Ísland og Alþjóða hvalveiðiráðið

Pistillinn fjallar um tilraun Íslands til að ganga aftur í Alþjóða hvalveiðiráðið.

Samkvæmt stofnsamningi Alþjóða hvalveiðiráðsins er markmið þess að stuðla að vernd hvalastofna þannig að hvalveiðar geti þróast með skipulegum hætti. Þrátt fyrir þetta markmið tók ráðið þá ákvörðun að stöðva allar hvalveiðar í atvinnuskyni á árunum 1986-1990. Á því tímabili átti ráðið að beita sér fyrir því að rannsóknir færu fram á hvalastofnum, til þess að það gæti tekið ákvörðun um áframhaldandi veiðar. Ísland sagði sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu árið 1992. Hafði ráðið þá ítrekað hafnað tillögum um endurupptöku hvalveiða og haft að engu þær rannsóknir sem fram höfðu farið á hvalastofnunum. Taldi Ísland að ráðið starfaði ekki í samræmi við markmið sín og væri orðið að hvalfriðunarráði fremur en hvalveiðiráði.

Þessi ákvörðun sætti gagnrýni hér heima og erlendis og álitu margir árangursríkara að Íslendingar reyndu frekar að vinna hvalveiðum fylgi innan ráðsins. Fyrir ári síðan ákvað Ísland því að ganga aftur inn í ráðið. Um leið gerði það fyrirvara við bannið vegna hvalveiða í atvinnuskyni, sem er að finna í viðauka við samninginn um Alþjóða hvalveiðiráðið. Töldu Íslendingar það heimilt samkvæmt þeirri meginreglu þjóðaréttar að ríki geti gert fyrirvara við tiltekin ákvæði samnings, svo framarlega sem fyrirvarinn sé í samræmi við markmið og efni samningsins. Einstök aðildarríki geta þó, hvert fyrir sig, mótmælt fyrirvaranum. Höfðu önnur aðildarríki ráðsins áður gert fyrirvara við ákvæði samningsins án athugasemda.

Meirihluti Alþjóða hvalveiðiráðsins áleit hins vegar að fjalla ætti um aðild Íslands á vettvangi ráðsins, þar sem fyrirvarinn varðaði grundvallaratriði samningsins og væri óaðskiljanlegur hluti aðildarskjalsins. Var samþykkt í atkvæðagreiðslu, með 19 atkvæðum gegn 18, að ráðið væri bært til þess að fjalla um aðild Íslands með fyrirvaranum. Með annarri atkvæðagreiðslu var aðild Íslands síðan hafnað.

Á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins sem haldinn var fyrir rúmri viku lögðu Íslendingar aftur fram aðildarskjal að ráðinu. Sami fyrirvari var gerður við hvalveiðibannið, en jafnframt skuldbundu Íslendingar sig til að hefja ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en tiltekinni endurskoðun á veiðireglum væri lokið. Meirihluti ráðsins taldi hins vegar að ekki væri um nýtt aðildarskjal að ræða og stendur því hin umdeilda ákvörðun ráðsins frá því í fyrra.

Á sama fundi hafnaði Alþjóða hvalveiðiráðið því að afnema bannið við hvalveiðum í atvinnuskyni sem hefur staðið í fjórfalt lengri tíma en gert var ráð fyrir. Meirihluti aðildarríkja ráðsins er einfaldlega andvígur hvalveiðum, og sum þeirra hafa lýst því yfir að þau muni aldrei samþykkja hvalveiðar af nokkru tagi. Alþjóða hvalveiðiráðið virðist því ekki starfa samkvæmt upphaflegu markmiði sínu, sem er að stuðla að því að hvalveiðar fari fram með skipulegum hætti.

Þrátt fyrir það má ætla að það geti reynst Íslendingum erfitt að hefja hvalveiðar á ný utan ráðsins. Aðild að ráðinu skiptir máli fyrir stöðu Íslands á alþjóðavettvangi bæði gagnvart þjóðum sem eru andvígar hvalveiðum og þjóðum sem eru hlynntar þeim. Þannig er aðildarþjóðum Alþjóða hvalveiðiráðsins til að mynda ekki heimilt að kaupa hvalaafurðir af þeim þjóðum sem standa utan ráðsins.

Á meðan skipan þjóða í Alþjóða hvalveiðiráðið helst óbreytt, virðist ljóst að aðild Íslands með fyrirvara við hvalveiðibannið verður ekki samþykkt. Að sama skapi bendir fátt til þess að bannið verði afnumið í bráð. Eins og staðan er nú verða Íslendingar því að gangast undir bannið við hvalveiðum í atvinnuskyni, vilji þeir gerast fullgildir aðilar að Alþjóða hvalveiðiráðinu.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)