Sambærileg menntun

Í umræðum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru þau rök gjarnan höfð uppi að fólk með sambærilega menntun eigi skilið að fá sambærileg laun. Þetta eru rök sem flestum virðist finnast góð og gild. Afleiðingarnar af þessari röksemdarfærslu eru hins vegar nokkuð sem nauðsynlegt er að staldra við.

Á síðsustu áratugum hefur það í síauknum mæli orðið krafa stétta, sérstaklega þeirra sem starfa hjá hinu opinbera, að skapa inngönguhindranir í formi lögverndunar starfsheita og aukinnar kröfu um formlega menntun. Þannig heyrast nú raddir um að auka eigi menntun kennara þannig að það þurfi fimm ára háskólapróf og meistaragráðu til að útskrifast úr Kennaraháskóla Íslands. Starfsmenn á leikskólum ganga einnig í sérstakan skóla sem hefur öðlast viðurkenningu sem háskóli.

Við þessa háskólavæðingu verður stéttum sífellt auðveldara að sækja sér kjarabætur með að vísa til áðurnefndrar röksemdarfærslu. Háskólakennarar eru háskólamenntaðir. Framhaldsskólakennarar eru líka háskólamenntaðir og hafa því sambærilega menntun á við háskólakennara, grunnskólakennarar hafa svo í ofanálag sambærilega menntun á við framhaldsskólakennara og það er óhætt að veðja upp á að leikskólakennarar telji sig hafa sambærilega menntun á við grunnskólakennara. Það er því augljóst mál að leikskólakennarar hafa sambærilega menntun á við háskólakennara og þvi er borðleggjandi að í samningum við leikskólakennara þarf að taka mið af launaþróun háskólakennara.

Staðreyndin er sú að þegar launakjör eru ekki ákvörðuð á grundvelli framboðs og eftirspurnar verður ætíð miklum vandamálum háð að meta hver hin „réttu“ laun séu. Við slíkar aðstæður fara ýmsir þættir skyndilega að vega mikið i umræðu um launakjörin og alls er óvíst að þeir þættir skipti verulega miklu máli varðandi gæði þeirrar þjónustu sem starfsmönnunum er ætlað að veita.

Lögverndun starsfheita er leið til að flýja samkeppni á grundvelli hæfileika og atorku einstaklinganna. Á sumum sviðum samfelagsins kunna að vera ágæt rök fyrir einhvers konar lögverndun starfsheita eða rekstrarleyfum. Þetta þarf þó ekki að þýða að sama sé hægt að segja um allt annað. Það er til að mynda hæpið að hægt sé að koma í veg fyrir lélega kennslu í skólum með því að tryggja að allir kennarar hafi komist í gegnum Kennaraháskóla Íslands. Besta vörnin gegn lélegri kennslu er vitaskuld að stjórnendur hafi næg færi til þess að skipta út starfsfólki og að starfsfólkið sjálft hafi möguleika á því að mæla eigin getu og bæta hana.

Sífelld krafa um aukna skólamenntun gerir auk þess lítið úr mikilvægasta þætti menntunar allra starfstétta – en það er menntunin sem felst í reynslunni og þess sem kollegar læra smám saman hver af öðrum. Stærstur hluti menntunar fer því ekki fram í skólum heldur á vinnustöðum og í lífinu almennt. Það er því ekki prófgráða sem sker úr um hvort kennari verður góður kennari, prestur verður góður prestur og svo framvegis.

Sú mikla trú á formlegri skólamenntun sem nánast eru trúarbrögð gera því óþarflega lítið úr þeim þáttum sem mestu skipta um hæfni og þroska manna til að gegna störfum sínum. Enn verra er þegar krafan um aukna sérfræðimenntun er í raun ekkert annað en tæki til þess að treysta málflutning viðkomandi stéttar í kjarabráttu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.