum sviðum. Stjörnufræðingarnir hafa ekki haldið fram rangindum, og ekki haldið því fram að þeir viti meira en þeir gera. Einungis hefur verið sagt frá rannsóknum í þeirri röð að þær verða meira spennandi. Þótt slíkt þyki ekki til fyrirmyndar í akademísku samfélagi er erfitt að sjá hvernig vekja ætti athygli almennings og ráðamanna á annan hátt. Hættan á árekstri stórs loftsteins er hinsvegar raunveruleg og afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna blikna í samanburði við þær hörmungar sem slíku myndu fylgja. Pistlahöfundur er því á þeirri skoðun að láta eigi undan áróðri loftsteinafræðinga og láta eftirlit með loftsteinum njóta algers forgangs í stjörnuathugunum, þar til fullvíst er að enginn þeirra er á rangri braut.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)