Hver býður betur-lýðræði

Kosningaumræðan gefur af sér undarlegustu nýyrði og frambjóðendur keppast við að bjóða fólki betri aðkomu að ákvörðunum um hvernig skattpeningum er eytt. Yfirsést þeim kannski að þeir eigi ef til vill alls ekkert með þær ákvarðanir að hafa?

Þessa dagana er nýyrðasmíð lífleg sem aldrei fyrr. Sérstaklega þykir fínt að skeyta orðum framan við orðið lýðræði til að tjá hve lýðræðissinnar menn eru. Þannig eru það allra mestu lýðræðissinnarnir sem setja saman orð eins og „hverfalýðræði” og „íbúalýðræði”. Þessar tegundir lýðræðis eiga að tryggja frekari aðkomu lýðsins að ákvarðanatöku framkvæmda- og löggjafavalds. Þessi umræða hefur einkum kviknað nú í kring um sveitastjórnarkosningarnar og hefur oft á tíðum orðið nokkuð skondin.

Ég vil ekki vera dragbítur í þessari keppni, enda mikill lýðræðissinni í hjarta mínu. Þannig held ég að „heimilislýðræðið” gæti verið eitt fullkomnasta lýðræðisformið. Þannig yrði kosið um allar stærri ákvarðanir sem teknar eru á heimilum. Meðal kosta sem þetta hefði í för með sér væri til að mynda að skuldir heimilanna minnkuðu. Til að tryggja framgang lýðræðisins yrði að sjálfsögðu lýðræðisfulltrúi á hverju heimili. Hans verkefni yrði að ganga úr skugga um að virkt lýðræði ríkti á hverju heimili og að tilkynna yfirvöldum um öll frávik frá slíku. Slík frávik yrði síðan meðhöndluð af lýðræðislögreglunni.

Að öllu gríni slepptu vil ég þó ekki ganga svo langt að segja að allt þetta lýðræðistal sé hræsni. Aðeins að ég sé lýðræðið fyrir mér á annan hátt. Þetta stjórnarform er um margt gallað þótt það sé líklega það besta sem við höfum reynt. Meðal gallanna er það sem má kalla „hver býður betur-lýðræði”. Það snýst um að kjörnir fulltrúar kaupa atkvæði kjósenda. Lofa því að hið opinbera, hvort sem það er sveitarstjórn eða ríkisstjórn, lofar því að nota opinbera sjóði til verkefna sem koma ákveðnum hópum til góða.

Það eru ótal dæmi um þetta í öllum kjördæmum og sveitarfélögum. Eitt skýrt dæmi er þó göng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Það er furðulegt að slík verkefni séu tekin fram yfir t.d. tvöföldun Reykjanesbrautar, þótt þeir sem aki reglulega um hana séu líklega fleiri en íbúar þessara tveggja sveitarfélaga til saman.

Sumir sjá þó ekkert athugavert við þetta, opinbert fé sé til opinberra framkvæmda og kjósendur fái tækifæri til að greiða því framboði atkvæði sem ætlar að nota þetta fé best. Öðrum finnst þetta þó ekki alveg nógu gott kerfi og búa til lausnir eins og íbúalýðræði. Það á að gefa lýðnum færi á að kjósa um einstakar framkvæmdir og ráða því í hvað opinbert fé fer, með virkari hætti en í kosningum á fjögurra ára fresti.

Meðal galla við þessa lausn má nefna að hún er mjög kostnaðarsöm, þótt þeir allra hörðustu segi að lýðræðið sé aldrei of dýru verði keypt. Áróður og lýðskrum myndi blómstra við aðstæður þessa meinta íbúalýðræðis þar sem fólk hefur hvortki tækifæri né aðstöðu til að kynna sér hin ýmsu mál með fullnægjandi hætti. Þannig myndi hvert einasta mál verða eins og kosningarnar um flugvöllinn í Vatnsmýrinni.

Lausnin felst því ekki endilega í að fólk fái að kjósa um hvað kjörnir fulltrúar gera við féð sem það greiðir í skatta. Hún felst miklu fremur í því að fólk greiði fyrir þá þjónustu sem það nýtir sér, það vita allir á hvaða þjónustu þeir þurfa að halda. Opinbert fé kemur hvort sem er frá okkur skattgreiðendum. Ef þessir miklu lýðræðissinar eru svona áfram um að treysta okkur almúganum fyrir ákvörðunum, af hverju ekki að treysta okkur fyrir að geyma peningana okkar sjálf?

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)