Helvíti skapandi prófúrlausnir

sdfdÍ miðri jólaprófatörn er snjallráð að staldra við og dreifa huganum með því að setja sig í heimspekilegar stellingar.

Í helvíti er hlýtt að vera — eða hvað?

Að venju eru próf á öllum menntastigum byggð upp í kringum námsefni vetrar. Þrátt fyrir að slík uppbygging hljóti að teljast æskileg er hún síður en svo nauðsynleg. Þannig er það kostur fyrir hugmyndaríka nemendur að þreyta próf sem reyna á ímyndunarafl og rökhugsun frekar en drepleiðinlegan utanbókarlærdóm. Best er sjálfsagt ef kennurum tekst að flétta þessar tvær nálganir saman; láta nemendur hugsa klókar lausnir á vandamálum með þeim aðferðum sem kenndar voru á önninni. Þannig er það fyrir löngu orðið víðfrægt þegar heimspekikennari lagði eftirfarandi spurningu fyrir nemendur sína:

Er þetta spurning?

Og svarið var einfalt: „Ef þetta er spurning — þá er þetta svar!“

Margir útsjónasamir nemendur hafa einhvern tíma reynt að fá prófi frestað vegna ónógs undirbúnings og fundið tylliástæðu fyrir frestun. Þannig hringdu fjórir nemendur sem voru fjarverandi í prófi í kennara sinn og sögðu að það hefði sprungið hjólbarði á bílnum þeirra. Sökum þessa fóru þeir þess á leit við kennarann að þeir fengju að þreyta prófið daginn eftir. Kennarinn féllst á ráðahaginn með semingi en þegar nemendurnir mættu til prófs daginn eftir beið þeirra ein spurning með 100% vægi:

Hvaða hjólbarði sprakk?

Önnur prófspurning sem minna hefur farið fyrir var lögð fyrir nemendur í Washington-háskóla og snérist um það hvort helvíti gæfi frá sér hita eða ekki. Meginþorri nemendanna byggði svar sitt á lögmáli Boyle, sem segir að lofttegundur kólni þegar þær þenjast út og hitni þegar þeim er þjappað saman. Einn nemandinn hitti hins vegar svo sannarlega naglann á höfuðið í lausn sinni, sem hljómar einhvern veginn svona í lauslegri þýðingu:

„Áður en lengra er haldið þurfum við að henda reiður á hvort þyngd helvítis breytist með tíma. Til þess þurfum við að áætla hversu margar sálir fara til helvítis og hversu margar sálir sleppa þaðan. Til einföldunar, gefum við okkur að hægt sé að slá því föstu, að sál sem fari til helvítis komist ekki þaðan á nýjan leik.

Hvað áhrærir hversu margar sálir fara til helvítis þurfum við að velta fyrir okkur kenningum allra trúarbragða í heimi. Flestar þeirra gera ráð fyrir að þeir sem ekki eru í ákveðnum trúarsamtökum fari til helvítis. Þar sem það eru fleiri en eitt trúfélag í heiminum og þar sem enginn tilheyrir tveimur trúfélögum getum við gagnályktað að allar sálir endi í helvíti.

Sé tekið tillit til aukinnar fæðingartíðni getum við slegið því föstu að fjöldi sála í helvíti vaxi eftir vísisfalli. Því þurfum við að vita hvernig rúmmál helvítis þróast, þar sem lögmál Boyle gerir ráð fyrir að rúmmál verði að vaxa í hlutfalli við massaaukningu, ef að hitastig og þrýstingur eiga að haldast óbreytt.

Þetta gefur okkur tvo möguleika:

Annars vegar, ef rúmmál helvítis eykst hlutfallslega hægar en massaaukning þá munu hitastig og þrýstingur í helvíti vaxa jöfnum skrefum þar til allt fer til helvítis.

Hins vegar, ef rúmmál helvítis eykst hlutfallslega hraðar en massaaukning, þá munu hitastig og þrýstingur lækka þar til frýs yfir í helvíti.

Hvor möguleikinn er þá líklegri? Ef við tökum undir orð bekkjarsystur minnar sem sagði eitt sinn við mig: „Fyrr frýs í helvíti en að ég sofi hjá þér!“ — þá er öruggt að það er stinningskaldi og sunnan tíu í helvíti þar sem ég sængaði einmitt hjá henni í gærkvöld!

Af þessari nálgun getum við dregið þá ályktun að ekki sé lengur tekið við sálum í helvíti — þar sé allt lokað og frosið yfir. Í orðanna hljóðan liggur því að himnaríki stendur eitt eftir, sem sannar að til er guðleg vera.

En það skýrir einmitt hvers vegna bekkjarsystir mín og rekkjunautur æpti í sífellu í gærkvöld: „Ó, guð — ó, guð minn góður!““

Nemandinn fékk hæstu einkunn fyrir svarið.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)