Bush með meirihluta

Þó að það sé ekki endanlega staðfest þá lítur allt út fyrir að Georg W. Bush hafi verið endurkjörinn forseti til næstu fjögra ára í Bandaríkjunum. Tilfinningar margra evrópskra hægrimanna eru blendnar, enda þykir Bush hafa ekki hafa nýtt tækifærið sem hann fékk síðast nógu vel.

Þó að það sé ekki endanlega staðfest þá lítur allt út fyrir að Georg W. Bush hafi verið endurkjörinn forseti til næstu fjögra ára í Bandaríkjunum. Nú í morgun lýsti Andrew Clark, starfsmannastjóri Hvíta hússins yfir sigri Bush, en Kerry og demókratar hafa enn ekki játað sig sigraða og bíða eftir niðurstöðu utankjörfundar- og vafaatkvæða í Ohio sem eru um 250 þúsund. Þegar þetta er skrifað þá hefur Bush 136 þúsund atkvæða forystu í fylkinu, en ljóst er að sá sem sigrar þetta fylki verður forseti.

Eitt af því sem talið er að hafa hjálpað Bush í Ohio er að þar var, eins og í tíu öðrum fylkjum, kosið um það hvort breyta ætti stjórnarskrá landsins í þá veru að samkynhneigðum verði gert ókleift að ganga í hjónaband. Þetta kosningamál hefur að einhverju leiti dregið fólk á kjörstað sem annars hefði setið heima, en þetta sama fólk er mun líklegra til þess að hafa kosið Bush.

Í þessum ellefu fylkjum var tillagan samþykk.

Kosningaþátttaka hefur sjaldan verið meiri eða um 60% sem jafnast á við kosningarnar 1960 þega Kennedy sigraði Nixon. Talið er að um 110 til 120 milljónir hafi kosið að þessu sinni og hafa atkvæði fallið þannig að Bush fékk 51% og Kerry 48%. Þetta þýðir að aldrei hefur forseti í Bandaríkjunum haft jafnmikið af atkvæðum á bak við sig, yfir 58 milljónir atkvæða. Það hlýtur að vera léttir fyrir forsetan að hafa nú meirihluta atkvæða á bak við sig, ólíkt því sem síðast gerðist.

Tilfinningar margra evrópskra hægrimanna eru blendnar, enda þykir Bush hafa ekki hafa nýtt tækifærið sem hann fékk nógu vel. Hægrimenn í Evrópu studdu flestir Bush fyrir síðustu kosningar enda voru fyrirheit hans góð, en finnst hann nú ekki hafa valdi embættinu almennilega. Einnig á stefna Bush í siðferðismálum ekki mikin hljómgrunn á meðal Evrópubúa, hvort sem þeir standi til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Af tveimur slæmum kostum horfðu þeir nú fremur til Kerrys, enda þykir hann ekki vera jafn vinstrisinnaður og t.a.m. bæði Clinton og Gore eru.

Til marks um þetta þá lýsti hið hægrisinnaða breska blað The Economist yfir stuðningi við Kerry, þó með nokkrum trega þar sem fyrirsögn leiðarans var „The incompetent or the incoherent“ – „Þann óhæfa eða hinn óskiljanlega“. The Economist studdi Bush fyrir síðustu kosningar en er nú ósátt við ákvarðanir stjórnar Bush í utanríkis- og mannréttindamálum. Þar eru fangabúðirnar í Guantanamo nefndar auk pyntinganna í Abu Graif fangelsinu í Írak. Ritstjórnin finnur samhljóm með mörgum af yfirlýstum markmiðum Bush en segir að forsetinn hafi brugðist á yfirstandandi kjörtímabili.

Þú úrslitin séu ekki endanlega staðfest þá þarf þessi niðurstaða ekki að koma á óvart. Bandaríkjamenn fella ekki forseta sem stendur í stríði, hvort sem menn horfa til Íraksstríðsins eða hryðjuverkastríðsins í heild sinni. Hætta er á því að vægi hina svokölluðu “hauka” í ríkisstjórn Bandaríkjana muni aukast sem mun aftur ýta undir núverandi stefnu í utanríkismálum. Bandaríkjamenn þurfa að láta af einangrunnarstefnu sinni og endurheimta aftur traust hjá vina- og bandalagsþjóðum sínum í Evrópu. Þó að hægt sé að taka undir mörg stefnumál Bush í efnahagsmálum, þá vegur þessi hlutur það þungt að betra hefði verið að Kerry hefði unnið.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.