Segja fjölmiðlar okkur satt?

Kosningabaráttan í Bandaríkjunum er ólík því sem við eigum að venjast á Íslandi. Hún einkennist fyrst og fremst af skýrri afstöðu fjölmargra fjölmiðla og oft á tíðum ótrúlegu skítkasti þeirra út í frambjóðendur. Vandamálið sem kjósendur standa frammi fyrir er hverjum þeir eigi að treysta til að segja satt.

Þrátt fyrir að við kvörtum oft yfir óvönduðum vinnubrögðum íslenskra fjölmiðla má segja að í seinni tíð taki þeir ekki skýra afstöðu með einum stjórnmálaflokki frekar en öðrum. Vissulega hneigjast sumir miðlar í ákveðna átt þótt allir gefi þeir sig út fyrir að vera hlutlausir. Líklega hefur Morgunblaðið gengið lengst í því að taka skýra afstöðu í viðkvæmum málum þótt Fréttablaðið hafi tekið upp svipaða stefnu. Þessi stefna kemur fyrst og fremst fram í leiðaraskrifum eða viðhorfsgreinum blaðanna.

Sumir telja að þess konar vinnubrögð þýði að draga eigi fréttaflutning þessara sömu miðla í efa, að hlutleysi þeirra sé þar með ógnað. Aðrir telja að fjölmiðlar geti aldrei verið hlutlausir, því fréttaval og þar með fréttaflutningur einkennist alltaf af viðhorfi þeirra sem fréttirnar skrifa. Eiga frétta- og blaðamenn að gefa upp afstöðu sína í ákveðnum málum? Er þeim frekar treystandi ef við vitum hvar þeir standa í pólitík?

Þeir sem lifa og hrærast í samfélaginu geta sjaldnast verið hlutlausir enda mótast skoðanir okkar yfirleitt af þeim viðhorfum sem í gangi eru á hverjum tíma. Fjölmiðlafólk leggur starfsheiður sinn að veði í hvert sinn sem það vinnur að ákveðinni frétt og yfirleitt er eina takmark þeirra að þjóna sannleikanum. Það er hins vegar síður en svo einfalt því sannleikurinn er afstæður. Í söngleiknum Jesus Christ Superstar segir Pontíus Pílatus við Jesú; ,,Við þjónum báðir sannleikanum, en þjónum við þar með sama sannleikanum?”

Virt dagblöð í Bandaríkjunum á borð við New York Times lenda í sams konar siðferðislegri kreppu. Afstaða eigenda NY Times fyrir forsetakosningarnar kom skýrt fram þegar blaðið sagðist styðja John Kerry. Breska vikuritið The Economist sagði að bandaríska forsetaembættið væri of mikilvægt til þess að erlent blað gæti ekki tekið afstöðu. Það studdi sömuleiðis frambjóðenda demókrata. En hvorugt þessara blaða lét sína afstöðu bitna á fréttaflutningnum. Það sama verður hins vegar ekki sagt um mörg önnur, til að mynda The Village Voice sem kemur út í hverri viku og er dreift frítt um alla New York borg.

Myndin sem fylgir pistlinum birtist á forsíðu The Voice í vikunni fyrir kosningarnar með fyrirsögninni Sucking Democracy Dry, eða lýðræðið blóðmjólkað. George Bush er ekki í miklum metum hjá blaðinu enda er hann yfirleitt kallaður lygari í greinum þess eða eitthvað þaðan af verra. Engu að síður er erfitt að meta hvaða áhrif slíkur fréttaflutningur hefur. John Kerry fékk um 80% atkvæða borgarbúa svo það er nokkuð ljóst hvert hugur þeirra stefndi. Ef til vill var það ekki blaðið sem mótaði skoðanir almennings, heldur vilji almennings sem kom fram á forsíðu þess.

Fox sjónvarpsstöðin studdi hins vegar forsetann með ráðum og dáðum. Sem dæmi um fréttaflutning þeirra má nefna mjög furðulega frásögn sem var margendurtekin daginn fyrir kjördag. Þulurinn fjallaði þá hlægjandi um alla lukkugripina sem Kerry tók með sér á kosningafundi, þar á meðal skeifu, kanínufót og bók sem Bill Clinton hafði gefið honum. Reyndar tók Fox stöðin það sérstaklega fram að um svo marga gripi væri að ræða að Kerry þyrfti að bera þá í ferðatösku. Sannleiksgildi fréttarinnar var að mínu viti ekki sannreynt og aðrar sjónvarpsstöðvar einbeittu sér frekar að mikilvægari málum.

Í raun og veru er erfitt að draga einhverja ályktun af þessum dæmum, við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvort fjölmiðlafólki sé treystandi til að segja okkur sannleikann? Já, en við verðum ávallt að taka honum með fyrirvara, vega hann og meta í hvert sinn. Blint traust er aldrei gott, hvort sem er gagnvart fréttum eða hverju öðru sem við heyrum í amstri dagsins.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)