Á brattan að sækja fyrir Bush

Þegar einungis þrír mánuðir eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum hafa frambjóðendurnir Al Gore og George Bush hnífjafnt fylgi meðal kjósenda.

Þegar einungis þrír mánuðir eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum hafa frambjóðendurnir Al Gore og George Bush hnífjafnt fylgi meðal kjósenda. Tímaritið Time, sjónvarpststöðin NBC og markaðsfyrirtækið Gallup birta skoðanakannanir sínar í morgun og eru niðurstöður þeirra nánast þær sömu. Kannanir Time og NBC benda til að Gore hafa 1% forskot á Bush en þetta snýst við í könnun Gallups. Ekki er langt síðan Bush hafði mikið forskot í skoðanakönnunum en sú forysta er nú uppurin. Gore hefur reyndar haft nokkurra stiga forskota að undanförnu og því virðist sem dregið hafi saman með frambjóðendunum á ný.

Gore náði sér vel á strik í kjölfar landsþings Demókrata í Los Angeles og svo virðist sem boðskapur hans á þinginu hafi náð eyrum kjósenda með áhrifameiri hætti en ætla hefði mátt í fyrstu. Á sama tíma hefur Bush fatast eilítið flugið og hann hefur gert slæm glappaskot. Í þessu ljósi líta margir Repúblikanar á niðurstöðu skoðanakannanna í morgun sem sigur. Það að Bush skuli halda í við Gore þegar best gengur hjá þeim siðarnefnda og kosningavél þess fyrrnefnda í tómu ströggli, gefur að mati margra Repúblikana vísbendingu um að Bush eigi meira inni.

Ljóst er að kappræður milli kandídatana í næsta mánuði munu miklu ráða um niðurstöðu kosninganna. Al Gore er almennt talinn betri í kappræðum og Bush getur að mati stjórnmálaskýrenda vestra í besta falli vonast eftir jafntefli í þeirri rimmu. Á það verður einnig að líta að Bush er áskorandinn í þessari kosningabaráttu og því lengur sem honum mistekst að ná forskoti og frumkvæði í baráttunni, verður æ ljósara að breytingar í Hvíta húsinu eru ekki mjög framarlega á forgangslista bandarískra kjósenda.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.