Litla Bretland

sdfdFjölmargir aðdáendur sjónvarpsþáttanna The Office bíða í ofvæni eftir að íslenskar sjónvarpsstöðvar taki til sýninga gamanþættina Little Britain, sem að sögn Ricky Gervais slá út allt það grínefni sem hann hefir samið.

Litla Bretland er skemmtilegur þáttur sem markar vatnaskil í ómálefnalegri grínþáttagerð.

Það er grunnt á því góða í þáttaröðinni Litla Bretland sem teknir verða til sýninga í Ríkissjónvarpinu á nýju ári. Þáttaröðin er byggð upp í kringum stuttar glósur sem lesendur þekkja af góðu og illu úr hinum ýmsu þáttaröðum, m.a. Svínasúpunni og Spaugstofunni, þótt flestir þurfi að leggja sig í líma til að kreista fram bros undir síðarnefndu þáttaröðinni. Án þess að of mikið sé gefið upp eru persónur og leikarar óborganlegir og fanga hið breska þjóðareðli svo fullkomlega að mörgum þykir nóg um. Þannig er Doug meðferðarfulltrúi sem miðlar sjúklingum af reynslu sinni úr eiturlyfjaheiminum — en hængurinn er sá að Doug hefur aldrei verið innan um sterkari efni en finna má í yfirstrikunarpenna.

sdfdHin akfeita Bubbles eyðir öllum sínum stundum í heilsulind á kostnað eiginmanns síns sem neyðist grunsamlega oft til að fara úr landi í viðskiptaerindum. Í hvert skipti sem starfsmenn heilsulindarinnar færa það í mál við Bubbles að tími sé til að hún standi í reikningsskilum við heilsulindina byrjar hún að ræða um framandi og nýstárlegar aðferðir sem hún gæti notað til að afla fjár til greiðslu skuldarinnar.

sdfdLou og Andy eru einkennileg heild. Þannig er Lou eins konar aðstoðarmaður Andy, en hinn síðarnefndi er bundinn í hjólastól, talar aðeins í eins atkvæða orðum og er almennt frekar viðskotaillur. Andy er hins vegar ekki allur þar sem hann er séður. Þegar sá gállinn er á honum er hann fullfær um að halda uppi samræðum, getur gengið, klifrað og jafnvel kafað — en Lou leiðir þetta algerlega fram hjá sér!

sdfdKlæðskiptingurinn Emily Howard rekur síðan gistiheimili við sjávarsíðuna og hefir mátt muna fífil sinn fegurri. Hann tekur vel á móti gestum sínum, sem verða að læðast á tám í kringum hann/hana til forðast óútreiknanleg bræðisköst hennar sem eiga það til að draga fram það karlmannlega í fari hennar.

sdfdAð endingu ber svo að nefna Majorie Dawes sem er andlegur leiðtogi „Fat-fighters“-megrunarkúrsins. Sem sannkölluð mannvitsbrekka gefur hún akfeitu fólki gagnleg ráð í baráttunni við aukakílóin eins og: „Ryk er fitulaust — þannig að þið getið hámað í ykkur rykagnir!“ Hún hvetur offitusjúklinga óspart til að afklæðast og glápa á sjálfa sig í speglinum til þess eins að þeir kúgist og fyllist sjálfsfyrirlitningu.

Eins og lesendur Deiglunnar sjá er af mörgu að taka í þessari æsispennandi þáttaröð, en fregnir herma að Ríkissjónvarpið hafi þegar tryggt sér sýningarrétt á dýrðinni. Þótt þættirnir séu góðir eru þeir örugglega ekki allra enda er pólitísk ranghugsun aðall þáttanna og höfundar þeirra eira engu.

Sem sagt, afbragðs uppskrift að góðu glensi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)