Besta kvöld ársins

Þá er enn eitt árið á enda. Annað kvöld kveðjum við árið 2004 og tökum á móti árinu 2005 með pompi og prakt. Gamlárskvöld er sér stúdía út af fyrir sig og hjá mörgum skal það vera kvöld kvöldanna.

Þá er enn eitt árið á enda. Annað kvöld kveðjum við árið 2004 og tökum á móti árinu 2005 með pompi og prakt. Sinn er siður í hverju landi og á meðan Ítalir klæðast nýjum rauðum nærbuxum og Spánverjar bryðja tólf vínber á miðnætti setja Íslendingar heimsmet í flugeldasprengingum. Þótt úti sé stórhríð eru milljónir króna sprengdar í loft upp. Í fréttum í gær hljómuðu tölur á borð við 400 milljónir króna sem áætlað er að landinn komi til með að eyða í flugelda þetta árið. Flugeldageðveiki Íslendinga hefur þó sinn sjarma og er gaman að ferðamenn séu farnir að flykkjast til landsins til þess að bera herlegheitin augum. Allur er varinn þó góður, enda er undirrituð sérlega varkár í garð flugelda eftir að einn slíkur féll niður af himni og kveikti í hári hennar fyrir fáeinum árum.

Hjá mörgum skal gamlárskvöld vera kvöld kvöldanna. Nýtt ár. Nýjir draumar. Nýjar vonir. Ný áramótaheit. Nýtt upphaf.

Og það þarf auðvitað að hefja á skemmtun skemmtananna, þar sem sorgum seinasta árs er drekkt með vonum þess næsta. Umræðuefni vina dagana fyrir snúast um lítið annað en hvað skuli gera og hvert skuli halda, eftir að enn eitt ,,brillíant” áramótaskaupið í revíustíl hefur verið frumflutt og aðalsprengjuregnið er gengið yfir.

En vonir hins nýja árs bresta skjótt.

Þetta kvöld einkennist í minningu margra af alltof miklum troðningi inni á þeim stöðum sem opnir eru, að ógleymdri óendanlegri leigubílaröð í kulda og snjókomu. Svo ekki sé minnst á þá hættu sem af því stafar að misgáfuðum mönnum með eldfæri og flugelda í höndunum.

Þeir eru því ófáir sem halda sig heima í kyrrðinni eða í gleðskap í heimahúsi eftir röð misheppnaðara gamlárskvölda.

En hvað sem öllum væntingum og vonbrigðum líður þá er eitthvað sérstakt sem fylgir áramótum.

Gleðilegt nýtt ár.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)