Breyttir bíla-tímar

Allir sem hafa sest upp í bíl frá Toyota vita að þar er hágæða bifreið á ferð. En hvað með fyrirtækið bakvið bílinn?

Frá árinu 2000 hefur framleiðsla bíla í heiminum aukist um þrjár milljónir og er nú rúmlega 60 milljón bílar á ári. Af þessari aukningu á bílaframleiðandinn Toyota ríflega helming. Markaðshlutdeild Toyota samanlagt í heiminum er því nú um 10%, en markmið stjórnarformannsins, Hiroshi Okuda, er að ná 15% af heimsmarkaðinum. Takist það nær Toyota forystunni af General Motors sem hefur verið stærsti bílaframleiðandi heims frá því á fyrri hluta síðustu aldar.

Toyota hefur náð ótrúlega langt á skömmum tíma og nú þegar er heildarframleiðsla fyrirtækisins meiri en Ford. Jafnframt er þess ekki langt að bíða að Toyota selji fleiri bíla en DaimlerChrysler í Bandaríkjunum og taki þar með sæti þess sem þriðji stærsti framleiðandi í heiminum. Hjá Toyota starfa nú um 264.000 manns út um allan heim og markaðsvirði félagsins er meira en GM, Ford og DaimlerChrysler samanlagt.

Hlutabréf í Toyota hafa skilað eigendum sínum ágætis ávöxtun undanfarið ár, rúm 18%, á sama tíma og bæði GM og Ford skiluðu neikvæðri ávöxtun. DaimlerChrysler er hins vegar réttu megin við núllið, þó ekki megi miklu muna. Toyota ber sömuleiðis höfuð og herðar yfir alla aðra bílaframleiðendur hvað tekjur varðar og voru þær rúmlega tvöfalt hærri en hjá næsta framleiðanda, Nissan, á síðasta ári. Í þessari miklu og erfiðu samkeppni á bílamarkaðnum hefur Toyota staðið sig mjög vel ár eftir ár.

Lykilinn að velgengni Toyota virðist fyrst og fremst vera að finna í gæðum bílanna sem fyrirtækið framleiðir og nánast takmarkalausri skuldbindingu þess til þess að bæta sífellt alla þætti framleiðsluferlisins. Raunar má segja að upphafið að þessu öllu saman hafi verið þegar Toyota kenndi nútímabílaiðnaði hvernig á að búa til bíla.

Hið svokallaða Toyota Production System (TPS) var þó lengi vel lítt þekkt eða þar til árið 1990 þegar bókin “The Machine that Changed the World” kom út. Þar var helstu þáttum framleiðsluferlis Toyota lýst, hvernig fyrirtækið einbeitir sér algjörlega að því að ná fram mestu mögulegum gæðum og leita alltaf leiða til þess að gera betur. Í dag kann þetta að hljóma nokkuð augljóst, en þetta var raunverulega framlag Toyota til bílaframleiðslu í heiminum.

Í kjölfar þess að allir aðrir framleiðendur tóku upp hætti Toyota hafa aðrar bílategundir vissulega batnað, en enginn virðist enn komast með tærnar þar sem þeir hafa hælana. Fyrirtækið er þess vegna á góðri leið með að taka yfir heiminn á þessu sviði og hver veit nema að eftir fimmtíu ár munum við öll aka um á Toyota.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)