Verður það D’Angleterre næst?

Í síðasta mánuði var tilkynnt um kaup á Íslendinga á 83% hlut í verslunarkeðjunni Magasin du Nord fyrir um 4,8 milljarða. Mikið hefur verið skrifað um kaupin í íslenskum og dönskum fjölmiðlum. Minna hefur hins vegar verið fjallað um fjárhagslega stöðu verslunarkeðjunnar

Í síðasta mánuði var tilkynnt um kaup Íslendinga á 83% hlut í verslunarkeðjunni Magasin du Nord fyrir um 4,8 milljarða. Mikið hefur verið skrifað um kaupin í íslenskum og dönskum fjölmiðlum og eru sumir hinna dönsku neikvæðir og telja Íslendinga vera komna fram úr sjálfum sér. Einnig virðist hinum almenna Dana þykja þetta nokkuð merkilegar fréttir en undirrituð var spurð af dönskum götukaupmanni, hvort að Hotel D’Angleterre yrði keypti næst af Íslendingum. D’Angleterre er eitt glæsilegasta hótel Kaupmannahafnar. Minna hefur hins vegar verið fjallað um fjárhagslega stöðu verslunarkeðjunnar.

Fyrirtækið tapaði á síðasta fjárhagsári sem endaði í lok febrúar um 217 milljónum danskra króna fyrir skatta sem er þó ekkert miðað við árið áður þegar fyrirtækið tapaði 432 milljónum danskra króna. Á fyrri árshelmingi fjárhagsársins 2004/5 tapaði fyrirtækið um 99 milljónum danskra króna. Daglegur taprekstur nam því um 6 milljónum íslenskra króna á fyrri árshelmingi og ljóst er að verulega þarf að hagræða í rekstri.

Fyrir venjulegan neytenda er hægt að sjá fjölmörg augljós dæmi um hvernig bæta má reksturinn á tiltölulega einfaldan hátt. Til að mynda virðist lítið skipulag til staðar í fatadeildum verslunarinnar og getur maður rétt eins búist við að finna flíkur á tugaþúsunda verðbili á sömu fataslá auk þess sem allt of mikið er af vörum á hverjum verslunarfermetra. Það er ekki vænlegt ef neytendum finnst úrvalið yfirþyrmandi áður en þeir byrja að skoða vöruna. Auk þess má nefna að kaffistofan á efstu hæð er frekar subbuleg og furðulegt að á einni stærstu verslunarhelgi ársins, fyrstu helginni í aðventu sé nánast allur matur uppseldur upp úr klukkan þrjú og ekkert gert í því að laga meira. Þá skýtur það skökku við að lögð sé það mikil áhersla á gjafapökkun að 15 manna biðröð myndist við afgreiðslukassa, í það minnsta er slík biðröð ekki fyrir dæmigerðan Íslending að bíða í þótt að Danirnir hafi virst sallarólegir í henni. Undirrituð tók til gamans tímann á því hvað innpökkun á 6 kampavínsglösum tók tvær afgreiðslukonur en glösin virtust í ódýrari kantinum og tók innpökkun um 12 mínútur fyrir tvær manneskjur.

Þeim sem náð hafa að lesa í gegnum línurnar hér að ofan gætu fundist athugasemdir undirritaðrar smásmugulegar en raunin er sú að það er talsvert til í þeim orðum sem höfð eru um smásölu, það er að “retail is detail” (smávörusala snýst um smáatriði). Það þarf að huga að hverju litlu smáatriði í skipulagningu á smávöruverslunum til að reksturinn gangi upp. Stjórnendur Baugs hafa sýnt það undanfarin misseri að í smávöruverslun eru þeir sérfræðingar og auk þess er ekki ólíklegt að hægt sé að ná fram stærðarhagkvæmni með samþættingu rekstrar við önnur vörumerki í eigu Baugs. Undirrituð hefur því miklar væntingar til breytinga sem láta hið stórglæsilega verslunarhús að utan, verða jafnt glæsilegt að innan aftur.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.