Fótboltaveislan kostar

Það eru margir svekktir yfir því að RÚV sýni ekki HM. En það hefur þó ýmsa kosti í för með sér því nú virðist sem raunverulegt verðmæti skemmtunarinnar sé flestum augljósara.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að forráðamenn Norðurljósa hafi sett sig í samband við eigendur veitingastaða í þeim tilgangi að óska eftir því að þeir greiði gjald fyrir leyfi til að varpa myndum frá leikjum á HM upp á breiðtjöld inni á vetingastöðum sínum. Svo virðist sem nokkur hópur veitingamannanna telji þetta vera fremur ósanngjarna kröfu, enda hafa þeir hingað til ekki greitt hærra gjald en venjulegur einstaklingur í heimahúsi.

Gjaldið sem Norðurljós fara fram á er 450 þúsund krónu á hvern veitingastað. Þetta er auðvitað nokkuð mikið hærra áskriftargjald heldur en einstaklingur heima í stofu þarf að greiða en öllum ætti þó að vera ljóst að krafa Norðurljósa getur vart talist annað en sanngjörn.

Það voru mikil gleðitíðindi hér á Íslandi þegar út spurðist að Norðurljós hyggðust bjarga landanum frá HM – lausu sumri með því að gera stóran, og um leið áhættusaman, samning um einkarétt á sýningu leikjanna. Þetta var einnig þeim, sem trúa á einkaframtakið, ákveðin hvatning því það var ekki ríkisstyrkta báknið sem hirti HM heldur einkarekni samkeppnisaðilinn. Nú sjá menn betur en áður hvers lags verðmæti það eru að fá að sýna frá stórviðburði á borð við HM. Ekki einasta skilar það krónum í kassa Norðurljósa í formi auglýsinga og áskrifta heldur hefur viðburðurinn í för með sér mikinn hagnað t.d. veitingasala, en mörgum þykir gott að fá sér bjór eða tvo þegar þeir horfa á fótboltaleiki með vinum sínum – og jafnvel hnetur eða hamborgara.

Þannig hefur viðburður á borð við HM mikla veltu í för með sér. Áður fyrr þegar ríkið tók á sig kostnaðinn við að sýna HM hér á landi nutu ýmsir jákvæðra hliðarverkana en enginn gerði sér grein fyrir kostnaðinum á bak við það. Fram að þessu HM var því í raun engin leið til þess að meta það hvort hér á landi væri markaður fyrir því að sýna keppnina (þótt flestir hefðu nú vafalaust veðjað á að svo væri). Að sama skapi er engin leið til þess að meta hvort hér á landi sé raunverulegur markaður fyrir Eurovision (eða Júgravision eins og það er kallað m.v. klæðaburð keppenda sl. laugardag), Formúla 1 kappakstur, HM í handbolta eða þætti á borði við Vesturálmuna, Ali G og svo mætti lengi telja.

Sú krafa Norðurljósa að aðilar, sem ekki greiða fyrir meira en einfalda áskrift af Stöð 2 og Sýn, greiði aukalega fyrir að bjóða hundruðum annarra að njóta keppninnar er langt í frá ósanngjörn og í raun virðist gjaldið, 450 þúsund krónur, vera fremur hóflegt m.v. þann ávinning sem umræddir veitingastaðir ættu að geta tryggt sér.

***Athugasemd: Því er ranglega haldið fram í þessum pistli að mánaðargjald skyldi vera 450 þús. heldur var hér um árgjald að ræða***

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.