Storkum náttúrulögmálunum

Oft er sagt að það séu gömul sannindi og ný að ríkisvaldið hafi tilhneigingu til að þenjast út og þeirri útþenslu er einna helst líkt við náttúrulögmál.

Oft er sagt að það séu gömul sannindi og ný að ríkisvaldið hafi tilhneigingu til að þenjast út og þeirri útþenslu er einna helst líkt við náttúrulögmál. Á ríkisstjórnarfundi hinn 3. apríl síðastliðinn kynnti Davíð Oddsson forsætisráðherra vinnuáætlun verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið. Einn af þremur meginþáttum vinnuáætlunarinnar var að kanna hvernig greiða mætti fyrir rafrænni stjórnsýslu. Sagði formaður verkefnisstjórnarinnar við það tækifæri að eina leiðin til að hafa heimil á úþenslu ríkisbáknsins væri eins sjálfvirk þjónusta hins opinbera og kostur væri. Ekki verður dregið í efa ágæti þeirra hugmynda sem verkefnisstjórnin leggur til og eru þær eflaust mjög til bóta.

Það er hins vegar hryggilegt að kenningin um útþenslu ríkisbáknsins skuli hafa náð þeirri haldgóðu fótfestu í huga fólks að hún sé ekki einasta náttúrulögmál, heldur jafnvel eitthvað guðlegt og ósnertanlegt. Útþensla ríkisbáknsins er ekki af náttúrunnar völdum heldur mannanna verk. Þeir sem hér á síðum Deiglunnar hafa verið nefndir samfélagskipuleggjendur eiga stærstan þátt í þeirri útþenslu – eins vel meinandi og þeir menn geta verið. Ríkisvaldið þenst þess vegna út vegna forsjárhyggu – bona fide eða mala fide – en ekki vegna afstöðu himintunglanna.

Ekki er langt síðan mörgum þótti sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera stæði í rekstri fyrirtækja á borð við Skipaútgerð ríkisins og Pípugerðar Reykjavíkur. Nú dettur fæstum í hug að halda því fram að slík umsvif eigi að vera á könnu ríkisins. En umsvif ríks og sveitarfélaga eru hins vegar engu minni en þau voru í þessa tíð, heldur hafa þau aukið jafnt og þétt. Af hverju? Líklega vegna hinnar almennu og „kærleiksríku“ kröfu um sífellt hærra þjónustustig hins opinbera, einkum sveitarfélaga. Þessi krafa á sér fjölmarga og hávaðasama fylgismenn en formælendur hennar eru í dag litnir sömu augum og þeir sem gagnrýndu samkeppnisrekstur hins opinbera á sínum tíma.

Það er gott og jákvætt að ríkisvaldið leiti leiða á borð við rafræna stjórnsýslu til að hamla gegn útþenslu báknsins. Það væri þó kannski ekkert síður hyggilega að herða kranann eilítið meir, í stað þess að þurfa sífellt að finna stærri ílát undir lekann.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.