Kínversk fjöldamorð og bandarískar aftökur

Í umræðum um komu Li Peng til landsins hefur Arnþór Helgason, formaður Kínversk íslenska menningarfélagsins, margsinnis bent á að Li sé ekki vinsælasti kínverski stjórnmálamaðurinn á Vesturlöndum.

Í umræðum um komu Li Peng til landsins hefur Arnþór Helgason, formaður Kínversk íslenska menningarfélagsins, margsinnis bent á að Li sé ekki vinsælasti kínverski stjórnmálamaðurinn á Vesturlöndum. Annað hvort er hér um að ræða klassískan íslenskan úrdráttarhúmor eða stórkostlegan misskilning á því hvernig vestræn samfélög skilgreina hugtakið stjórnmálamaður og verksvið hins opinbera. Arnþór lýsti því einnig yfir að fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar hafi heldur ekki verið til fyrirmyndar eða eftirbreytni – en benti þó á að þetta hafi eiginlega fyrst og fremst verið fjölmiðlasirkús fabrikeraður af bandarísku leyniþjónustunni og magnaður upp af vestrænum fjölmiðlum.

Björgvin Guðmundsson, formaður Heimdallar, benti réttilega á í sjónvarpsviðtali, að það væri eins gott að þetta hafi orðið að fjölmiðlamáli – því víst er að þau líf sem hurfu í júní 1989 eru ekki nema dropi í það blóðhaf sem á upptök sín í ógeðfelldri og hamslausri vanvirðingu kínverskra valdhafa fyrir lífi einstaklingsins. Fyrir hvern einasta mann sem var drepinn þann 4. júní 1989 liggja eflaust hundruð, ef ekki þúsundir, saklausra þegna óbætt í valnum. Arnþór og fleiri hafa gagnrýnt þá sem mótmæla komu Li Peng til landsins og segja tvískinnungshátt búa að baki mótmælunum. Þeir halda því fram að nú sé bara enn einu sinni verið að hnýta í blessaðan kommúnismann, sem engum stendur ógn af lengur – af því hann er víðast fallinn. En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Kínverjum stendur nefnilega sífelld ógn af kommúnismanum – og þeir sem bera virðingu fyrir lífi fólks og berjast fyrir því að heimurinn taki á sig fegurri mynd frelsis og umburðarlyndis, geta ekki horft framhjá því að blásaklausu fólki sé slátrað – sama hvar það er í heiminum.

Málið er einfaldlega að fjöldamorð hins opinbera viðgangast hvergi nema þar sem lýðræðisþráin er kæfð með ofbeldi og lygum. Í Kastljósinu á fimmtudag spurði Arnþór meðal annars að því hvort Heimdallur hyggðist mótmæla því ef til stæði að George W. Bush, forsetaframbjóðandi, kæmi í heimsókn til landsins. Hann væri jú sekur um fjöldamorð líka þar sem hundruð glæpamanna hafa verið tekin af lífi á valdatíð hans sem fylkisstjóra í Texas. Þessi samlíking er auðvitað alveg út í hött. Í Bandaríkjunum ríkir lýðræði. Það þýðir meðal annars að framkvæmdavaldið (í þessu tilviki G.W. Bush) getur ekki fylgt lögum valkvætt eða sett ný lög eftir hentugleik. Þeir sem dæmdir hafa verið til dauða í Bandaríkjunum hafa verið dæmdir eftir leikreglum lýðræðisins og framkvæmdavaldinu er skylt að framfylgja úrskurðum dómsvaldsins. Vissulega eru dauðarefsingar ógeðfelldar og ótrúlegt að þær skuli tíðkast hjá siðmenntuðum þjóðum. En þær eru engu að síður staðreynd – og e.t.v. væri nær fyrir Arnþór að spyrja Björgvin Guðmundsson að því næst þegar þeir hittast hvort hann hyggist mótmæla því ef héraðsdómarar í Texas, sem dæmt hafa menn til dauða, koma í heimsókn til landsins – eða jafnvel kviðdómendur.

Ákvörðunin um að framkvæma gildandi lög er gjörólík þeirri ákvörðun að beita opinberu valdi af geðþótta. Og ákvörðunin um að náða ekki dæmdan afbrotamann er mjög ólík þeirri ákvörðun að króa þúsundir námsmanna inni með hervaldi og skjóta þá miskunnarlaust í spað. Það er ábyrðgarlaust og viðurstyggilegt að halda því fram að nokkuð geti réttlætt fjöldamorðið á Torgi hins himneska friðar og fáránlegt að gefa í skyn, eins og Arnór gerði, að andúð Vesturlandabúa á atburðinum helgist fyrst og fremst af takmörkuðum skilningi þeirra á sögu og menningu Kínverja. Líklegt er að mæðrum fórnarlambanna væri lítil huggun af slíkum rökstuðningi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.