Morgunblaðið og Pútín

Á Þorláksmessudag birtist leiðari í Morgunblaðinu um mál rússneska auðjöfursins Míkhaíl Khodorkovskí. Morgunblaðið undrast þá gagnrýni sem Pútín hefur fengið vegna málsins og telur að handtaka hans hafi verið þáttur í því að „koma á lögum og reglum í Rússlandi.“

Flest dagblöð á Vesturlöndum hafa gagnrýnt Pútín harkalega fyrir meðferðina á Khodorkovskí, sem var handtekinn í október á síðasta ári og hefur síðan þá þurft að dúsa í fangelsi þangað til réttarhöld yfir honum hefjast. Morgunblaðið er ekki á meðal þessara dagblaða. Öðru nær. Leiðarahöfundur þess furðar sig á þeim viðbrögðum sem mál Khodorkovskís hefur valdið og spyr hvort „verið [sé] að halda því fram, að rússnesk stjórnvöld megi ekki taka á skattsvikum heima fyrir? Er verið að halda því fram, að erlendir fjárfestar fáist ekki til að fjárfesta í rússnesku atvinnulífi nema tryggt sé að þeir geti stundað þar skattsvik að vild?“ Stutta og einfalda svarið við báðum þessum spurningum væri nei. Mál Khodorkovskís er hins vegar mun flóknara en svo að hægt sé að stilla þessu upp á þennan hátt. Það þarf að skoða málið í stærra samhengi við aðra atburði í stjórnartíð Pútíns. Sjálf skattsvikin, sem Khodorkovskí er sakaður um, voru aldrei raunverulegu ástæður handtökunnar.

Enginn hefur haldið því fram að Khodorkovskí sé dýrlingur. Ekki fremur en aðrir svokallaðir „ólígarkar“ í Rússlandi, sem fengu helstu eignir rússneska ríkisins nánast gefins í óréttlátri einkavæðingu fyrir um tíu árum síðan. En ef það er erfitt að verja Khodorkovskí og „ólígarkana,“ þá er enn erfiðara að halda vörnum fyrir þeirri aðferð sem Pútín hefur beitt til að leiðrétta það óréttlæti sem kom þeim í þá stöðu sem þeir eru í dag – aðferðin er sú versta sem hægt var að hugsa sér. Í stað þess að auka tiltrú erlendra aðila á að Rússland sé réttarríki hefur Pútín þvert á móti grafið undan því með þessum aðgerðum. Almennar leikreglur í atvinnulífinu eru óskýrari en áður og mörg fyrirtæki hafa keppst við að framkvæma margvíslegar hugmyndir, eingöngu vegna þess að þau halda að þær séu Pútín þóknanlegar.

Það sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist vilja gera, er að fjalla um mál Khodorkovskí algerlega eitt út af fyrir sig. Khodorkovskí hafi brotið lög með því að svíkja undan skatti og því er ekkert athugavert við það að Pútín geri ráðstafanir til að stöðva það, að mati Morgunblaðsins. En með því að horfa á þetta út frá þessu eina sjónarhorni, er aðeins hálf sagan sögð – og varla það. Það sem mál Khodorkovskís endurspeglar er angi af stærra máli, sem er allsherjaráætlun Pútíns um að ná öllum völdum í Rússlandi. Og Khodorkovskí var hindrun í átt að því – þess vegna þurfti hann að fara.

Þetta er að takast, að mati Michael McFaul, Nikolai Petrov og Andrei Ryabov sem eru sérfræðingar um málefni Rússlands og höfundar að bókinni Between Dictatorship and Democracy: Russian Post-Communist Political Reform sem kom út á þessu ári. Niðurstaða þeirra er sú, að á þeim fjórum árum sem Pútín hefur verið við völd, hafi hann á kerfisbundin hátt náð að veikja hinar lýðræðislegu stofnanir í landinu – sem hafi nú ekki verið beint burðugar fyrir. Þetta hefur hann gert með því að „veikja eða eyða öllu því sem gæti hindrað vald hans, og á sama tíma styrkt getu ríkisvaldsins til að brjóta á stjórnarskrábundnum réttindum borgaranna.“

Áætlun Pútíns hófst í Téténíu. Í augum Pútíns er það stríð prófsteinn á mátt Rússlands sem stórveldis. Allt það stríð hefur sýnt hversu litla virðingu Pútín ber fyrir mannréttindum. Næst var það sjónvarpið. Til þess að ná tökum á því þurfti hann að koma einum nánasta samstarfsmanni sínum frá völdum, Boris Berezovsky, sem stjórnaði einni stærstu einkareknu sjónvarpsstöðinni og hafði stofnað flokk Pútíns; United Russia. Hann er nú í útlegð í Bretlandi. Nú er svo komið að Pútín ræður yfir öllum þremur sjónvarpsstöðvunum sem einhverju máli skipta. Eftir sjónvarpið var svo komið að héraðshöfðingjunum. Meðal annars bjó Pútín til sérstök embætti sem höfðu yfirvald yfir framkvæmdavaldinu í héruðunum og skipaði sína menn í þessi embætti. Þannig fékk hann heilmikil áhrif á það hverjir sitja í kjörstjórnum og þar með hverjir fái að bjóða sig fram. Í fjórða lagi voru það þeir „ólígarkar“ sem storkuðu stjórnvöldum í Kreml. Árið 2000 benti ekkert til þess að Pútín myndi hafa einhver afskipti af Khodorkovskí, en um leið og hann fór að sýna einhver merki um að hann hefði aðrar skoðanir en Pútín og hyggði jafnvel á forsetaframboð eftir að kjörtímabili Pútíns lyki, þurfti að grípa til einhverra aðgerða – Khodorkovskí var því handtekinn.

Það er mikilvægt að horfa til allra þessarra aðgerða í heild sinni, til að átta sig á hvað Pútín er að gera. Allt snýst þetta um að veikja þá aðila sem eru ógn við Pútín. Og þannig á einnig að horfa á aðgerðir hans gagnvart Khodorkovskí, en ekki hvort hann hafi gerst sekur um skattsvik. Það er rangt hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins að halda því fram að mál Khodorkovskís hafi eitthvað með það að gera að Pútín sé að „koma á lögum og reglum í Rússlandi.“ Heldur sýnir það okkur fremur, að skref fyrir skref, hefur Pútín náð öllum valdaþáttunum í sínar hendur. Og það, að aðeins Pútín taki ákvörðun um það hvernig stjórnarfar Rússland muni hafa, boðar ekki gott fyrir framtíð lýðræðis í landinu.