Er dómsvaldið nægilega tryggt í stjórnarskránni?

Í stjórnarskránni eru hlutverk hinna þriggja greina ríkisvaldsins skilgreind. Í 28 greinum er fjallað um hlutverk löggjafarvaldsins og í sama fjölda greina er fjallað um framkvæmdarvaldið (forsetann). Dómsvaldið er hins vegar algjör eftirbátur með þrjár stuttar greinar til umráða.

Í stjórnarskránni eru hlutverk hinna þriggja greina ríkisvaldsins skilgreind. Í 28 greinum er fjallað um hlutverk löggjafarvaldsins og í sama fjölda greina er fjallað um framkvæmdarvaldið (forsetann). Dómsvaldið er hins vegar algjör eftirbátur með þrjár stuttar greinar til umráða.

Fjöldi þeirra greina sem fjalla um hvert vald í stjórnarskránni er að sjálfsögðu engin mælikvarði á það hvernig viðkomandi vald er skilgreint eða verndað. Engu að síður vekur það furðu hversu litlu púðri er varið í dómsvaldið. Sú staðreynd að æðsti dómstóll landsins, Hæstiréttur, er ekki nefndur einu orði í stjórnarskránni undirstrikar þetta enn frekar.(*)

Í íslenskri stjórnskipan er framkvæmdar- og löggjafarvaldið oft á tíðum svo samtvinnað að vart má á milli greina. Hlutverk dómsvaldsins sem eftirlitsaðila með framkvæmdar- og löggjafarvaldinu er því gríðarlega mikilvægt. Í stjórnarskránni er löggjafarvaldinu hins vegar fengin nánast full umráð yfir dómsvaldinu með orðunum „Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum“. Löggjafarvaldið getur nánast ráðið hvort þessir dómstólar séu yfirleitt til eða ekki og því er í öllu falli falið algjört sjálfvald um það hvernig Hæstiréttur og héraðsdómstólar eru skipaðir.

Löggjafarvaldið getur hæglega lamað Hæstarétt með því að fækka dómurum eða jafnvel, í samvinnu við framkvæmdarvaldið, ákveðið að fjölga dómurum og skipað einungis dómara sem eru hliðhollir ríkjandi öflum. Verður þetta að teljast heldur bágborin vernd fyrir eina af grunnstoðum lýðræðisins.

Stjórnarskráin kveður skýrt á um það hverjir geta orðið forseti og alþingismenn og fjölda þingmanna. Erfitt er að finna ástæðu þess að ekki er minnst á það hverjir geti farið með embætti dómara eða hversu margir dómarar skulu skipa Hæstarétt. Þetta er eitt skýrasta dæmið um að dómsvaldinu er ekki gert jafn hátt undir höfði í stjórnarskránni og öðrum greinum ríkisvaldsins, þó mikilvægi þess sé síst minna.

Í ljósi þess að nýskipaðri stjórnarskrárnefnd hefur meðal annars verið falið að endurskoða ákvæði þess kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um dómstóla er ekki úr vegi að ítarlega verði hugað að þessu misræmi. Það skyldi alla vega teljast lágmark að stjórnarskráin tryggði sjálfstæði og tilvist Hæstaréttar.

(*)Þess skal þó getið að stjórnarskráin gerir ráð fyrir tilvist Hæstaréttar á að minnsta kosti þremur stöðum. Sú umfjöllun er þó öll tilkomin vegna síðari tíma breytinga á stjórnarskránni og er í litlu samhengi við tilvist dómsvaldsins. Til dæmis er kveðið á um að forseti Alþingis, forseti Hæstaréttar og forsætisráðherra fari saman með forsetavald að forsetanum fjarstöddum.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.