Sérstaða íslenskra stúdenta

Samstaða og einhugur einkenndi mótmæli ólíkra félagasamtaka og hópa þegar Li Peng, forseti „þjóðþings“ Kína, var hér í opinberri heimsókn á dögunum. Meira að segja anarkistar og velferðarkálfar tóku höndum saman og Birna Þórðardóttir og Kjartan Gunnarsson voru í sama liðinu. Ef frá eru talin augljós stjórnarskrárbrot lögreglu og einstæð ókurteisi kínversku gestanna, þá vakti einna mesta athygli framganga meirihluta Röskvu í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Röskva neitaði að taka þátt í mótmælunum með þeim rökum, að málið væri íslenskum stúdentum óviðkomandi.

Samstaða og einhugur einkenndi mótmæli ólíkra félagasamtaka og hópa þegar Li Peng, forseti „þjóðþings“ Kína, var hér í opinberri heimsókn á dögunum. Meira að segja anarkistar og velferðarkálfar tóku höndum saman og Birna Þórðardóttir og Kjartan Gunnarsson voru í sama liðinu. Ef frá eru talin augljós stjórnarskrárbrot lögreglu og einstæð ókurteisi kínversku gestanna, þá vakti einna mesta athygli framganga meirihluta Röskvu í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Röskva neitaði að taka þátt í mótmælunum með þeim rökum, að málið væri íslenskum stúdentum óviðkomandi.

Með þessari afstöðu hafa Röskvumenn markað sér heldur dapurlega sérstöðu meðal stúdentaleiðtoga í hinum vestræna heimi. Stúdentar hvarvetna á Vesturlöndum hafa verið í fylkingarbrjósti þeirra sem mótmælt hafa framgöngu kínverskra yfirvalda og jafnan gengið lengst í gagnrýni sinni. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hélt þessu merki á lofti fyrir hönd íslenskra stúdenta með ályktun og þátttöku í mótmælaaðgerðunum. Röskva sendi reyndar frá sér ályktun um málið seint um síðir, í nafni stúdentaráðs og þar með stúdenta allra:

„Stúdentaráð Háskóla Íslands leggur áherslu á rétt stúdenta til frjálsra skoðanaskipta og til að koma mótmælum sínum með friðsamlegum hætti á framfæri við stjórnvöld. Vegna væntanlegrar komu Li Pengs, forseta kínverska þjóðþingsins, vill Stúdentaráð gagnrýna harðlega þá atburði sem áttu sér stað á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989 þegar brotið var harkalega gegn ofangreindum réttindum stúdenta með þeim afleiðingum að fjöldi fólks beið bana.“

Þessi ályktun er íslenskum stúdentum til skammar. Það eina sem vantar í hana er að Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar að kínversk stjórnvöld skyldu ekki hafa gætt meðalhófs í aðgerðum sínum á Torgi hins himnseska friðar. Í lok ályktunarinnar er látið í veðri vaka að fólkið hafi beðið bana fyrir slysni, eða óvarkárni valdhafa.

Stúdentar um heim allan hafa jafnan staðið saman í gegnum þykkt og þunnt í réttindabaráttu sinni. Forvígismenn íslenskra stúdenta – í líki Röskvu – hafa markað þeim sérstöðu í þessum efnum: Íslenskir stúdentar hafa mestan skilning allra vestrænna stúdenta á framferði kínverskra stjórnvalda – þeim kemur það einfaldlega ekki við.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.