Barnasálfræði

sdfdMarkaðssérfræðingar telja sig marga vera ansi sniðuga þegar kemur að því að vekja athygli á nýjum varningi. Að undirlagi eins slíks kóna vil ég benda kvenkyns lesendum Deiglunnar á að þeir mega alls ekki — undir neinum hugsanlegum kringumstæðum — lesa pistilinn sem hér fer á eftir.

Lesendur Deiglunnar þekkja barnasálfræði þegar þeir sjá henni beitt við markaðssetningu…

Án þess að ég hafi það fyrir víst, þá finnst mér líklegt að fleiri stúlkur en strákar séu að renna yfir pistilinn akkúrrat á þessu augnabliki. Ef svo er, þá væri sennilega hress leikur í stöðunni að nota tækifærið snemma í pistlinum og leiðrétta þann misskilning að einhvers konar mismunun hafi verið fólgin í inngangsorðum hans. Svo var að sjálfsögðu ekki. Enda hallar á íslenskt kvenfólk á svo mörgum vígstöðvum að það væri sannarlega að æra óstöðugan að gera slíkt hið sama á þessu annars víðsýna vefriti. Best væri ef lesendur gætu hugsað þetta sem einskonar mannlífstilraun.

Ég get játað því að inngangurinn og fyrstu línurnar í þessum pistli eru kannski ekkert sérstaklega skemmtilegar. Hins vegar eru þær nauðsynlegar til að byggja undir það sem seinna kemur — skapa fast land fyrir alla þá ótal útúrsnúninga sem á eftir koma.

Barnasálfræði er nefnilega sniðug og þrælvirkar jafnvel á fullorðna og hún virkar á börn. Þannig vita allir sem komið hafa að barnauppeldi að sennilega er ekki til betri leið til að fá önugan grísling til að gera það sem um er beðið en segja t.d: „Ég held þú getir alls ekki hlaupið upp stigann, sett popp í örbylgjuofninn, hellt kóki í glas með klökum, lækkað hitann og tekið símann úr sambandi á innan við 3 mínútum!“

Og viti menn: Gríslingurinn hleypur vongóður af stað — staðráðinn í að ljúka verkinu á innan við þremur mínútum.

Gallinn er hins vegar sá að yfirgnæfandi líkur eru á að í öllum hamaganginum hringsnúist fyrirmælin í huga smápattans og hann endi með því að hella kóki í poppið, setja klaka í stigann, taka örbylgjuofninn úr sambandi og kveikja upp í arninum…

En aðalatriðið er að hann mun ljúka ætlunarverkinu innan þriggja mínútna!

Þannig virkar nefnilega barnasálfræði. Hún fær okkur til að gera það sem við viljum ekki gera. Sá sem fær okkur til verksins treystir því að okkur leiðist að láta aðra segja okkur hvað við getum og hvað getum ekki. En gerandinn leggur einmitt fram beiðnir sínar og fyrirmæli í ljósi þessa trausts og veit mætavel að við kolföllum í gryfjuna.

Gott og vel, ekki sannfærandi? Kannski myndi einhver spyrja hvers vegna ég hafi ekki hafið inngangsorð pistilsins með því að banna öllu rauðhærðu fólki að lesa hann í stað þess að meina kvenkyns lesendum Deiglunnar aðgang að djúphugsaðri speki minni. Jú, á sama máta og markaðsstjóri sælgætisfyrirtækis hér í borg, veit ég að það eru hlutfallslega færri rauðhærðir sem lesa Deigluna en kvenmenn. Sökum þess hefði verið glapræði að lenda upp á kant við rauðhærða í samfélaginu — auk þess sem rauðhærði armurinn innan Deiglunnar er einn sá róttækasti í manna minnum!

En nóg af þeim vígstöðvum. Glöggir lesendur eru vafalítið farnir að tengja myndefni pistilsins við efni hans og sjá því og þekkja barnasálfræði í neytendapakkningum. Þannig efast ég ekki um að salan á Yorkie-sælgæti hafi rokið upp í tengslum við téða markaðsherferð þeirra. Það væri kannski ofsögum sagt að ætla að heilu rúturnar af kvenfólki með Sirrý hafi gert áhlaup á helstu sjoppur bæjarins og heimtað Yorkie-súkkulaði í nafni kvenréttinda.

En þá fyrst væri björninn unninn í huga markaðsmannsins!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)