11/12

Yfir ævina kynnast flestir fjölda fólks sem ýmist verða vinir eða kunningjar eða óvinir og andstæðingar. Sum vinátta er tímabundin en til eru þeir sem verða vinir allt til endalokanna.

Með árunum fjölgar þeim samferðamönnum okkar sem við höfum átt að kunningjum, vinum eða tengjumst fjölskylduböndum. Þetta fólk er þó ekki allt með okkur í dag. Vinátta og tengsl milli manna er margbreytileg og margt af því fólki sem við höfum kynnst náið hefur eftir einhvern tíma farið í aðra átt í lífinu og horfið úr augsýn. Það er því oft hægt að flokka samferðarmenn okkar eftir tímabilum.

Eru þessi tímabil margvísleg og geta byggst á sameiginlegum verkefnum, búsetu, hjúskaparstöðu, atvinnu eða annarri stöðu í lífinu. Tengslin rofna síðan eða minnka þegar tilteknu tímabili lýkur. Hins vegar þá þarf slíkum tímabilum ekki endilega að ljúka vegna ósættis, svika eða einhvers sem kemur upp heldur getur því einnig lokið vegna þess að því sem tengdi okkur við viðkomandi aðila lýkur einfaldlega. Þannig hafa misgóðir makar, vinir, kunningjar, vinnu- og/eða djammfélagar komið og farið í gegnum árin.

En það eru mikilvægar undantekningar frá þessu. Það eru þeir einstaklingarnir í lífi okkar sem tilheyra ekki ákveðnum tímabilum heldur eru eins og rauður þráður í gegnum alla okkar tilveru. Við höfum tengst slíkum einstaklingum það sterkum böndum að ytri aðstæður hafa ekki áhrif á sambandið og það er þannig hafið yfir erfiðleika, búsetu og stöðu í þjóðfélaginu. Viðkomandi einstaklingar eru á ákveðinn hátt orðnir hluti af manni sjálfum. Við getum verið aðskilin frá þessum vinum okkar í langan tíma en síðan tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið eins og ekkert hafi í skorist. Það gefur auga leið, að á endastöðinni, þegar við munum líta yfir sviðið, á allt það sem við höfum áorkað, þá munu þessir einstaklingar standa upp úr sem okkar traustustu vinir og bandamenn.

Það er ljóst að í hringiðu líðandi stundar getur verði erfitt að greina á milli þeirra samferðarmanna okkar sem eru tímabundir vinir og þeirra sem munu fylgja okkur það sem eftir er. Enda afar auðvelt og þægilegt að álykta sem svo að viðhlæjendur dagsins í dag verði með manni alla tíð. Það er hins vegar tálsýn og tíminn einn leiðir í ljós hverjir detta úr lestinni.

Við ættum hins vegar að koma auga á og meta að verðleikum þá sem hafa þegar verið með okkur í gegnum fjölmörg tímabil og eru orðnir hluti af okkur sjálfum. Manni hættir oft til að gleyma því sem maður hefur átt lengi, jafnvel þótt það sé dýrmætt. Það er mikilvægt að við látum ekki viðhlæjendum líðandi stundar draga alla athygli okkar frá þeim fáu góðu vinum sem við eigum.

Þegar upp er staðið eru þeir líklega það dýrmætasta sem við nokkurn tímann eignumst.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.