Stjórnmál sem barátta rándýrs og hjarðar

Í umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu hefur komið fram að þróun stjórnmála á Íslandi sé á þann veg að rödd einstakra þingmanna fái ekki að hljóma. Þvi hefur verið haldið fram að stjórnmálaflokkar láti stjórnast af leiðtogaræði og ráðherrar og formenn stjórnmálaflokka ráði lögum og ráðum. Flokksmenn verði að hlýða sér hærra settum ætli þeir að ná brautargengi innan flokks síns.

Í umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu hefur komið fram að þróun stjórnmála á Íslandi sé á þann veg að rödd einstakra þingmanna fái ekki að hljóma. Þvi hefur verið haldið fram að stjórnmálaflokkar láti stjórnast af leiðtogaræði og ráðherrar og formenn stjórnmálaflokka ráði lögum og ráðum. Flokksmenn verði að hlýða sér hærra settum ætli þeir að ná brautargengi innan flokks síns.

Hver kannast ekki við dæmið um ungliðann sem fer um eins og eldibrandur. Hann er með róttækar skoðanir, gagnrýnir flokk sinn og er boðberi breytinga. Þegar hann nær kjöri á þing, slokknar bálið og rödd hans hljóðnar smátt og smátt. Hann fylgir flokkslínunni og er orðinn skotspónn sinnar fyrri gagnrýni.

En hver ætli ástæða þessa sé? Af hverju eru stjórnmálaflokkar samstilltur hópur “já manna” og afhverju taka ungliðar hamskiptum um leið og þeir koma á þing og fylgja skoðunum fyrirmanna flokksins?

Margir stjórnmálafræðingar halda því fram að ástæðan sé fremur einföld og slík valdaskipan sé með öllu eðlileg. Stjórnmálaflokkar verði að starfa eins og vel smurð vél til að ná árangri.

Ef litið er til fyrirtækjamenningar er hið sama uppi á teningnum. Þar eru yfirmenn sem stjórna undirmönnum sínum. Skipulagið verður að vera rétt til að fyrirtækin nái árangri. Valddreifingin verður að vera rétt. Ætli stjórnmálaflokkur sér að ná kjöri verður skipulagið að vera gott og forystan sterk.

Hlutverk stjórnmálaflokka er viðamikið. Það þarf að safna stuðningsmönnum, breiða út stefnuna, sjá um fjáröflun og vinna að stefnumótun á öllum sviðum þjóðlífsins. Til forystu í stjórnmálaflokkum veljast aðilar sem búa yfir stjórnunarhæfileikum auk þess sem þeir verði að búa yfir sérþekkingu, menntun og skipulagshæfileikum. Reynslan sé auk þess dýrmæt sem skýri það hvers vegna forystumenn flokka sitji lengi við völd og undirmenn láti að stjórn.

Samheldni er annar lykilþáttur. Flokksmenn eru sammála vegna þess að það er þeim fyrir bestu, en ekki einungis vegna þess að forystan leyfir ekki annað. Atkvæði eru mælistika á velgengni. Þegar kemur að kosningum hafa kjósendur úr mörgu að velja og þurfa að greina á milli stjórnmálaflokka sem keppast um að sýna fram á yfirburði stefnu sinnar. Mikilvægt er fyrir stjórnmálaflokka að kjósendur skynji ekki óánægju um ýmis stefnumál því ef flokksmenn sjálfir hafa ekki trú á stefnunni, er nánast ómögulegt að sannfæra kjósendur, sem kjósa þá aðra flokka og frambjóðendur ná ekki kjöri. Það sama á við þegar kemur að samstöðu um ákvarðanir flokksmanna á Alþingi.

Nefna má Íraksmálið sem dæmi. Þingmenn eru langt frá því sammála um réttmæti ákvörðunarinnar en samt sem áður tjá einstakir þingmenn stjórnarflokka ekki um málið. Um leið og flokksmenn láta í ljós óánægju sína á opinberum vettvangi um einstök málefni er fjandinn laus. Fylgið hrynur og ýmsir þingmenn þurfa að huga að nýrri vinnu að kjörtímabili loknu.

Líkja má stjórnmálum við baráttu rándýrs og hjarðar. Ef hjörðin helst saman og enginn heltist úr lestinni, eru meiri möguleikar fyrir dýrin að komast lífs af. Heltist einn úr lestinni, ráðast rándýrin á hann og honum er slátrað.

Ítalski stjórnmálafræðingurinn Mosca komst svo að orði: “hundrað menn sem eru samtaka og hafa sameiginleg viðhorf munu hrósa sigri yfir þúsund mönnum sem ekki eru samstilltur og þar af leiðandi hægt að fást við einn af öðrum “

Ákveðin rök hníga að því að flokkar þurfi að starfa á þennan veg til að lýðræðið virki. Stjórnmálaflokkar móta stefnu fyrir kosningar og leggja fyrir kjósendur. Kjósendur taka síðan afstöðu til stefnunnar með atkvæði sínu og ætlast til þess að flokkurinn framfylgi henni á þingi. Ef einstaka þingmenn leyfa sér síðan að ganga endurtekið gegn stefnu flokksins er sá hin sami að koma í veg fyrir að kjósandinn fá fullt verð fyrir atkvæði sitt. Í stjórnarskránni eru tryggð réttindi þingmanna til að starfa samkvæmt sannfæringu sinni og er það að mínu áliti vel, hinsvegar þarf að finna meðalveg milli þessa til þess að tryggja rétt kjósenda.

Í stuttu máli má segja að rödd einstakra þingmanna heyrist ekki vegna þess að það er hagur þeirra að fylgja flokknum að málum, ætli þeir sér að ná kjöri á nýjan leik. Ungliðahreyfingar geta gargað, vegna þess að þeir eiga ekki á hættu að ná ekki endurkjöri. Forystunni má líkja við forstjóra fyrirtækja sem stjórna vegna reynslu sinnar og þekkingar. Hins vegar er ljóst að baráttan um forystusætin er það sem heldur stjórnmálamönnum á tánum því hæfileikar og velvild kjósenda í þeirra garð gæti komið þeim hærra í goggunarröðinni, aðeins ef þeir víkja ekki of langt frá stefnunni.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.